Formáli

 

Kæru lesendur það verður að teljast merkilegt nokk að fámennt (en sívaxandi) samfélag eins og okkar skuli halda úti vefriti um tónlist nú í átta ár. Eða kannski er það ekkert merkilegt? Kannski er það sjálfsagður hlutur á öld internetsins þegar slík útgáfustarfsemi er með öllu einföld og kannski furða að ekki skuli fleiri slík spretta upp. En orðin skrifa sig ekki sjálf (þótt vissulega séu blikur á lofti) og erum við því afar þakklát þeim sem að leggja það á sig að koma hugsunum sínum um tónlist í orð. Þræðir hafa lagt upp með það að skapa opinn og fjölbreyttan vettvang og erum við stolt af því safni ólíkra radda sem tölublöðin hafa að geyma. Við vitum samt að við höfum ekki náð til allra, enn skortir okkur pælingar, hugleiðingar, rannsóknir, greiningar og yfirlýsingar frá vissum svæðum í flóru tónlistarfólks á Íslandi. Við höldum því ótrauð áfram. 

Hér í 8. tölublaði Þráða eru á ferðinni átta greinar þar sem ýmis sjónarhorn eru dreginn fram í sviðsljósið: Berglind María Tómasdóttir greinir frá rannsóknarviðfangsefni sínu um valdeflingu flytjandans, Cayla Rosché sendir okkur yfirlit á rannsóknum sínum á sönglögum sem styðjast við texta eftir Halldór Laxness á meðan Helgi Rafn Ingvarsson skyggnist inn í samband tónlistar, samfélags og hagkerfis. Ingrid Örk Kjartansdóttir leiðir okkur um meistararitgerð sína þar sem hún rýnir í stöðu jazzins á Íslandi og Mikael Lind varpar fram hugleiðingu um samband tónlistar og myndhverfinga. Elín Anna Ísaksdóttir og Tryggvi M. Baldvinsson velta upp mikilvægum spurningum um tónlistarmenntun í síbreytilegum nútíma og hverju ber að huga að í framtíðinni, og Þorbjörg Daphne Hall greinir frá spjalli sínu við Hjálmar H. Ragnarsson og viðburði tónlistardeildar LHÍ s.l. haust í tilefni af 70 ára afmæli Hjálmars. Að lokum fáum við innsýn í hlutverk sýningarsjórnunar með pistli Þráins Hjálmarssonar.  

Ég vil þakka aftur greinarhöfundum þessa tölublaðs kærlega fyrir framlagið og hvetja þá sem lesa að láta freistast að ári. Eins og endranær þakka ég svo Þorbjörgu Daphne Hall og Atla Ingólfssyni fyrir farsælt samstarf og þeirra góða ritstjórnarstarf. 

 
F.h. ritnefndar 

Einar Torfi Einarsson 

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Þræðir - forsíða

Tölublað 8

TÖLUBLAÐ 8

Um höfunda