Ímynduð tónlist og skorður ímyndunaraflsins (og þess ómögulega)

Einar Torfi Einarsson
 
 
Eftirfarandi texti er bæði grein, verk, þarfagreining og spurningalisti. Hann reynir ekki endilega að svara þeim spurningum sem settar eru fram og reynir heldur ekki að afgreiða þær einingar sem hér birtast sem ein heild. Textinn tekur sér listrænt og fræðilegt frelsi og er hugsaður einna helst sem forvitni.
 
 
Ömmudúr
Hvað ef ég segi við þig lesandi góður að ímynda þér rödd ömmu þinnar…
 
…er ég þá að vinna innan bókmennta eða tónlistar? Hvað ef ég bið þig að bæta við dúrhljómi?
 
ommudur_ete.png
 

Mynd 1:  Ömmudúr – ekki-textaskor, fyrir ímyndun (2022)

Hvaða hljóðfæri hefurðu valið þér? Hljómar hann enn eða var hann stuttur (hljómurinn), var þetta kannski ekki dúrhljómur, ertu ekki alveg viss? Nú máttu breyta hljóði dúrhljómsins í þrjú ólík hljóðfæri og útsetja hljóminn (ásamt rödd ömmu þinnar) yfir þrjár áttundir. Þetta er kannski ekki á færi allra en hljóð sem við ímyndum okkur vil ég meina að séu flutt af okkur, og þá sérstaklega þegar tónverk miðar að slíkum flutningi. Takk, þú hefur flutt verkið. En telst það flutningur þegar einungis er um ímyndun að ræða? Því svara ég hiklaust játandi þegar verk er skrifað fyrir það “rými” og þann “flytjanda”, m.ö.o. ef ég ákveð að ramma það þannig inn. Slíkt verk þarf að taka tillit til ímyndunaraflsins og þeim skorðum sem því eru settar. Eða hvað? Er hér kannski nýtt svið sem kalla mætti réttilega tón-bókmenntir eða hljóð-bókmenntir með óskilgreindar skorður?
 
Ef ímyndunaraflið getur verið rými og að mörgu leyti flytjandi slíkrar tónlistar rétt eins og um bókmenntaverk væri að ræða, hví þá að styðjast við þríhljóma og ömmuraddir. Við gætum gert eins og Dieter Schnebel gerði í bók sinni Musik zum Lesen þar sem hann fer fram á óraunhæfar kröfur, t.d. þegar sett er fram verk fyrir 563 kontrabassa, 79 es-klarinett og 37 pákur.[1]
 
 
schnebel-7futurephone.jpeg
 

Mynd 2: 7 Future-phone eftir Dieter Schnebel úr bókinni Mo-No Musik zum Lesen

Við gætum líka beðið um ímyndaða sínusbylgju á ca. 47.000 Hz í samfloti með þinni fyrstu minningu af hvelli. Nú eða hreinlega beðið lesandann að ímynda sér hljóðið í eftirfarandi mynd (sem tekur nota bene 2.2 sekúndur):
 
shoelace-tie.png
 

Mynd 3: The Sound of Shoelacing in 2.2 Seconds

Þanki #1
Við sjáum strax að skorður ímyndunaraflsins eru allt aðrar en pragmatíski veruleiki tónlistar setur fram (sem er kannski yfirleitt notaður fyrir skorður). En í því ljósi erum við líka komin inn á svið heimspekinnar því fljótlega förum við að spyrja okkur hverjar eru þá skorðurnar ef raunsæi er óþarfi? Væntanlega það sem ekki er hægt að ímynda sér, hvað sem það nú er. En ímyndun er ávallt í samhengi einhvers ramma, raunhæfum eður ei, mögulegum eður ei, ómögulegum eður ei. Einhver sagði að við getum ekki vitað það sem við vitum ekki ef við vitum ekki að við vitum það ekki (óþekkt vanþekking) en ég spyr getum við ímyndað okkur það sem við þekkjum ekki? Einn rammi sem ég hef heillast af er rammi þess ómögulega, sem þvertekur fyrir allt sem mögulegt er, eins og gerist í nótnaverkinu Tempo(r(e)al[ity]-lab(oratory/yrinth) II: tempi paradox in the complex plane. Enginn atburður er hér mögulegur og það er heldur ekki hægt að ímynda sér þá.
tempo-reality_ii_ete.png
 

 

Þversögnin í því er auðvitað sú að ef eitthvað er mögulegt fyrir ímyndunaraflið kemst það ekki inn í rammann. Við þurfum því að skilgreina það sem er mögulegt fyrir utan ímyndunaraflið og innan þess. Við getum hins vegar sagt að það sem er ómögulegt fyrir ímyndunaraflið er að hrinda einhverju í framkvæmd; kannski of einfalt en ímyndunaraflið eitt og sér getur ekki ýtt við strái hvað þá flautu. Þannig er „hið mögulega“ í raun ómögulegt fyrir ímyndunaraflið og verður það að sætta sig við ómögulega hluti (innan þessa ramma). En af hverju erum við alltaf að nota ímyndunaraflið fyrir mögulega hluti og hvernig væri að ímynda sér ómögulega hluti (af fullum krafti)? Það er ekki vinsælt en ómögulegir hlutir eru ekki endilega ómögulegir fyrir ímyndunaraflið. Við lendum samt fljótlega í tvíhyggjuógöngum þar sem raunveruleikinn og óraunveruleikinn mætast. En er hið ómögulega, sem samt er hægt að ímynda sér, óraunverulegt? Hvað með það sem ekki er hægt að ímynda sér?
 
Heimspekingurinn Edward Casey talar um hreina möguleika (e. pure possibilities) þegar kemur að ímyndunaraflinu en Heidegger skilgreinir skilning sem vörpun eða útskot möguleikanna.[2] Við þurfum því að skilgreina hvað við meinum með möguleikum – sem gerist ekki hér í þessari grein – en ímyndun og ímyndunarafl hefur hlotið fremur lágt álit heimspekinga í gegnum tíðina: Plató talaði um afhrak (phantastike er úrkynjað eikastike), Kant um örbirgð eða rýrða hugsun, og aðrir tala hreinlega, og niðrandi, um þykjustuleik.[3] Aristóteles kemur okkur á óvart þegar hann segir að viðfangsefni ímyndunaraflsins verði að minningum út frá eigin forsendum.[4] Sem er heillandi úttekt. En svo er tengingin við skynjunina; er ímyndun hreinlega afsprengi skynjunar eða er um allt aðra formgerð að ræða? Kannski er ímyndun nauðsynleg fyrir skynjun og ekki hægt að aftengja þessi fyrirbæri því þau mynda ákveðna heild. Svo virðist sem stærðfræðin hafi áttað sig á þessu lögmáli fyrir allmörgum öldum með því að taka ímynduðu töluna (i = -1) sem fullgildan meðlim fagsins, og samtímis á þeirri staðreynd að ímynduð tala sett í annað veldi verður raunveruleg.
 
Millitónn
Ég get ímyndað mér tilbrigði við verkið hans Schnebels að ofan þar sem þúsundir kontrabassaleikara mynda röð frá Reykjavík upp á Þingvelli og kasta staccato hæstu tónhæðar sín á milli eins og boðhlauparar gera með keflin sín, og tónninn kastast þannig frá Reykjavík til Þingvalla og aftur til baka, og aftur upp eftir, með samvinnu allra, dag og nótt. Og ég get ímyndað mér áheyrendahóp sem stendur á Mosfellsheiðinni og heyrir veikan tónblæinn nálgast og hverfa svo á methraða aftur með hjálp Dopplers. En þetta er í sjálfu sér mögulegt. Væntanlega óraunhæft en samt sem áður ekki ómögulegt í framkvæmd. Auðvitað myndi enginn framkvæma þetta, nema kannski geggjaður einræðisherra, en er verkið/tilbrigðið þá dautt? Deyr það meira eða lifnar það við ef verkið verður ómögulegt með öllu, eins og að hafa þau formerki að verkið skuli flytja aðeins yfir hljóðhraða?
 
En eru þetta ekki bara fíflalæti og kjánaskapur? Nei, því við þurfum að spyrja okkur hvað það er sem heftar ímyndunaraflið, og hvernig ímyndunaraflið kveikir í nýjum hugmyndum sem gætu e.t.v. raungerst. Hljóðfæri í höndum flytjenda hefur ákveðið möguleikarými (e. phase space) í raunveruleikanum, skilgreint út frá eðlisfræðilegum forsendum. Ímyndunaraflið getur tekið mið af því raunrými en það getur líka tekið mið af ímynduðum heimi, skálduðum heimi, ómögulegum heimi. Svo er líka alltaf verið að endurskilgreina. Enginn hafði ímyndað sér á réttan hátt hvernig hljóðið á Mars væri upplifað fyrr en hljóðnema var komið fyrir þar fyrir skemmstu sem leiddi í ljós að hljóðbylgjur ferðast á tveimur ólíkum hröðum í andrúmslofti Mars, ólíkt því sem gerist hér á jörðinni. Mars hefur því tvo hljóðhraða, einn fyrir lágtíðni og annan fyrir hátíðni.[5] Og nú er ég að semja verk fyrir Mars sem hljómar eins maður sé á jörðinni.
 
Lofttæmistónlist
Verkið mitt The Vacuum Cycle (string quartet no.1) er ómögulegt tónverk sem leikur sér að mörkum þess mögulega og ómögulega, og þess ímyndaða. Það ræður texta í vinnu og því kannski mögulegt sem tón-bókmenntaverk. Það gæti hins vegar orðið mögulegt tónverk, einhvern daginn, það fer eftir hvernig vísindunum fleygir fram og hef ég því einnig skilgreint það sem vísindatónverk (sbr. vísindaskáldskap). Verkið leikur sér einnig með hvernig ímyndunin er ótemjanleg, t.d. þegar aðgerðalýsingar á strengi strengjahljóðfæris vekja upp hugmyndir um hljóð, sem gætu aldrei raungerst þar sem um lofttæmi er að ræða, þá hleypur ímyndunaraflið með okkur í gönur:
 
The Vacuum Cycle (string quartet no.1)
(in four movements to be performed separated or together in time)
 
(i)
Location: Orbit (Earth’s or any other astronomical object’s)
Material (actions): Protective transparent airtight box containing ‘air’, a string instrument and solar powered programmable robotic arm holding a bow. The pre-programmed robotic arm, using the bow, applies severe pressure on the strings along with irregular and continuous jerking motion.
Duration: Lifespan of the nearest sun.
 
(ii)
Location: Anywhere within an atmosphere (installation space, concert hall, stage, museum, field, etc.)
Material (actions): Transparent vacuum box (vacuum chamber) containing a string instrument and battery powered mini motor connected by cogwheels to a bow-hair ‘belt’ that runs continuously over the strings. Additionally, the string instrument should have automatic tuners attached to its pegs. These automatic tuners should be pre-programmed to continuously ‘search’ for, or tune to, a different (microtonal) pitch every 1/π, 2/π, 3/π and 4/π second.
Duration: As long as battery power permits.
 
(iii)
Location: Performance space (stage, concert hall, etc.)
Material (actions): Performer with a remote control and a transparent vacuum box (vacuum chamber 1), placed within another transparent vacuum box (vacuum chamber 2) and held with wires from corner to corner. The inner most vacuum box should contain a string instrument and a battery powered wheel saw. Both should be stationary but close to each other. Additionally, a gradually closing bench vice should be situated around the body of the instrument (the ‘gradual closing’ mechanism should be operated by a battery powered motor powerful enough to squeeze and smash the instrument). The only control the performer has is switching the battery power on or off.
Duration: Performer’s discretion.
 
(iv)
Location: Within a human body, preferably in the blood stream
Material (actions): Construct a nano string instrument, smaller than 1/21 of the diameter of a human hair, which can vibrate its strings in direct relation to the amount of adrenalin and oxygen in its environment. Inject the performer of ‘iii’ with this nano string instrument.
Duration: The rest of performer of movement ‘iii’’s life.  
 
 
Verkið virðir fyrir sér raunveruleika ímyndunaraflsins, og nauðsyn þess ímyndaða á svipaðan hátt og talan i (bara ekki jafn hagnýtt). En einnig þá tónlist sem gerist innra með okkur, ímynduð, í lofttæmi – tónlist ímyndunaraflsins þarf ekki endilega súrefni né köfnunarefni.
 
Siðferðislega ómögulegt
Verkið One anti-personnel type-CBU bomb will be thrown into the audience (1968) eftir Philip Corner er ómögulegt af allt öðrum ástæðum. Alla vega myndi enginn voga sér að flytja það, sem gerir það ómögulegt í framkvæmd en ekki af fysískum/líkamlegum ástæðum heldur siðferðislegum.[6] En e.t.v. nær það tilgangi sínum einmitt þannig og verður því „flutt“ í þeirri siðferðislegu aðgerð að neita að flytja verkið. En gerist þetta innan ímyndunaraflsins? Þetta er heillandi þversögn sem verður að teljast meira en þversögn, eiginlega einhvers konar flutningur.
 
Þanki #2
Við þyrftum að skilgreina hinar margslungnu hliðar, eða flokka, þess ómögulega.
Sniðmengi tónlistar og bókmennta, sem virkur vettvangur listsköpunar, getur nýtt sér texta, fantasíu, skáldskap, tilbúning, hugarburð sem efni í samþættingu tónlistar og bókmennta. En auðvitað þarf ekki að nýta sér texta til þessa, grafískar leiðir eru einnig færar og eflaust fleiri. Slík verk geta virkað sem hvati og innblástur fyrir skapandi hugsun af öllum toga og líka fyrir verk sem falla vel inn í ramma hefðarinnar. Innan bókmennta er hins vegar lesandinn einn með sjálfum sér, bæði flytjandi og hlustandi, og er það skýrt heimasvæði textans/bókarinnar og tónlist gæti e.t.v. í meiri mæli leitað á þau mið.
 
Textaskor (e. text scores) sem tónlistarlegir hlutir hafa auðvitað notað texta í ríkum mæli en slík verk miða yfirleitt að flutningi, og eru því lýsandi fyrir aðgerðir eða nálgun flytjandans sem fer svo með það veganesti fyrir framan áheyrendur. Hér er ég hins vegar að beina sjónum mínum að rými ímyndunaraflsins og hvernig tónlist gæti smyglað sér inn í það rými, og mögulega inn á það heimasvæði sem lýst er hér að ofan.
 
Kannski er hreinlega nóg að gefa því útgáfuvettvang eins og Robert Fludd gerði með sitt ímyndaða hljóðfæri (Instrumentum nostrum Magnum), árið 1618, þegar hann lét það fylgja með (innifaldi það) í sagnfræðilegu yfirgripsverki um allt milli himins og jarðar: Utriusque Cosmi, Maioris scilicet et Minoris, metaphysica, physica, atque technica Historia (e. Metaphysical, Physical and Technical History of Both the Greater and the Lesser Cosmos). Hljóðfærið átti að geta spilað alla tónlist (síns tíma), án flytjanda, og alla parta sem venjulega voru í höndum lútu-, pandora-, og fiðluleikara.[7]
 
fludd-instrumentum-nostrum-566x1024.jpeg
 

Mynd 4: Robert Fludd: instrumental nostrum magnum frá 1618

Lok og opna
Ímyndunaraflið er ávallt með í hverri sköpun, og við getum sagt að það sé brýnt og bælt til skiptis með hliðsjón af skilningi – í anda Heideggers – á möguleikum raunveruleikans. Ímyndun er einnig ávallt hluti af skynjun og því þegar listaverk, af hvaða toga sem er, er meðtekið. En e.t.v. er hægt að leysa það úr „ánauð“ þessari og gefa því lausan tauminn, eða í það minnsta sníða/smíða því annars konar ramma? Hér er alla vega frekari rannsóknavinna fyrir höndum.  
 
Ef þú telur þetta vera innblásandi viðfangsefni hvet ég þig til að skila inn verki í þessa safnútgáfu (tón/hljóð)verka fyrir ímyndun (music for the imagination vol.1): www.hupoeditions.webador.com/publications
 

[1] Schnebel, Dieter. Mo-No Musik zum Lesen (Köln: Verlag M. DuMont Schauberg, 1969)
[2] Casey, Edward. “Imagination: Imagining and the image”, Philosophy and Phenomenological Research, Vol. 31, No. 4 (Jun., 1971), bls. 475-490.
[3] Casey, Edward. “Imagining and Remembering”, The Review of Metaphysics, Vo. 31, No. 2 (Dec 1977), bls. 187-209
[4] Casey, Edward. “Imagining and Remembering”, The Review of Metaphysics, Vo. 31, No. 2 (Dec 1977), bls. 188
[5] Maurice, S., Chide, B., Murdoch, N. et al. ”In situ recording of Mars soundscape”. Nature (April, 2022). Sjá einnig hér: https://phys.org/news/2022-04-audio-mars-reveals.html og https://www.nasa.gov/feature/jpl/what-sounds-captured-by-nasa-s-perseverance-rover-reveal-about-mars
[6] Brooks, William. “Protest, Progress and (Im)possible Music”, Contemporary Music Review, Vol. 29, No. 4, ágúst 2010, bls. 405-411.
[7] Godwin, Joscelyn. “Instruments in Robert Fludd's Utriusque Cosmi... Historia”, The Galpin Society Journal, Vol. 26 (May, 1973), bls. 2-14

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Þræðir - forsíða

Tölublað 7

TÖLUBLAÐ 7

Um höfunda