Að spila er að semja er að hlusta er að spila -- valdefling flytjandans  

Berglind María Tómasdóttir 

Fyrirlestur fluttur á Hugarflugi í febrúar, 2023. Fyrirlestrinum hefur verið breytt lítillega og hann aðlagaður að greinarformi.

  • Hvernig er hægt að valdefla samtímatónlistarflytjandann sem skapandi listamann?
  • Hvernig getum við endurskilgreint flytjandann sem skapandi tónlistarmann sem bæði semur og flytur tónlist?
  • Hvað ávinnst með nálgun þar sem hefðbundin hlutverkaskipan innan samtímatónlistar er afbyggð með þessum hætti?

Þessar spurningar liggja til grundvallar í starfendarannsókn minni Að spila er að semja er að hlusta er að spila -- valdefling flytjandans. Í þessari grein mun ég beina sjónum að samhengi rannsóknarinnar og þeim heimi tónlistar sem ég starfa í. Rannsóknin sem slík er ekki hafin með formlegum hætti en ég mun gera grein fyrir framvindu hennar á þessum vettvangi og annars staðar þegar fram líða stundir. Þar sem um starfendarannsókn er að ræða má samt segja að rannsóknin sé löngu hafin með óformlegum hætti í gegnum mína iðkun sem tónlistarmaður og kennslu við tónlistardeild Listaháskóla Íslands.

Samhengi

Tónlist er list augnabliksins, loft á hreyfingu og á því heima í núinu sé hún raungerð í hljóði. En eins og við vitum á tónlist líka heima í orðum, hreyfingum og myndum, oft eru þau fyrirbæri kölluð skor, eða jafnvel ljóð. Samtímatónlist er tónlist sem verður til í samtímanum, þar með talin er tónlist fyrri tíma sem flutt er í samtímanum. Við getum líka þrengt sjónarhornið og talað um samtímatónlist sem vestræna akademíska tónlist 20. og 21. aldar sem verður til í framhaldi af vestrænni klassískri tónlist fyrri alda. Iðulega má rekja vestræna sígilda og samtímatónlist til þeirra fjölmörgu menntastofnanna sem kenna vestrænar tónsmíðar, enda gengur hún einnig undir heitinu akademísk tónlist. Innan samtímatónlistar er líka að finna tónlist sem hlotið hefur regnhlífarheitið tilraunatónlist. Þar kennir ýmissa grasa eins og er vel skilgreint í grein Bob Gilmore, „Five Maps of the Experimental World“, sem ég hef áður gert grein fyrir á þessum vettvangi.[1]

Tilraunatónlist er einnig skilgreind út frá því að vera ekki-stefna, heldur fordómalaus afstaða til tónlistar þar sem tilraun, sem getur falið í sér ólíkar miðlunarleiðir, á sér stað og óvissa ríkir um útkomu.[2] Í tilraunatónlist er skapandi þáttur flytjandans iðulega fyrirferðameiri en í hefðbundinni samtímatónlist sem reiðir sig á nákvæmlega útskrifuð skor sem útlista útfærslu verka í smáatriðum. Í tilraunatónlist finna margir, og er ég þar meðtalin, farveg til að þróa eigin skapandi rödd. Þar er rými til að vinna þvert á miðla, semja í rauntíma eða spinna og þróa leiðir að framsetningu verka. Vissulega má færa rök fyrir því að í þessari gerð tónlistar séu viðlíka strangar flutningshefðir til staðar og í annarri samtímatónlist þrátt fyrir að birtingarmyndirnar séu aðrar. Og vissulega er áherslan á verkið og þar með höfundinn til staðar í tilraunatónlist, nægir að nefna hið víðfræga verk 4'33 eftir John Cage í því samhengi.

Markmið rannsóknar minnar er að valdefla flytjendur og afbyggja niðurnjörvuð hlutverk innan samtímatónlistar. Ávinningurinn felst í opnari og meira inngildandi heimi samtímatónlistar þar sem rými myndast fyrir fleiri mismunandi raddir. Það vona ég að minnsta kosti. Að vera flytjandi vestrænnar sígildrar og samtímatónlistar getur nefnilega verið afar takmarkað þar sem rými fyrir sköpun og dagskrárvald er af skornum skammti. Þessi hlutverkaskipan grundvallast meðal annars á þeirri hugmynd að (tón)verkið sé hið eiginlega listverk, flutningur alltaf málamiðlun. Undir þessum formerkjum eru flytjendur óhjákvæmilega alltaf settir skör lægra en þeir sem skapa verkin. Hið takmarkaða skapandi hlutverk flytjandans kannast margir við sem hafa gengið í gegnum konservatoríþjálfun. Í flytjendanámi á háskólastigi innan sígildrar og samtímatónlistar hefur yfirleitt ekki verið mikið rými gefið fyrir gagnrýna umræðu um stöðu og eðli sígildrar og samtímatónlistar; hvaðan hún kemur, hvernig hún er tilkomin og kannski umfram allt hvar dagskrárvaldið liggur. Hægbítandi er þetta að breytast og vissulega er til nám á háskólastigi sem leitar annarra leiða. Meistaranámsleiðin Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf (e. New Audiences, Innovative Practice, skammstafað NAIP), sem boðið er upp á við tónlistardeild Listaháskóla Íslands, er dæmi um slíkt nám. Einnig tel ég mikilvægt að í boði séu farvegir innan tónlistardeildar fyrir nemendur allra brauta til að vinna að tónsköpun. Skerpla, tilraunastofa í tónlist, sem starfrækt er við tónlistardeild, er dæmi um slíkan farveg. Hún fer fram sem námskeið tvisvar sinnum í viku báðar annir skólaársins. Hún samanstendur af spunatímum og verklegri tónsmíðastofu þar sem unnið er að tónsköpun með mismunandi aðferðum. Loks kemur Skerpla stundum fram sem tónlistarhópur, nú síðast á Myrkum músíkdögum í janúar 2023 þegar hún tók þátt í flutningi á In a Large Open Space eftir James Tenney ásamt kanadíska Bozzini -kvartettnum. Ég mun leitast við að tengja þetta starf við rannsóknina en verkefni unnin í samstarfi við nemendur Listaháskóla Íslands verða liður í henni. Þannig verður til námsefni sem stuðlar að markmiðum rannsóknar; að valdefla flytjendur til sköpunar.

Straumar og stefnur

Nýverið birtist stefnuyfirlýsing í 11. tölublaði tímaritsins ADZR Zine undir yfirskriftinni Nýja snilligáfan: stefnuyfirlýsing fyrir samtímahljóðsköpun sem er þýðing Þráins Hjálmarssonar á enska heitinu The New Virtuosity - A Manifesto for Contemporary Sonic Practice.[3] Höfundar eru áströlsku tónlistarmennirnir Cat Hope og Louise Devenish. Í stefnuyfirlýsingunni fanga þær gildi og grundvallarþætti sem mynda eins konar áttavita að samtímatónlistariðkun sem afbyggir hefðbundna hlutverkaskipan. Aðferðir sem þær byggja stefnuyfirlýsinguna á hafa rutt sér til rúms á undanförnum árum, þar sem hlutverk tónskálda, flytjenda og áheyrenda hafa verið afbyggð. Þá er vikið frá hugmyndum um hinn alvitra höfund og dagskrárvaldið dreifist á fleiri aðila verksköpunar. Áhersla er á samsköpun. Með því að nota orðið snilligáfa eða virtúósítet beina þær kastljósinu að viðteknum hugmyndum innan sígildrar og samtímatónlistar um snillinginn og snilligáfuna sem enn eru ríkjandi innan hefðbundinna kerfa klassískrar tónlistar. Stefnuyfirlýsingin kallast á við aðra stefnuyfirlýsingu sem írska tónskáldið Jennifer Walshe setti fram fyrir nokkrum árum undir yfirskriftinni Hið nýja fag eða The New Discipline.[4] Þar lýsir hún starfi sínu sem tónskáld og flytjandi og aðferðum sem fela í sér þverfaglega nálgun. Walshe undirstrikar að Nýja fagið byggi á þeirri staðreynd að tónskáld taki virkan þátt í flutningnum. Endurhugsun á hlutverkum og eðli þeirra innan samtímatónlistar eru lykilatriðin í báðum stefnuyfirlýsingum sem nefndar hafa verið hér og rannsókn mín á í samtali við þessar pælingar; að afbyggja hefðbundna hlutverkaskipan innan samtímatónlistar. Að gera tónlistariðju meira inngildandi út frá sjónarhóli flytjandans. Ég legg áherslu á sjónarhorn flytjandans því einhvern veginn virðist sjónarhorn tónskáldsins alltaf vera sýnilegra í orðræðunni. Rannsóknir slagverksleikarans Jennifer Torrence hafa þó verið markvisst innlegg í þessa umræðu en hún hefur skoðað ólíkar birtingarmyndir samstarfs flytjenda og tónskálda. Rannsóknir hennar styrkja stoðir skapandi samvinnu og benda á að sú þekking sem býr í flytjendum hefur iðulega ekki verið metin að verðleikum í samhengi nýrrar tónlistar.[5]

Í lokin

„Hvaða tilgangi þjónar samtímatónlist í samfélaginu í dag? Hvert er gildi hennar og fyrir hvern?" Svo spyr bandaríska tónskáldið Pauline Oliveros, í greininni Breaking the Silence.[6] Í kjölfarið spyr hún: Hvernig gæti samtímatónlist sem samin er af bæði konum og körlum fúnkerað öðruvísi?[7] Pauline Oliveros hvetur konur til að stíga fram á eigin forsendum, óháð tækni og formum sem eru sköpuð og kennd af karlmönnum. Hún kallar eftir kvenlegri orku í vestræna menningu og tónlist almennt. Ég bendi á að um aldarfjórðungsgömul skrif er að ræða og eflaust myndu þessar hugsanir vera orðaðar öðruvísi í dag; orð sem koma í hugann eru inngilding og tilkall; hver gerir tilkall til hvers, hver er með leyfið, og kannski enn frekar, hver gefur út leyfið og hvar liggur dagskrárvaldið? Sköpun er fæðingarréttur allra manna segir Oliveros í títtnefndri grein og eru það ágætis kjörorð rannsóknar minnar um valdeflingu flytjandans sem hér hefur verið tæpt á.[8] Rannsóknin Að spila er að semja; að semja er að spila -- valdefling flytjandans á í samtali við þessa staðhæfingu, með ásetning um að stuðla að meira inngildandi og opnari heim samtímatónlistar.

 


[1]  „Hvað er tilraunatónlist og hverjum er ekki sama?" Þræðir, 5. tölublað, sótt 27. mars 2023

https://www.lhi.is/tolublad-5-hvad-er-tilraunatonlist-og-hverjum-er-ekki-sama

[2] Jenny Gottschalk, Experimental Music since 1970 (New York, London: Bloomsbury Academic, 2016)

[3] Devenish Louise, Hope Cat, „The New Virtuosity - A Manifesto for Contemporary Sonic Practice“ ADSR Zine 011, sótt 24. apríl 2023 https://f3a7ef68-fbab-4d89-9436-183b772ae50a.filesusr.com/ugd/884980_2687012fc8764872904f6db14cf1b64c.pdf#page=3

[4] Walshe, Jennifer, „The New Discipline“ sótt 24. apríl 2023 http://milker.org/the-new-discipline

[5] „Rethinking the Performer: Towards a Devising Performance Practice“ Sótt 28. mars 2023 https://www.researchcatalogue.net/view/391025/391476

[6] Oliveros, Pauline. „Sounding the Margins: Collected Writings 1992-2009“, (Deep Listening Publications, 2010) bls. 17

[7] Með orðum Pauline Oliveros: How could art music composed by both women and men function in new ways? Ibid.

[8] Með orðum Pauline Oliveros: “Creativity is a birth right for all human beings“. Ibid.

 

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Þræðir - forsíða

Tölublað 8

TÖLUBLAÐ 8

Um höfunda