HORFT FRAM Á VEGINN - Erindi flutt á Tónlist er fyrir alla, ráðstefnu tónlistarskólakennara í Hörpu 8. september 2022 

Elín Anna Ísaksdóttir og Tryggvi M. Baldvinsson

Á ráðstefnum sem þessari verður fyrirlesurum tíðrætt um þær gríðarlegu samfélagsbreytingar sem orðið hafa á síðastliðnum 30 árum: Tölvurnar, internetið, hnattvæðingin, símarnir, aðgengi að upplýsingum og skemmtun, hraðinn og áreitið. Það hefur verið leitt að því líkum að ef tímaferðalangur frá þar síðustu aldamótum myndi þeytast inn í samtíma okkar gætu þessar miklu breytingar orðið flakkaranum um megn, nema...ef hún endaði för sína innan veggja í tónlistarháskóla. Þar er enn verið að spila sömu tónlistina, sömu gildin í hávegum höfð, myndir af sömu dauðu körlunum á veggjunum og í sumum tilfellum jafnvel sömu prófessorarnir.  

Líkt og fyrirlesurum verður tíðrætt um breytingar er þessi brandari einnig nokkuð vinsæll á þessum ráðstefnum. En á þessi brandari rétt á sér? Eru tónlistarháskólar og kannski líka tónlistarskólar, verndarar, eða virki, hinna „gömlu góðu gilda“, Gradus ad parnassum, þrepanna að tindinum?  Við svörum þessu neitandi, en líka játandi og þar liggur einmitt ein helsta áskorun tónlistarmenntunar 21. aldarinnar. Hvernig á að takast á við síbreytilegan samtímann og gjörbreyttan starfsvettvang tónlistarfólks á sama tíma og háskólarnir vilja halda uppi sömu gæðum og sömu áherslum í flytjendanámi og þeir gerðu á síðustu öld....og öldinni þar áður og öldinni þar á undan líka.  

En hvar erum við stödd, getum við réttlætt uppbyggingu tónlistarnáms eins og það er víðast hvar í dag?  Í samfélagi sem verður stöðugt flóknara vegna hins mikla margbreytileika sem það einkennist af (e. supercomplexity) eykst krafan um meiri fjölbreytni, jöfnuð, inngildingu og aukið aðgengi (Barnett, 2009).  Umræðan um tónlistarnám endurspeglar þetta viðhorf, tónlistarnám þurfi og eigi að endurspegla fjölbreytileika samfélagsins sem við búum í (Björk og Heimonen, 2019).  Uppbygging tónlistarnáms hefur í gegnum tíðina miðast við að það sé stundað með framtíðariðkun eða starf, í raun atvinnumennsku, í huga en síðustu áratugi hefur áherslan í auknum mæli beinst  að gildi námsins sem leið til aukins þroska, samfélagslegrar inngildingar, menningarlæsis, vellíðunar og lífsfyllingar. Hugmyndir okkar um gildi og markmið í tónlistarnámi og menntun  hafa þannig tekið miklum breytingum og hefur námið því mun breiðari skírskotun en áður.

Tónlistarháskólarnir eru að fást við sömu áskoranir og tónlistarskólarnir að því viðbættu að í háskólanámi felst einnig undirbúningur fyrir starf á vettvangi tónlistar og sá vettvangur hefur gjörbreyst á síðustu áratugum. Þar koma til sögunnar títtnefndar samfélagsbreytingar og hnattvæðing. Áherslur í menningarpólitík hafa breyst samhliða þessari þróun,  sem hafa leitt til mikilla breytinga á rekstrarumhverfi menningarstofnanna. Einn fylgifiskur hins nýja umhverfis er að rekstrarform sem gera möguleikann á heilsárs fastráðningu í fullu starfi eru orðnir mun minni en þeir voru til dæmis á síðustu öld. Þó að það sé ef til vill hæpið að skoða helsta vígi kapítalismans, Bandaríkin, í þessu samhengi eru tölurnar þaðan nokkuð sláandi. Í  Bandaríkjunum eru skráðar um 1.600 hljómsveitir, en aðeins 57 þeirra bjóða upp á fastráðningar í fullu starfi. Á sama tíma útskrifast rúmlega 8000 nemendur á ári með háskólagráðu í tónlistarflutningi. Þið sjáið að draumurinn um að vera hljóðfæraleikari í hljómsveit að aðalstarfi er fjarlægur svo ekki sé meira sagt (League of American Orchestras, 2020).

Tölur úr Evrópu segja svipaða sögu. Sú staðreynd, að ekki er hægt að treysta á það að hafa lífsviðurværi sitt af hljómsveitarleik, eða öðrum hefðbundnum tónlistarstörfum fyrri alda, hefur kallað á miklar breytingar á háskólamenntun í tónlist. Tónlistarfólk samtímans, þarf vissulega enn að hafa fullkomið vald á sínu hljóðfæri, en það þarf einnig að halda utan um eigin rekstur, tryggja fjármögnun verkefna, sækja um styrki, sjá um kynningarmál, vera í samskiptum við tónskáld, nótnaleigur og/eða útgefendur, aðra tónlistarflytjendur, bóka æfinga- og tónleikarými og svo allt hitt, til dæmis að æfa sig.  

Þjálfun fyrir þessi hliðarstörf, sem nú orðið teljast algerlega sjálfsagður hluti af starfi tónlistarflytjenda, hefur skilað sér inn í  háskólanám í síauknum mæli á síðustu áratugum. Upphaflega sem hrein viðbót við námið, þar sem mikil tregða hefur verið við að breyta í nokkru því námi sem fyrir var. Þessar viðbætur hafa orðið sífellt fyrirferðarmeiri og skapað aukið álag á nemendur og kennara auk þess sem skólarnir eiga erfitt með að fylgja hraðri tækniþróuninni eftir. Breyttir tímar hafa því kallað á breytta kennsluhætti í háskólanámi, nýjar áherslur,  það er ekki alltaf hægt að bæta við nýju námskeiði í hvert sinn sem samfélagið kallar á eitthvað nýtt.  Og þá spyr maður óneitanlega, hvað þýðir þetta fyrir okkur, fagfólk á sviði tónlistarnáms og kennslu?  Þurfum við að endurhugsa fagleg sjónarhorn okkar, þróa með okkur aukna og nýja meðvitund um það hvað felst í því að vera fagmaður í tónlistarkennslu á 21. öld ?

Umræðan í löndunum í kring og gildi

Við skulum beina sjónum okkar að grunninum, þeim gildum sem lögð eru til grundvallar tónlistarnámi sem og öðru listnámi barna og ungmenna. Samfélagið okkar og samfélög þeirra landa sem við berum okkur saman við,  byggir á hugmyndafræði velferðarsamfélags sem lítur á það sem hlutverk sitt að búa þegnum sínum gott líf og lífsgæði (Björk og Heimonen, 2019).  Það viðhorf að tónlistarnám hafi mikið gildi fyrir einstaklinginn sem og samfélagið í heild, felur í raun í sér að ekki er litið á tónlistarnám sem forréttindi, heldur sjálfsögð réttindi hvers einstaklings. Þessi afstaða réttlætir meðal annars opinber fjárframlög til tónlistarnáms (Westerlund o.fl., 2019). Finnar, sem við horfum oft til, hafa tekið þessa hugmyndafræði skrefinu lengra og tala um að einnig sé mikilvægt sé að búa  börnum og ungmennum gott og heilbrigt samband við tónlistina (e. good relationship to music) og í stefnumótun þeirra er tekið fram að það sé í hlutverki  tónlistarskóla  að skapa nemendum aðstæður þar sem þeir geti öðlast þetta góða samband (Björk og Heimonen, 2019). 

Tónlistarskólakerfið 

Ef við beinum sjónum okkar til Íslands þá er, eins og við vitum, öflugt og umfangsmikið kerfi tónlistarskóla rekið um landið allt. Tónlistarskólanir eru oft stolt íbúa og stór hluti af menningarstarfsemi viðkomandi sveitarfélags. Tónlistarskólarnir og tónlistarnám nýtur mikils velvilja og almennt er það viðhorf ríkjandi að öll börn eigi að fá tækifæri til tónlistarnáms svo þau fari ekki á mis við þau lífsgæði sem það veitir. Markmiðið er að veita öllum tækifæri fremur en að búa til  atvinnulistafólk (Bamford, 2011). 

Tónlistarskólakerfið nýtur opinbers stuðnings frá sveitarfélögum og ríki eftir því sem við á. Við göngum út frá því að  við séum flest, ef ekki öll, sammála því að tónlistarskólakerfið sé hluti af menntakerfi landsins og að það hafi mikilvægu hlutverki að gegna í samfélaginu. Tónlistarskólarnir starfa eftir námskrá sem gefin er út af menntamálaráðuneytinu og var útgáfa hennar mikið framfaraspor. Eins og fjallað verður um síðar á þessari ráðstefnu er orðið löngu tímabært að endurskoða hana meðal annars í ljósi þess hversu margt hefur breyst og þróast á sviði menntavísinda á þeim rúmum tveimur áratugum sem liðnir eru. Meðal þess sem kastljósinu hefur verið beint að er jafnrétti til náms og jafnt aðgengi, það að menntun sé fyrir alla. Ennfremur að þeim margbreytileika sem einkennir samfélög í stöðugt auknum mæli. (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2019).

Margbreytileikinn-aðgengið 

Eins og við vitum hefur áherslan í menntakerfum undanfarin ár og áratugi snúist um nemendamiðað nám, um spurninguna:

 • Hvað vilja nemendur læra?
 • Hvernig getum við mætt nemendum þar sem þau eru stödd?

Rannsóknir sýna að sterk tengsl eru milli áhugahvatar og virkni nemenda, sjálfsmyndar þeirra og námsárangurs (Dweck, 2000). Á síðustu árum hafa svo fleiri áleitnar spurningar bæst við og þá í tengslum við aukinn margbreytileika samfélaga: 

 • Hvernig eru skólarnir að mæta nemendum með sérþarfir?
 • Hvernig geta skólanir orðið aðgengilegri nemendum úr eldri aldurshópum, en aldurssamsetning samfélagsins er að breytast mikið eins og við vitum 
 • Hvernig eru tónlistarskólar að bregðast við menningarlegum þörfum nemenda sem tilheyra minnihlutahópum?
 • Hvað með svæðisbundið aðgengi?

Og áfram mætti telja.

Skóli sem samfélag 

Skólum er stundum lýst sem örsamfélögum (e. microcommunity) sem endurspegla þau gildi og viðhorf sem okkur þykja mikilvæg sem samfélagsheild og þetta sjónarhorn  skapar menntastofnunum nokkra sérstöðu í samfélaginu (Sergiovanni, 2009) .  

Skóli sem byggir á samfélagshugmynd leggur áherslu á einstaklinginn, á sameiginleg gildi þar sem virðing fyrir einstaklingnum og margbreytileikanum er lögð til grundvallar. Áhersla er lögð á jafnt einstaklingsbundinn rétt sem og sameiginlega ábyrgð, þau gildi sem lýðræðissamfélög byggja á. En skólastofnanir eru  einnig hluti af stærri heild,  stærra félagslegu kerfi, nærsamfélaginu, menntakerfinu, og samfélaginu öllu. Bent er á mikilvægi þess að líta ekki á skólana sem lokuð, sjálfstæð og óháð kerfi, þeir þurfi að geta víkkað út starfsemi sína til að vera í takt við og fylgja breytingum í samfélaginu. Samfélagsleg aðlögun er mikilvæg vilji skólarnir tryggja áframhaldandi vöxt.  Viðmið um gæði í skólastarfi eru í auknum mæli metin og gagnrýnd út frá sjónarhorni skóla án aðgreiningar, aðgengis og fjölbeytileika og þurfa tónlistarskólar í auknum mæli að réttlæta og rökstyðja að opinberu fé sé veitt til skólanna á grundvelli þessara atriða. Í tillögum starfshóps sem vann viðauka við skýrslu mennta- og menningarmálaráðuneytis um Menntun fyrir alla árið 2019 var sjónum beint að tónlistarnámi almennt og tónlistarskólakerfinu og eftirfarandi tillögur meðal annars lagðar fram: 

Allir nemendur: 

 • Eigi kost á tónlistarnámi þar sem markmið og viðfangsefni eru aldurssvarandi, virðing borin fyrir margbreytileika og stefnt að jafnræði og árangri. 
 • Séu fullgildir þátttakendur í starfi tónlistarskóla.  
 • Tilheyri styðjandi lærdómssamfélagi í skóla þar sem fjölbreytileiki er virtur. 
 • Búi við sambærileg gæði námsreynslu og námsumhverfis.
 • Fái vitsmunalega krefjandi viðfangsefni sem hæfa þeim. 
 • Hafi lýðræðislegan rétt til sjálfræðis og þátttöku í ákvörðunum um nám og annað skólastarf.
 • Nái árangri.

Hvað felur þetta í sér fyrir tónlistarskólana og uppbyggingu tónlistarnáms? Við þurfum að spyrja okkur ýmissa grundvallarspurninga eins og : 

 • Hver erum við og hver viljum við vera sem fagfólk á sviði tónlistarnáms og kennslu í samfélaginu á okkar tímum?  
 • Fyrir hverja er tónlistarnám?  Eru einhverjir  hópar út undan í tónlistarnámi og þá hverjir og hvernig getum við náð til þeirra? 
 • Hvers konar tónlistarnám? Hvaða tónlist erum við að kenna, hverjir eru kennsluhættir okkar, á hvaða gildum viljum við byggja ?
 • Hvernig leysum við þá spennu sem óhjákvæmilega getur myndast milli hefðarinnar og fjölbreytileikans, milli sérhæfingarinnar og jafns aðgengis allra? 

Þetta eru allt mikilvægar spurningar sem við þurfum að skoða af alvöru og taka afstöðu til. Við þurfum að skoða hvort, og þá hvernig, breyta má  því sem kalla mætti pýramídalíkani tónlistarnáms án þess að slá af kröfum um tónlistarlegan árangur, en tilhneiging hefur verið að setja þær áherslur, sérstaklega í vestrænni hefðbundinni tónlistarhefð, framar öðrum gæðaviðmiðum. Í umræðunni í Evrópu er bent á að tónlistarskólar  þurfi að víkka út hugmyndir sínar  og sýn á það hvað felst í fagmennsku, spyrja hvað hægt sé að leggja af mörkum til að taka ábyrgð á og bregðast við samfélagsbreytingum. Réttindi  og skyldur haldast í hendur (Giddens, 1998). Við þurfum að horfast í augu við umhverfi okkar og þann raunveruleika sem við búum í. Tónlistarskólar eins og aðrir skólar þurfa að endurspegla fjölbreytileika samfélagsins, þeir þurfa að huga að og miðla siðferðilegri ábyrgð sinni samhliða væntingum um  gæði tónlistarnáms. Hvernig geta tónlistarskólar gert sig gildandi sem virkir þátttakendur í samfélagi ofurmargbreytileikans (Westerlund o.fl., 2019).

Áherslur í tónlistarnámi  

Við höfum minnst á að kennsluhættir í háskólunum hafi breyst í ljósi nýrra tíma og mikilla breytinga.  En í hverju felast þessir breyttu kennsluhættir? Ef það væri hægt að þjappa svarinu niður í eina megináherslu væri það: Valdefling nemandans (Weimer, 2002).

Hvað þýðir það og hvernig er það gert? Með valdeflingu nemandans er verið að stuðla að auknu sjálfstæði þeirra, frumkvæði og aukinni ábyrgð á námi sínu. Einnig lögð áhersla á að nemandi finni sína eigin rödd, víkki sjóndeildarhringinn og hafi sterkari meðvitund um ábyrgð sína og hlutverk í samfélaginu. Við sem höfum fengist við kennslu vitum að samband kennara við nemendur getur oft orðið persónulegt og náið og áhrif kennarans geta teygt anga sína djúpt inn í sálarlíf nemandans, jafnvel löngu eftir að námi lýkur. 

Eitt af því sem hefur verið rannsakað mikið á síðustu árum er einmitt þetta samband nemanda og kennara, valdajafnvæginu, eða öllu heldur valdaójafnvæginu sem gætir oft í þessum samböndum. Eitthvað sem telst hvorki hollt né gott og getur í sinni verstu mynd verið hreint ofbeldissamband, líkt og hefur komið vel í ljós í tengslum við MeToo bylgjurnar. 

Mikið af þeim hugmyndum um valdeflingu nemandans snýr einmitt að þessu sambandi nemandans og kennarans og felst meðal annars í því að brjóta niður þá staðalímynd að kennarinn sé hinn alvitri meistari sem hefur svörin við öllu og viti alltaf best (Carlson, 2019). Nemendum er nú ætlað að stýra námi sínu meira sjálf og kennaranum frekar ætlað hlutverk leiðbeinandans, sem fylgir og styður nemendurna meira á jafningjagrundvelli á ferð þeirra að takmarkinu. Í þessu felst að ábyrgðin á náminu er sett í ríkari mæli í hendur nemendanna, þeim er einfaldlega treyst. Þetta getur leitt til áherslubreytinga í verkefnavali, dýpri ígrundunar nemenda á eigin framförum og öðrum áskorunum sem verða á vegi þeirra. Í stað þess að kennslan sé einstefnumiðuð frá toppi og niður, meistari - lærlingur, verður hún á jafnréttisgrundvelli þar sem leiðbeinandinn, mentorinn, er einnig tilbúinn að læra af nemendum sínum. 

Þetta er auðvitað alls ekki einfalt og gerir meiri kröfur til kennarans um viðvarandi ígrundun á sínum kennsluaðferðum og starfskenningu. Þetta er einnig oft mikil áskorun fyrir nemendur, sérstaklega ef tónlistarnám hefur verið mjög einstefnumiðað frá upphafi og flest allar ákvarðanir um námið hafa verið teknar af kennaranum og kannski foreldrum.

Markmiðið er að gera nemendur meðvitaða um eigið nám og einnig þá framtíð sem þau vilja sjálf skapa sér. Hvort sem það er sem sjálfstætt starfandi tónlistarfólk, eða að reyna fyrir sér á hefðbundnari vettvangi tónlistarinnar. 

Ef við horfum til háskólanámsins sérstaklega þá hefur, auk breytinga á kennsluháttum,  þáttaka í samfélagslegum verkefnum hlotið stöðugt aukið vægi á undanförnum árum. Þátttakan einskorðast ekki lengur við sérstakar deildir eða námsleiðir, heldur fá allir nemendur tækifæri til að kynnast því að vinna með ólíkum samfélagshópum einhverjum tímapunkti í náminu. Við erum þá ekki endilega að tala um tónleikahald utan skólahúsnæðisins, heldur er nú miklu fremur leitað eftir verkefnum sem fela í sér gagnvirkt samband við samfélagið, allir séu þátttakendur í einhverju sameiginlegu verkefni, því á þann hátt má ná mun sterkari tengslum við ólíka hópa, en með hefðbundnu tónleikahaldi. 

Kennaranám 

Í ljósi alls þess sem hér hefur verið rætt er nokkuð augljóst að kennarastarfið er að verða sífellt flóknara, þarfirnar eru að mörgu leyti aðrar og starfið því meiri áskorun en áður. Ef einhvern tímann hefur verið þörf fyrir öfluga kennaramenntun og stuðning við starfsþróun kennara þá er það núna.   Og það eru blikur á lofti því meðalaldur kennara fer hækkandi og skortur er á nýliðun.  Við stöndum frammi fyrir þeirri áskorun m.a. að tónlistarnemendur eru að ekki velja sér hljóðfærakennarnám í nægilega ríkum mæli. Það er náttúrlega ýmislegt sem getur skýrt það:  

 • Smæð samfélagsins, það eru ekki hlutfallslega margir sem leggja tónlist fyrir sig sem ævistarf og þeir sem það gera velja sér mismunandi námsleiðir  bæði innanlands og utan.
 • Það eru líka miklar sveiflur á milli ára í þeim umsóknum sem berast LHÍ og  það hvaða hljóðfærahópum þeir nemendur tilheyra en þessir þættir geta haft mikil áhrif á innra starf deildarinnar.
 • Svo er það viðhorfið til kennarastarfsins, almennt talað hefur ekki verið mjög jákvæð stemning fyrir kennarastarfinu í samfélaginu og ef við horfum til hljóðfærakennslu þá eimir enn af menningu sem byggir í of ríkum mæli á þvi viðhorfi að það sé nóg að vera fær á hljóðfæri til að vera góður kennari. Jafnvel  skynjar maður stundum að það þyki „merkilegra“ að leggja áherslu á hljóðfæranám eingöngu frekar en að tengja það hljóðfærakennslu. 

 

Hér er  ekki úr vegi að nefna að hljóðfærakennaranámið og hljóðfæranámið við LHÍ er byggt upp á mjög svipuðum grunni, megináherslan er lögð á tónlistarlega þjálfun á báðum námsleiðum en þetta er þáttur sem skiptir unga tónlistarnemendur miklu máli. Niðurstaða okkar er að  það þurfi sameiginlegt og samstillt átak til að vekja athygli á kennaranáminu sem áhugaverðum valkosti.  Þar berum við öll, að okkar mati, sameiginlega ábyrgð en tónlistardeild LHÍ getur ekki starfað með góðu móti ef ekki er til  staðar öflugt nám í tónlistarskólunum og það má kannski bæta við hér að það er líka mikilvægt að það sé samhengi og samfella milli skólastiganna í þeim áherslum sem lagðar eru til grundvallar í tónlistarnámi almennt. Það er á okkar ábyrgð við LHÍ að hanna kennaranámið á þann hátt að það sé innihaldsríkt, eigi erindi og höfði til ungs tónlistarfólks. En jafnframt er mikilvægt að vera í samtali við tónlistarskólakerfið til að greina þarfirnar á vettvangi.

Starfsþróun tónlistarkennara  

Í skýrslunni Menntun fyrir alla (2019) er meðal annars lagi til að stuðningur  við starfsþróun kennara verði eitt af lögbundnum hlutverkum háskóla sem annast menntun kennara og þeir styðji sömuleiðis við þróun lærdómssamfélaga. Háskólar þurfi að móta sér stefnu varðandi það hvernig þeir munu sinna slíku hlutverki.   

Listaháskólinn ber ekki eingöngu ábyrgð á kennaranámi heldur hefur hann stóru hlutverki að gegna á sviði starfsþróunar starfandi kennara. En starfsþróun kennara og stjórnenda er liður í því að fylgjast með faglegri þróun, fylgjast með faglegri umræðu og vera virkur þátttakandi í henni, styrkja færni sína en allt þetta hefur bein áhrif á betri menntun og nám nemenda okkar. Rannsóknir sýna að starfsþróun dregur út líkum á kulnun og eykur sjálfstraust og sjálfsmynd en mikilvægt er að styrkja ímynd kennarastarfsins, sýna því virðingu, vera stolt af því að vera kennarar.  Mikilvægt er að styrkja fagmennsku kennara sem einstaklinga og sem fagstéttar til dæmis með innleiðingu lærdómssamfélaga í skólakerfinu. Byggja þannig upp innri hæfni innan skólanna (Fullan, 2016; Hargreaves og Fullan, 2012). 

Þróun -Heiltæk nálgun-Samstarf-Samvirkni- 

Skólar þurfa getu og svigrúm til endurnýjunar, endurskipulagningar og þróunar. Þetta felur í sér að auka þarf innbyggðan sveigjanleika í kerfinu, að skólarnir geti brotist undan því sem kallað hefur verið „ósveigjanleiki eftirlitskerfisins“, meðal annars með mun sveigjanlegri námskrá (Björk og Heimonen, 2019).  Breytingar og breytingaferli fela í sér áskoranir og eru alls ekki auðveld viðfangsefni. Mikilvægt er að tónlistarskólakerfið taki frumkvæði, móti sér stefnu, framtíðarsýn og skilning á samfélagslegri ábyrgð sinni. Stefnumótunin komi þannig uppúr grasrótinni fremur en að henni sé stýrt eingöngu með valdboði ofanfrá (e. top-down).  Við þurfum líka að horfast í augu við að ekki eru allar breytingar til góðs, vanda þarf til verka þegar ákvarðanir eru teknar í tengslum við breytingar. Ferlið er flókið og getur tekið á og þróunarstarf og breytingar taka tíma, huga þarf því vel að því hvað eigi að breytast, hvers vegna það á að breytast og hvernig, og hér er langtímahugsun mikilvæg, að hugsað sé á dýptina, „quick fix“ virkar ekki. Og mikilvægast er að hafa í huga að markmiðið með breytingum þarf að vera að þær hafi jákvæð áhrif  fyrir nemendur, bæti nám þeirra og líðan.  

Annað sem mikilvægt er að hafa í huga er að ef umbætur eiga að virka og festast í sessi þá þarf samvirkni og samstarf, heiltæka nálgun, en reynslan sýnir að slík nálgun er grundvöllur farsæls umbótastarfs (Senge o.fl., 2006). Reynslan sýnir líka að það er ekki síður mikilvægt  þegar menntaumbætur eru skipulagðar að kennurum og stjórnendum sé skapað tækifæri til að taka virkan þátt í stefnumótun og umbótastarfinu, það er lykilatriði ef umbætur eiga að festast í sessi. Svo þurfum við líka að hafa í huga að tónlistarskólarnir á Íslandi búa við mjög mismunandi skilyrði sem tengjast m.a. því hvar þeir eru staðsettir, hver fjöldi íbúa  er og samsetning þeirra, fjöldi kennara og hvar sérfræðiþekking þeirra liggur og áfram mætti telja. Sníða þarf breytingar og þróunarstarf að þörfum og aðstæðum hvers nærsamfélags. Við þurfum að huga að öllum þáttum menntakerfisins og skoða hvernig þeir eru að virka saman. Sameiginleg sýn og skilningur  skiptir máli. 

Við erum búin að tæpa á bísna mörgum atriðum í þessu erindi okkar  og við vonum að einhver þeirra hafi vakið upp spurningar eða vangaveltur. Við erum hvorki alvitur né höfum öll svörin, en þó höldum við að við séum flest sammála um það að við verðum að bregðast við breyttum tímum og til þess að þær breytingar verði okkur öllum til góðs þurfum við að hlusta betur hvert á annað, en ekki síst nemendur okkar, virða skoðanir þeirra og áhugasvið. Við álítum að góð kennaramenntun sé lykillinn að betra og árangursríkara skólastarfi og því þarf að hefja starf tónlistarkennarans til vegs og virðingar, hvort heldur sem það er innan tónlistarskólanna eða almenna skólakerfisins. Við megum ekki tala um kennaranámið sem einhverskonar varaleið ef leiðin á tindinn, Parnassum, verður torsótt.  Við erum nefnilega öll kennarar og eigum að vera stolt af því!

 

Heimildaskrá

Bamford, A. (2011). List- og menningarfræðsla á Íslandi. Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Barnett, R. (2009). Knowing and becoming in the higher education curriculum. Studies in Higher Education. 34(4), 429-440.

Björk, C. og Heimonen, M. (2019). Music schools and human flourishing. Meeting the social challenges of the twenty-first century. Í M. Hahn og F. O. Hoffecker (ritstjórar), Music school resech II. The future of music schools. Europian perspective (bls. 35-50). Musikschul Management.

Carlson, M. (2019). Maestro or mentor. On cultural differences in performance education. Í Becoming musicians.Student involvement and teacher collaboration in higher music education. Gies,S. og Saetre, J.H.  (ritstjórar). NMH Publications.

Dweck, C. (2000). Self theories: Their role in motivation, personality and development.Hove: Psycology Press.

Fullan, M. (2016). The new meaning of educatioal change. (5. útgáfa). Teachers College.

Giddens, A. (1998). The third way. The renewal of social democracy. Polity Press.

Hargreaves, A. og Fullan, M. (2012). Professional capital. Teachers College.

League of American Orchestras. (2020, janúar). Orchestras at a glance. https://americanorchestras.org/wp-content/uploads/2020/11/Orchestras-at-...

Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2019). Menntun fyrir alla, horft fram á veginn. https://www.stjornarradid.is/gogn/rit-og-skyrslur/stakt-rit/2020/01/17/M...

Sergiovanni, T.J. (2009). The principalship. A reflective practice perspective. (6. útgáfa). Pearson Education Inc.

Senge, P.M. (2006). The fifth dicipline: The arts and practice of the learning organization. Random House.

Senge, P. M., Smith, B., Krischwitz, N. og Sachley, S. (2006).  The necessary revolution. Working together to create a sustainable world. Broadway Books.

Weimer, M. (2002). Learner-centered teaching. Jossey-Bass.

Westerlund, H., Väkevä, L. og Ilmola-Sheppard, L. (2019). How music schools justify themselves. Meeting the social challenges of the twenty-first century. Í M. Hahn og F. O. Hoffecker (ritstjórar), Music school resech II. The future of music schools. Europian perspective (bls. 15-34). Musikschul Management.

 

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Þræðir - forsíða

Tölublað 8

TÖLUBLAÐ 8

Um höfunda