Dreifður á Kugelrófinu - hugleiðingar um eigin kennslu og ýmislegt annað

Sigurður Flosason
 
 
Í vetur hef ég tekið þátt í námskeiði í kennslufræði á háskólastigi og haft bæði gott og gaman af. Leiðbeinendur hafa verið Gunndís Ýr Finnbogadóttir og Guðbjörg R. Jóhannesdóttir og það er fyrir þeirra hvatningu og ritstjóra Þráða að ég birti eftirfarandi pistil hér.
 
Á liðnum árum hefur kennslufræðikastljósinu í auknum mæli verið beint að fyrri þekkingu nemenda. Á yfirstandandi námskeiði kom þessi hugsun skýrt fram í lesefni fyrir fyrsta tímann. Hafþór Guðjónsson talar í skrifum sínum um nemendur sem „þekkingarsmiði“. Forþekking nemenda og fyrri reynsla verður þannig útgangspunktur kennslunnar. Þessar hugmyndir koma reyndar fram víðar. Með netgrúski hefur mér sýnst að þessar hugmyndir verði fyrirferðarmiklar í kringum síðustu aldamót og sérlega mikið virðist hafa verið skrifað um þessar pælingar í kringum 2010.
 
Í þeirri ígrundun sem námskeiðið hefur leitt til, hef ég eðlilega hugsað mikið um mína eigin kennslu og þróun hennar, einnig í samhengi við kenningu Peter Kugel um þróun prófessora en henni þótti mér sérlega áhugavert að kynnast. Við skrif fjórðu dagbókarfærslu datt mér allt í einu í hug að kannski væri ekki úr vegi að horfa á kennarann með sömu augum og nemandann. Hvað með að líta á kennarann sem þekkingarsmið og horfa til fyrri reynslu og forþekkingar hans? Hlýtur ekki öll vinna kennarans og nálgun að starfinu að byggja á þessu? Í mínu tilfelli sé ég forþekkinguna sem allt mitt fyrra nám, ekki bara í tónlist heldur allt almennt nám og margvíslega tómstundaiðkun líka.
 
Hvað hefur þá fyrri reynsla kennt mér um kennslu? Með því að horfa á alla sem hafa kennt mér og leiðbeint frá fimm ára aldri til nútímans má greina mynstur. Ef til eru taldir allir kennarar í gegnum, grunn-, mennata- og háskóla verður til dálagleg tala. Hún stækkar enn ef við bætum við 20 árum af tónlistarnámi í ýmsum skólum á öllum skólastigum hér á landi og erlendis. Tökum svo með hljómsveitarstjóra, íþróttaþjálfara og aðra tómstunda- og námskeiðsleiðbeinendur og þá er ég viss um að samtala kennara og leiðbeinenda minna er ekki undir 200. Síðan má raða þessum einstaklingum á nokkurskonar áhrifaróf. Hverjir standa upp úr hafa mótað mig. Af hverju?  Hverir standa svo niður úr og af hverju? Á þessu tel ég að forþekking mín á kennslu byggi. Síðasta púslið í þessa stóru raðmynd er yfirstandandi námskeið í kennslufræði; kærkomin og annarskonar viðbót við þessa rúmlega fimm áratuga ómeðvituðu reynslu.
 
Kennararnir sem standa upp úr í minni sögu eru þeir sem virkilega höfðu einhverju að miðla og voru ósínkir á sína visku og reynslu. Þeir sem gerðu umtalsverðar kröfur en voru um leið sanngjarnir og mannlegir. Þeir sem voru vinsamlegir og hóflega sveigjanlegir. Þeir sem voru skýrir varðandi kröfur og höfðu tengsl orsakar og afleiðinar alltaf ljós. Þeir sem voru faglegar fyrirmyndir og kenndu líka með eigin gjörðum. Yfirleitt voru þessir einstaklingar líka helteknir af viðfangsefninu sjálfir og smituðu þannig með eigin ástríðu. Þeir albestu í þessum hópi áunnu sér virðingu, að því er virðist fyrirhafnarlaust. Með því að vera eins og þeir voru fengu þeir alla til að gera sitt besta alltaf og engum datt í hug að svíkjast undan eða slá slöku við. Þeir kenndu sem sagt ekki bara með því að kenna heldur líka með því að vera, bæði sem listamenn og manneskjur. Þessum kennurum vil ég líkjast og á þessu byggir mín bjargfasta trú á að við getum sjálf stýrt því hvernig aðrir koma fram við okkur: Við stýrum því með því hvernig við komum fram sjálf!
 
Mig langar að nefna þrjú dæmi úr minni sögu. Eugene Rousseau kenndi mér á saxófón um fimm ára skeið í háskóla í Bandaríkjunum. Hann er mildur maður með hlýlegt viðmót en skarpgreindur og leiðandi alþjóðlegur listamaður á sínu sviði. Hann er dæmi um kennara sem meðal annars mótaði nemendur sína með með eigin framgöngu, bæði listrænt og mannlega. Hann ávann sér líka virðingu allra án fyrirhafnar. Hafsteinn Guðmundsson, aðalkennari minn hér á landi og undanfari Rousseau í minni saxófónkennslusögu býr reyndar yfir mörgum sömu eiginleikum; vönduðum persónuleika, einlægum áhuga á efninu, kennslunni, nemendunum og tónlistinni sjálfri. Ég hugsa líka oft um Sæbjörn heitinn Jónsson hvers leiðsagnar ég naut sem unglingur í lúðrasveit og síðar stórsveit. Hann brann fyrir starfið af óstöðvandi elju og þvílíkum krafti að það var ekki annað hægt en að smitast og skunda með. Þessi þrjú viðmið hafa líklega haft talsverð áhrif á mína kennslu og minn kennarapersónuleika. Vandvirkni, metnaður og dugnaður einkenndi kennslu allra þessara manna og eldmóður er orð sem sameinar þá alla, hvern á sinn máta.
 
Þeir kennarar sem falla við neðri enda rófsins eru þeir sem voru ósanngjarnir og ósveigjanlegir. Þeir sem voru hranalegir og auðsýndu hroka. Líka þeir sem voru latir og settu markið lágt. Þeir sem voru óskipulagðir, ruglingslegir og handahófskendir í sínum verkum. Ennfremur þeir sem voru ófyrirsjáanlegir og órökréttir í sínum gjörðum. Þeir sem tengdu orsök og afleiðingu ekki vel saman. Þessir kennarar voru slæmar fyrirmyndir, ýmist mannlega, faglega eða bæði. Í þennan flokk falla svo líka þeir sem voru vinsamlegir og jafnvel skemmtilegir en gerðu of litlar kröfur eða höfðu ekki nægu að miðla; þessir sem lögðu e.t.v. mest upp úr því að vingast við nemendur. Hér gæti ég nefnt nokkra kennara af ýmsum skólastigum en læt það ógert. Þeir eru víti til að varast og hafa þar með líka mótað mig – vonandi til góðs!
 
Þegar ég lít um öxl og hugsa um sjálfan mig sem kennara fyrir tíu, tuttugu eða þrjátíu árum held ég að ég verði að játa mig sigraðan af Peter Kugel. Hinn 25 ára gamli ég, nýkominn út háskólanámi, var ótrúlega viss í sinni sök. Ég notaði þær aðferir sem ég hafði kynnst og setti alla nemendur í svipað prógram, metnaðarfullt en lítt sveigjanlegt. Þetta virkaði mjög vel fyrir suma en ekki jafn vel fyrir alla. Ég var nokkuð stífur á meiningunni og lét mínar listrænu skoðanir og smekk líklega hafa of mikil áhrif á nálgun mína. Í rauninni var ég sjálfur fókusinn og útgangspunkturinn –  sem sagt dæmigerður fyrsta stigs kennari að hætti Kugels. Sjálfum mér til málsbóta held ég að ég hafi í það minnsta verið fullur af áhuga og eldmóði.
 
Nokkrum árum síðar var efnið og innihaldið komið framar í forgangsröðin. Ég hafði reynt að ná þróun og framförum í minni eigin tónlistariðkun, leita leiða og nýrra upplýsinga. Margt af því sem ég uppgötvað í eigin æfingum og pælingum nýtti ég einnig í kennslu og gerði að mínum eigin persónulegu kennsluaðferðum. Ég hafði breyst talsvert sem kennari og var líklega orðinn nokkuð dæmigerður annarsstigs kennari samkvæmt Kugel.
 
Enn nokkrum árum síðar get með góðri samvisku sagt að nemandinn hafi verið kominn í meiri fókus og mín kennsla öll orðin nemendamiðaðri. Ég horfði meira til þess sem ég taldi hvern nemenda þurfa á að halda og spurði mig oftar um hvað ég gæti gert fyrir hvern og einn. Um leið slakaði ég á ýmsum föstum kröfum sem ég gerði áður til allra. Fyrir suma nemendur virkaði þetta mjög vel. Inn á milli voru þó nemendur sem ef til vill hefðu náð betri árangri með hinum yngri, harðari, ósveigjanlegri og formfastari mér. Kugel bendir reyndar á þann áhugaverða punkt að kennarar geti í sjálfu sér verið góðir á hvaða stigi sem er. Þróunin í gegnum stig Kugels er því ekki endilega bein leið upp á við. Í rauninni held ég að mín kennsla hafi verið misgóð fyrir mismunandi nemendur á mismunandi tímum og það er aðeins óþægileg staðreynd.
 
Hvar stend ég þá í dag? Kannski einhversstaðar á milli þriðja og fjórða stigs? Ég tengi allavega vel við það sem Kugel talar um á fjórða stigi; að hjálpa nemendum að læra sjálfir. Nemendamiðuð hugsun leiðir mig þó að þeirri niðurstöu að kannski ætti maður að reyna að forðast þetta að því er virðist óumflýjanlega þroskaferli Kugels. Kannski ætti maður að reyna að vekja upp fyrri stigin í sjálfum sér og reyna að vera sá kennari sem hver nemandi þarfnast hverju sinni. Sumir nemendur þurfa kennara sem fókuserar á efnið, aðrir þurfa kennara með strúktúr og prógram. Enn aðrir kalla á leiðsögn við að hjálpa sér sjálfir. Stöku nemendur horfa líka til kennarans sem listamanns og fyrirmyndar. Leiðir því ekki af sjáflu sér að kennari með klofinn Kugelpersónuleika, kennari sem er dreifður á Kugel rófinu, sé besti kennarinn? Ég held að svarið hljóti að vera já. Til svo geti orðið, verður kennarinn að horfa á sjálfan sig í enn víðari fókus en áður. Ögrandi en spennandi verkefni!
 
Þegar ég ígrunda mína fyrri þekkingu á kennslu verður myndin af kennaranum sem ég vil vera mjög skýr. Hún byggir klárlega á því rófi reynslunnar sem reifað er hér að ofan. Um leið þarf að taka tillit til nýrrar þekkingar og ný þekking á sviði kennslufræði hefur opnað mér dyr.
 
Hugmyndin um nemendamiðað nám er reyndar ekki ný fyrir mér. 18 ára starf fyrir Menntamálaráðuneytið við ritstjórn aðalnámskrár og greinanámskrá tónlistarskóla kenndi mér ýmislegt á því sviði. Ég sé hinsvegar að fókusinn hefur færst til síðan þá, nýjar hugmydir og ný hugtök hafa bæst við. Mér er nú enn betur ljóst en fyrr að nemandinn og forsendur hans þurfa alltaf að vera í fyrsta sæti. Í hópkennslu verður þessi spurning þó flóknari. Þar getur maður staðið frammi fyrir því að hópurinn sé allur tiltölulega samstíga og með svipaðan bakgrunn en einn nemandi hafi allt annan bakgrunn, aðrar væntingar og aðrar skoðanir. Þrátt fyrir góðan vilja, bakgrunnsskilning og nemendamiðun getur þessi staða orðið mjög snúin og kannski er eitt svarið við henni fólgið í inntökuferlinu og vali á nemendum, eins leiðinlegt og er að segja það.
 
Námskeiðið hefur sett námsmat í brennidepil. Leiðsagnarmat er líklega flestum tónlistarkennurum tamt, a.m.k. ómeðvitað, eftir áralanga einkakennslu. Leiðsagnarmat í hópkennslu er hinsvegar nokkuð sem mér finnst eftirsóknarvert að skoða. Ég hef beitt því í vissum gerðum námskeiða en ekki í hefðbundnum fræðanámskeiðum. Kannski kominn tími til að skoða þann möguleika. Ég sé líka tækifæri í aukinni áherslu á sjálfsmat og jafningjamat.
 
Annað atriði sem situr í mér eftir námskeiðið eru rannsóknir á námi nemenda; hvernig þeir telja sig læra best. Námspýramídinn sem gefur hefðbundnum fyrirlestrum kennara lægstu einkunn en miðlun nemendanna sjálfra hæstu einkunn er nokkuð sem fær mig til að staldra við og hugsa. Þó ég sé sjálfur hallur undir fyrirlestraformið, bæði sem nemandi og kennari, get ég ekki annað en tekið þessa niðurstöðu alvarlega. Hún staðfestir það sem ég þekkti reyndar úr hljóðfæranáminu; að nám með gjörðum – „learning by doing“ - virkar best. Sú staðreynd á greinilega við í víðara samhengi. Ég á eftir að vinna betur úr henni.
 
Ég hef þá trú að hvort sem við höfum kennt lengi eða stutt þá höfum við gott af því að láta hreyfa aðeins við okkur, taka inn ferskar upplýsingar, hugsa málin upp á nýtt og skoða það sem við gerum í öðru ljósi. Það kann að vera að við séum öll afburðakennarar en við verðum allavega ekki verri, og sennilega betri, af því að kynna okkur stefnur og strauma. Ígrundun eigin starfs er öllum til heilla. Ég leyfi mér því að mæla með þessu námskeiði og vona að það verði áfram í boði fyrir kennara LHÍ.

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Þræðir - forsíða

Tölublað 7

TÖLUBLAÐ 7

Um höfunda