Formáli

Með þessu nýjasta tölublaði Þráða hafa komið út 54 greinar síðan tímaritið hóf göngu sína vormisserið 2016. Ljóst er að tímaritið hefur staðið undir þeim markmiðum sínum að skapa vettvang fyrir orðræðu tónlistar á íslensku máli, miðla þekkingu og varðveita rannsóknir. Segja má að greinar nýjasta tölublaðsins séu skólabókardæmi um hvernig þessi markmið geta birst á mjög ólíkan máta. Fyrsta má nefna grein Atla Ingólfssonar sem fjallar um starf íorðanefndar tónsmíðabrautar og hversvegna við þurfum íslensk orð yfir ný hugtök. Þá eru tvær greinar sem leggja til greiningar á íslenskum tónverkum. Annars vegar er það Anna Þórhildur Gunnarsdóttir sem býður uppá greiningu á SO eftir Þorkel Sigurbjörnsson og dregur fram þá þætti sem eru góð dæmi um almenn höfundareinkenni Þorkels. Hins vegar er það Helgi Rafn Ingvarsson sem fjallar um íslensk einkenni í óperettunni Í álögum eftir Sigurð Þórðarson (tónlist) og Dagfinn Sveinbjörnsson (handrit), sem var frumflutt árið 1944  og var fyrsta íslenska verk sinnar tegundar. Einar Torfi Einarsson leiðir okkur um heima ímyndaðrar tónlistar, takmarka og skorður ímyndunaraflsins og setur eigin verk í það samhengi. Að lokum deilir Sigurður Flosason hugleiðingu um eigin kennslu, og hvernig hann hefur þróast í starfi út frá kennslufræðikenningum Peter Kugel.
 
Ég þakka höfundunum kærlega fyrir sitt framlag, Atla Ingólfssyni fyrir samstarfið í ritnefndinni og vona að þið njótið lestursins.
 
Fyrir hönd ritnefndar Þráða,
Þorbjörg Daphne Hall

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Þræðir - forsíða

Tölublað 7

TÖLUBLAÐ 7

Um höfunda