Egill Ingibergsson kennari og tæknistjóri við sviðslistadeild LHÍ er í forsvari fyrir sviðslistahópinn Rauða sófann, sem nýverið hlaut einn af hæstu styrkjum þessa árs úr Sviðslistasjóði og Launasjóði sviðslista. Listaháskólinn óskar Agli hjartanlega til hamingju með styrkinn.

Í kynningu á verkefninu segir m.a.: „Hópurinn stefnir að nýrri og frumlegri uppsetningu á Aðventu Gunnars Gunnarssonar, einni af helstu perlum íslenskra bókmennta. Í sýningunni verður leitast við að miðla þáttum verksins – stórfenglegri náttúru, ríku innra lífi aðalsögupersónunnar Benedikts ogsamspilinu þar á milli – í verki án orða þar sem myndlist, tónlist, leiklist og tækni mynda órofa heild. Áhorfandinn dregst inn í iðandi stórhríð en sér þar hjörtu sem bjarma frá sér kærleika og ást.“ 

Egill mun leikstýra verkinu en aðrir þátttakendur eru Móeiður Helgadóttir, Þórarinn Blöndal, Ómar Guðjónsson, Friðgeir Einarsson, Lovísa Ósk Gunnarsdóttir og Kristína Berman. Ekki er enn séð hvar verkið verður sýnt en stefnt er að frumsýningu á fyrsta sunnudegi næstu aðventu.