Ráðið hefur verið í sjö stöður á sviði kvikmynda-, sviðs- og tónlista við Listaháskóla Íslands.

 
Bergrún Snæbjörnsdóttir hefur verið ráðin í stöðu lektors í tónsmíðum. 
Bergrún stundaði tónlistarnám við Listaháskóla Íslands, og lauk meistaranámi við tónsmíðar í Mills College árið 2017 þar sem hún lærði einna helst hjá Pauline Oliveros, Fred Frith og Zeena Parkins, auk þess að vera aðstoðarkennari í samtímatónlistarflutningi og spunatónlist. Hún er móttakandi Hildegard verðlauna The National Sawdust (US) 2019 og var staðarlistamaður hjá International Contemporary Ensemble (US) árin 2019-2021. Verk hennar Agape var tilnefnt til Íslensku Tónlistarverðlaunanna árið 2022. Verk hennar hafa verið flutt víðsvegar um heim af flytjendum eins og Oslo Philharmonic (NO), International Contemporary Ensemble ICE (US), Sinfóníuhljómsveit Íslands (IS), Nordic Affect (IS), Decibel (AU), Avanti! Chamber Orchestra (FI), Esbjerg Ensemble (DK), Norrbotten NEO (SE), William Winant (US), Distractfold (UK) og fleirum. Þá hafa verk hennar verið valin til flutnings á hátíðum eins og Mostly Mozart Festival, World New Music Days, Ultima Festival, SPOR Festival, Only Connect, Tectonics, Myrkir Músíkdagar, Prototype, Klang, Borealis og Nordic Music Days auk fleiri viðburða.  
 
Einar Torfi Einarssson hefur verið ráðinn í stöðu prófessors í tónsmíðum 
Einar Torfi Einarsson lauk doktorsprófi í tónsmíðum frá Háskólanum í Huddersfield. Áður stundaði hann tónsmíðar við Tónlistarskólann í Reykjavík, Tónlistarkonservatoríuna í Amsterdam og Tónlistarháskólann í Graz. Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlaun fyrir tónverk sín, m.a. í impuls tónsmíðakeppninni. Tónlist hans hefur verið flutt víða um heim og á mörgum tónlistarhátíðum af helstu nútímatónlistarhópum Evrópu, þar á meðal Klangforum Wien, ELISION Ensemble, Ensemble Intercontemporain og fleirum. Einar Torfi var í nýdoktorsstöðu (e. postdoctoral researcher) við tónlistarrannsóknarsetrið hjá Orpheus Institute í Belgíu 2013-14. Rannsóknir hans hafa verið birtar í Perspectives of New Music og gefnar út af Leuven University Press. Einar Torfi hefur starfað sem aðjúnkt í tónsmíðum við tónlistardeild frá 2015. 
 
Guðrún Elsa Bragadóttir hefur verið ráðin í stöðu aðjúnkts við kvikmyndalistadeild og mun hún gegna hlutverki fagstjóra fræða í kvikmyndalist. 
Guðrún Elsa lauk doktorsgráðu í bókmenntafræðum frá State University of New York at Buffalo 2021 og fjallaði um „Feminine Aggression and Queer Femininity in Contemporary American Film and Literature“. Hún er einnig með meistaragráðu frá sama háskóla þar sem rannsóknarsvið hennar var hinsegin fræði, sálgreining og bandarískir kvenhöfundar. Guðrún Elsa lauk einnig bæði meistaragráðu og bakkalárgráðu frá Háskóla Íslands þar sem rannsóknarsviðið var kvikmyndir, bókmenntir og menningarfræði. Guðrún Elsa hefur flutt fjölda erinda og birt greinar um rannsóknarefnin sín. Hún hefur jafnframt sinnt kennslu við HÍ, Tækniskólann og SUNY Buffalo háskóla. 
 
Hanna Dóra Sturludóttir hefur verið ráðin í stöðu prófessors söng og mun jafnframt gegna hlutverki fagstjóra á söngbraut. 
Hanna Dóra Sturludóttir hefur um árabil verið í fremstu röð óperusöngvara Íslands. Hún lauk framhaldsháskólanámi frá Listaháskólanum (UdK) í Berlín, þar sem hún lærði meðal annars hjá Prof. Dietrich Fisher-Dieskau og Prof. Aribert Reimann. Hanna Dóra hefur komið fram í óperum, á ljóða- og kirkjutónleikum um alla Evrópu og síðast en ekki síst hefur samtímatónlist ávallt verið stór hluti af efnisskrá hennar. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir tónlistarflutning m.a. Íslensku tónlistarverðlaunin og fyrir frammistöðu sína í KOK, nýrri íslenskri óperu sem frumsýnd var 2021 var hún tilnefnd til Grímuverðlaunanna. Hanna Dóra hefur gegnt stöðu aðjúnkts við tónlistardeild frá 2018 og fagstjóra söngbrautar frá 2020. 
 
Nína Hjálmarsdóttir hefur verið ráðin í stöðu lektors í sviðslistafræðum. Nína mun jafnframt gegna hlutverki fagstjóra fræða við sviðslistadeild. 
Nína er performanslistamaður, fræðimaður og framleiðandi. Nína Hjálmarsdóttir lauk meistaranámi frá New York University Tisch í Performance Studies árið 2020, og námi frá sviðshöfundabraut LHÍ árið 2016. Hún er annar stofnandi performanskollektívunnar Sálufélagar sem hafa sviðsett verk innanlands sem og erlendis. Í verkum og skrifum sínum hefur Nína meðal annars rannsakað ímynd Íslands, Norðrið í nýlendusamhengi og hinsegin teoríu. Nína hefur gegnt stöðu aðjúnkts og fagstjóra fræða við sviðslistadeild frá 2021. 
 
Sandrine Cassini hefur verið ráðin aðjúnkt í samtímadansi. 
Sandrine Cassini, nam við Conservatoire Superieur de Paris og vann fagverðlaunin á Prix de Lausanne áður en hún gekk til liðs við ballettinn við óperuna í París. Sandrine starfaði við Ballets de Monte-Carlo sem hún var fyrsti sóló dansari. Ferill hennar leiddi hana síðan til Zürich-ballettsins, San Jose-ballettsins, Ballettsins í Bresku Kólumbíu, Þjóðleikhússins í Mannheim og nú síðast Bejart-ballettsins. Sandrine hefur starfað sem kóreograf við Staatstheater Regensburg, Ballett Victoria, Dances for Small Stages í Vancouver og Þjóðleikhúsið í Mannheim og í San Francisco. Hún var einnig danskennari (e. Ballet Mistress) við nýsjálenska ballettinn um skeið. 
 
Sigurður Flosason hefur verið ráðinn í stöðu prófessors í rytmsíkri tónlist og mun hann jafnframt gegna hlutverki fagstjóra rytmískrar söng- og hljóðfærakennslu. 
Sigurður Flosason lauk Bachelors- og Mastersprófum frá Indiana University í Bandaríkjunum bæði í klassískum saxófónleik og jazzfræðum. Sigurður hefur um árabil verið í hópi atkvæðamestu jazztónlistarmanna Íslands. Sigurður hefur unnið mikið að framgangi jazztónlistar á Íslandi, meðal annars með skipulagningu fjölda tónleikaraða og hátíða og gefið út yfir 30 geisladiska. Sigurður hefur komið fram víða erlendis, bæði í eigin verkefnum og fjölþjóðlegum samvinnuverkenfum og hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar og verðlaun fyrir tónlist sína. Hann var aðstoðarskólastjóri og yfirmaður jazzdeildar Tónlistarskóla FÍH á árunum 1989-2017. Aðstoðarskólameistari og yfirmaður rytmískrar deilar MÍT (Mennatskóla í tónlist) frá 2017 og fagstjóri rytmískrar kennaramenntunar í Listaháskóla Íslands frá 2018. 
 
Við óskum þeim öllum hjartanlega til hamingju og hlökkum til samstarfsins. 
Ekki hefur verið ráðið í allar stöður og það ferli enn í gangi.