Ungir einleikarar 2023

Seinni umferð Ungra einleikara 2023 lauk í gær, fimmtudaginn 5.janúar en keppnin var nú haldin í tuttugasta sinn.  Ungir einleikarar er samstarfsverkefni LHÍ og Sinfóníuhljómsveitar Íslands en sigurvegarar keppninnar fá tækifæri til þess að flytja einleik á Eldborgarsviði Hörpu ásamt sinfóníuhljómsveitinni. Keppnin tók breytingum á síðasta ári þegar ákveðið var að opna keppnina fyrir nemendum á öllum stigum háskólanáms og þá var aldurstakmark einnig afnumið. Þessar breytingar eru gerðar með þróun tónlistarnáms á háskólastigi til hliðsjónar og opna enn frekari möguleika allra sem það stunda. Snið keppninnar tók einnig breytingum á síðasta ári þegar ákveðið var að skipta keppninni í tvær umferðir.  Þessar breytingar hafa gefið góða raun og hélt keppnin því óbreyttu sniði síðasta árs. 

Þrír stóðu uppi sem sigurvegarar í ár

Keppnin var afar ströng að vanda enda hópur umsækjenda stór og fjölbreyttur. Að lokinni fyrri umferð voru sjö keppendur boðaðir í þá seinni. Þriggja manna dómnefnd fékk það vandasama hlutverk að velja sigurvegarana þrjá en dómnefnd skipuðu þau Sigrún Eðvaldsdóttir, konsertmeistari SÍ, Hildigunnur Einarsdóttir, söngkona og Nathanaël Iselin, staðarhljómsveitarstjóri SÍ og stjórnandi tónleika Ungra einleikarar í vor. Sigurvegarar Ungra einleikara 2023 eru eftirfarandi;

Ólafur Freyr Birkisson, söngvari
Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir, söngkona
Þórhildur Magnúsdóttir, víóluleikari

Við óskum sigurvegurunum innilega til hamingju með árangurinn og góðs gengis í undirbúningum. 
Tónleikarnir fara þann 25.maí kl.19:30 í Eldborgarsal Hörpu. Hægt er að tryggja sér miða hér.