Ólöf Nordal, prófessor við myndlistardeild Listaháskóla Íslands, opnar sýningu í Ásmundarsal, laugardaginn 25. febrúar.
 
Sýning Ólafar Nordal í Ásmundarsal ber titilinn Fygli og er innsetning með skúlptúrum, texta og hljóðmynd. Ólöf Nordal hefur lengi unnið með fugla í verkum sínum sem oft eiga rætur í þjóðtrú, ímyndarsköpun og menningu samtímans. Fygli eru skúlptúrar steyptir í brons sem sýna fígúrur í umbreytingu.  Formgerð þeirra vísar í umskipti frá gervi manns í gervi fugls, frá hinu efnislega til hins andlega. Fyglin eru af heimi gróteskunnar og þess kynlega, en ýja líka að farfuglum þeim sem fljúga yfir hafið jafnt í formi fugls sem og í mennskri formgerð.  
 
Verkið er í samtali við nýlegt verk Ólafar sem ber heitið  Mannfuglar (2022) og er staðsett í garði hjúkrunarheimilisins Móbergs á Selfossi.
 
 
Ólöf vinnur með menningararfinn, söguna og minni þjóðar í verkum sínum á gagnrýninn og greinandi hátt. Listrannsóknir hennar beinast að sjálfsmynd þjóðar á eftir-nýlendutímum, uppruna og endurspeglun þjóðsagnaminna í samtímanum og brotinu sem spegli inn í fortíðina.
 
Ólöf Nordal stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk síðan mastersprófi frá Cranbrook Academy of Art, Michigan og MFA frá höggmyndadeild Yale Háskólans í New Haven, BNA. Ólöf á sér langan listferil og hefur sýnt hérlendis sem og erlendis. Árið 2019 stóð Listasafn Reykjavíkur fyrir yfirlitssýningu um listferil Ólafar með sýningunum Úngl á Kjarvalsstöðum og úngl-úngl í Ásmundarsafni. Samtímis gaf safnið út yfirlitsrit um feril hennar. Ólöf hefur gert fjölda verka í almannarými. Nýjustu verkin eru Þúfa (2013) við höfnina í Reykjavík, Hella Rock (2020) í Portland, Main, Auga (2021) í Menntaskólanum við Hamrahlíð og Mannfuglar (2022) við hjúkrunarheimilið Móberg á Selfossi.  
 
Sjá nánar á www.olofnordal.com/
 
Frekari upplýsingar má sjá á Facebook viðburði sýningarinnar hér.