Hugarflug 2022 - Enginn er eyland

Fræðandi og framsækið Hugarflug að baki 

Hið árlega Hugarflug fór fram dagana 22.-23.september 2022 sem að þessu sinni bar yfirskriftina Enginn er eyland. Hugarflug er ráðstefna á vegum Listaháskóla Íslands þar sem að fagfólk, nemendur, kennarar og fræðafólk í listum nálgast viðfangsefnið á margvíslegan hátt. Það er óhætt að segja að öll skynfærin hafi verið virkjuð á Hugarflugi í ár þar sem hljóðverk, stafræn innsetning, matarupplifun og leikvöllur fyrir fullorðna voru liðir í dagskránni. Fyrirlestrar og málstofur voru ellefu talsins og hópur þátttakenda afar fjölbreyttur að vanda. Danshöfundurinn Sonya Lindfors sló botninn í Hugarflug ársins 2022 með erindinu Attempting the Impossible
 

Enginn er eyland

Í ljósi áskoranna sem blasa við heimsbyggðinni um þessar mundir hefur gildi samstöðu og sameiningar sjaldan vegið þyngra. Með yfirskriftina Enginn er eyland að leiðarljósi var athygli vakin á ábyrgð einstaklingsins sem hluti af mengi, mengi sem myndar heild. Í mætti samstöðunnar og krafti fjöldans liggur möguleg lausn að bættu samfélagi og bjartri framtíð.

hugarfl1-01.jpg
 

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands, opnaði ráðstefnuna með ávarpi sem hefst á orðunum ,, Viðfangsefni Hugarflugs þetta árið er hreint ekki lítilvægt. Þvert á móti er öll heimsmynd samtímans undir". Orð rektors voru síðan rökstudd í erindunum ellefu sem öll komu inn á viðfangsefnið frá ólíkum sjónarhornum. Lokaorð Fríðu gáfu þeim fyrstu ekkert eftir - ,,Við erum að leggja megináherslu á samtakamátt mannkyns, þvert á öll mæri - á þá möguleika sem verða til þegar múrar molna, fordómar eru kveðnir niður og sameiginleg ábyrgð tekin, heildinni til heilla." Ávarpið má lesa í heild sinni hér.

Fjölbreytt og fróðleg erindi

Fagfólk á öllum aldri, úr ólíkum áttum og sviðum lista- og menningargeirans voru í hópi þátttakenda og dagskráin því afar fjölbreytt. Ráðstefnan fór fram í byggingu skólans við Laugarnesveg í þremur rýmum í senn; Finnlandi, fyrirlestrasal og svarta sal. 

hugarfl2-09.jpg
 
hugarfl2-39.jpg
 

Í Svarta sal hófst dagskrá með málstofunni Collective Car in Icelandic Music í umsjá Þorbjargar Daphne Hall. Með henni voru þeir Benjamin Lassauzet, Konstantine Vlasis og Arnar Eggert Thoroddsen. Í málstofunni lágu fjölbreyttar tegundir tónlistar og tilvik til grundvallar, allt frá iðkun þjóðlagahefðarinnar og rímnasöngs yfir í samtímatónlist. Því næst tók Atli Ingólfsson við keflinu ásamt Jeannette Castioni, Bergljótu Kristjánsdóttur og Steinunni Arnþrúði Kristjánsdóttur með málstofuna Samt á ég eftir að segja þér um framhaldslíf sendibréfa. Umfjöllunarefnið voru sendibréf Lilju Magnúsdóttir frá miðri síðust öld og notkun þeirra í samhengi listaverka og þá sérstaklega í tónverki Atla og myndbandsverki Jeannette Castioni.

Þá steig Tinna Gunnarsdóttir á svið og kynnti yfirstandandi doktorsverkefni sitt Snert á landslagi þar sem athyglinni er beint að fagurfræðilegri upplifun í landslagi sem viðbragði við bráðum umhverfisvanda mannaldarinnar. Að lokum tók danshöfundurinn Sonya Lindfors til máls með erindið Attempting the Impossible - Decolonial Dreaming Practices. Í allri sinni vinnu, hefur Lindfors beint sjónum að því að hrista upp í og ögra viðteknum valdastrúktúrum, að valdefla samfélag sitt og skapa þar andrými fyrir róttæka, sameiginlega draumsýn. 

hugarfl2-16.jpg
 
hugarfl2-11.jpg
 

Í Finnlandi - L191 var dagskráin ekki síður áhugaverð og hófst með fyrirlestri Sigrúnar Ingu Hrólfsdóttur um starfsferil Hildar Hákonardóttur. Fyrirlesturinn fjallaði um rannsóknarverkefni Sigrúnar Ingu Hrólfsdóttur við Listasafn Reykjavíkur. Því næst flutti Þorgerður Ólafsdóttir fyrirlesturinn Island Fiction sem einnig er yfirskrift áframhaldandi listrannsóknar og myndlistarverkefnis um eyjuna Surtsey, sem gaus á árunum 1963 – 1967, og felur í sér sýningu og væntanlegt bókverk.

Linda Björg Árnadóttir flutti erindið Hættum að vera við sjálf! Verum einhver annar!. Í erindinu skoðar Linda dæmi þar sem fólk hefur brugðið á það ráð að villa á sér heimildir með fatnaði og gervi með það að markmiði að öðlast tækifæri sem viðkomandi hafði ekki staðið til boða. Dagskrá í Finnlandi lauk svo með fyrirlestrinum Rödd sem rými, rými sem rödd þar sem að Jóhannes Dagsson fékkst við hugtök eins og ætlan og merking, form og samhengi, og skapandi athöfn og varanleika. 

Tinna Guðmundsdóttir var fyrst á dagskrá í fyrirlestrasal en hún flutti erindið Wind'n bind sem byggist á eigin rannsóknarverkefni. Því næst var spurningunni Getur tónlistariðkun dregið úr alvarlegum afleiðingum undirliggjandi skynjunarvandamála sem valda dyslexíu? varpað fram í fyrirlestri Helgu Rutar Guðmundsdóttur. Að lokum Flutti Dr. Unnur Óttarsdóttir fyrirlesturinn Endurvarps-samteikning þar sem hún fjallaði um samnefnt verk sem samanstendur af uppréttu teikniborði gerðu úr gegnsæju efni. Samteikningin felur í sér að þátttakendur eru staðsettir hvor sínu megin við gegnsætt teikniborð og augliti til auglitis teikna þeir hvor á sína hlið plötunnar.

Fjölbreytt upplifun

Hin ýmsu rými byggingarinnar tóku á sig margvíslegar myndir og gestir og gangandi þurftu ekki að sitja auðum höndum milli erinda. Innsetningar, vinnustofur og fjölbreyttar upplifanir voru á boðstólnum og hver og einn gat fundið eitthvað við sitt hæfi. 

hugarfl1-05.jpg
 
hugarfl1-11.jpg
 

Þátttökuverkefnið Næmi, namm sló rækilega í gegn á opnunarhátíðinni. Höfundar verksins, þeir Sindri Leifsson og Kjartan Óli Guðmundsson, nýttu verkfæri hvors annars og blönduðu saman áferðum, lyktum, litum, formum og bragði í alltumlykjandi skynjunarboði. Stafræna listaverkið World in Progress: The Premise of a Dialogue Manifesto eftir Karl Kvaran naut sín einnig einkar vel á opnuninni.

Frumkvöðlar rannsóknarverkefnisins The Intelligent Instruments Lab kom sér vel fyrir og buðu upp á kynningu og vinnustofu fyrir gesti Hugarflugs. Verkefnið hefur vakið verðskuldaða athygli enda spennandi og framsækin rannsókn þar sem hlutverk gervigreindar í hljóðfærasmíð er könnuð. Verkefnið er í umsjá Thors Magnussonar, Jack Armitage, Victor Shepardson, Halldórs Úlfarssonar og Nicola Privato.

hugarfl2-48.jpg
 
hugarfl2-30.jpg
 
hugarfl2-23.jpg
 

Leikvöllur fyrir fullorðna eða Martha's Playground vakti mikla lukku meðal gesta en vinnustofan var í umsjá listakonunnar Martha Lyons Haywood. Leikvöllurinn er tilraun til þess að að virkja huga og sál fullorðinna einstaklinga, leita lausna og skapa umhverfi án samkeppni og samanburðar á nokkurn hátt. Hljóðverkið Maður borðar banana eftir Berglindi Maríu Tómasdóttur var sýnt en þar vinnur Berglind með hljóð og mynd á sinn einstaka hátt. Verkið fjallar um tíma og tengsl. Olga Maggý Erlendsdóttir setti upp verkið Enginn er eyland, en stundum er maður í eylandi. Innsetning þar sem textíl, hljóð, lýsing og mynd voru í forgrunni. 

Hugarflug 2023 

Í febrúar 2023 endurtökum við leikinn og höldum Hugarflug með hefðbundnum hætti. Við víkjum ekki frá hugmyndum samstöðu og sameiningar því ráðstefna Hugarflugs 2023 hefur hlotið titilinn Margfeldi framtíða eða Collective Futures. Þá verður horft til komandi tíma, framtíðarsamfélags sem felur í sér ótal möguleka með samtakamætti mannkynsins og sameiginlegri ábyrgðar samfélagsins, heildinni til heilla. 

Að lokum þökkum við þátttakendum, gestum og öllum sem komu að Hugarflugi í ár, sjáumst í febrúar!

Ráðstefnunefnd 2022:  
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir
Hanna Styrmisdóttir  
Hulda Stefánsdóttir  
Magnea Einarsdóttir  
Massimo Santanicchia  
Nína Sigríður Hjámarsdóttir  
Þórhallur Magnússon   
Elín Þórhallsdóttir  
Karólína Stefánsdóttir