Tinna Gunnarsdóttir vöruhönnuður og stundakennari við hönnunardeild Listaháskóla Íslands, fyrrum prófessor og fagstjóri við vöruhönnunarbraut, er tilnefnd til Hönnunarðverðlauna Íslands 2022.

„Snert á landslagi er vinnutitill yfirstandandi doktorsverkefnis Tinnu þar sem athyglinni er beint að fagurferðilegri upplifun í landslagi sem viðbragði við bráðum umhverfisvanda mannaldarinnar. Hin stóru hnattrænu vandamál kalla á skjót viðbrögð þar sem ólíkum aðferðum, tækjum og tólum er beitt, frá vísindum til lista og frá einstaklingum til samfélaga. Um þverfaglega nálgun er að ræða þar sem aðferðir og aðferðafræði ólíkra fræðasviða vinna saman að settu markmiði. Þó svo áhersla sé lögð á upplifun mannsins byggir heimspekilegur grunnur verkefnisins á verufræði hins meira en mennska þar sem litið er á manninn sem hluta af náttúrunni og veröldina sem samofna heild ólíkra fyrirbæra. Þungamiðja verkefnisins er tilviksrannsókn í Héðinsfirði á Tröllaskaga þar sem hönnunardrifnum aðferðum er beitt til að örva tengslamyndun, umhverfisvitund og samkennd.“1
 
Tinna fjallaði um doktorsverkefni sitt á Hugarflugi 2022, ráðstefnu Listaháskóla Íslands, í september á þessu ári. Hægt er að horfa á fyrirlestur hennar hér.
 
Hægt er að lesa nánar um tilnefninguna á vef Vísis hér. 
 
Verðlaunaafhending Hönnunarverðlauna Íslands 2022 fer fram þann 17. nóvember í Grósku. Miðstöð hönnunar- og arkitektúrs stendur að verðlaununum í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.
 
Listaháskólinn óskar Tinnu innilega til hamingju með tilnefninguna!
 
tinnagunnars.jpg
 

1. Tekið af vef Hugarflugs 2022: https://hugarflug.lhi.is/Tinna-Gunnarsdottir