Stuttmyndin Fár eftir Gunni Martinsdóttur Schlüter er meðal 11 verka sem keppa um Gullpálmann í stuttmyndaflokki Cannes hátíðarinnar í maí næstkomandi. Þetta var tilkynnt síðdegis í gær. Um virtustu kvikmyndahátíð heims er að ræða og voru innsendar myndir í stuttmyndaflokki um 4288.

Gunnur skrifar handrit, leikstýrir og fer með aðalhlutverkið. Meðal annarra leikara eru Jörundur Ragnarsson og Þrúður Vilhjálmsdóttir. Fár er fimm mínútur að lengd. Í myndinni tekst einstaklingur á við aðstæður sem reyna á siðferði mannskepnunnar í aftengdum heimi við náttúruna, segir í kynningu á vef Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Framleiðendur eru Sara Nassim og Rúnar Ingi Einarsson fyrir Norður. Eli Arenson, tökumaður Dýrsins, sér um kvikmyndatöku. Brúsi Ólason og Guðlaugur Andri Eyþórsson sjá um klippingu. Hljóðhönnun er í höndum Björns Viktorssonar og Haraldar Þrastarsonar.  Rebekka Ingimundardóttir sér um leikmynd og Hulda Halldóra Tryggavdóttir er búningahönnuður.

Gunnur útskrifaðist með BA gráðu frá University of Music & Theater í Hamborg og er á öðru ári í leiklistarnámi í Listaháskóla Íslands. Hún er dóttir Ásdísar Thoroddsen leikstjóra en fyrsta bíómynd Ásdísar, Ingaló, var einmitt frumsýnd á Cannes hátíðinni vorið 1992.

Listaháskóli Íslands óskar Gunni innilega til hamingju með tíðindin og hlakkar til að fylgjast með myndinni á Cannes í maí.