Tónlistardeild Listháskólans stendur nú fyrir námskeiðinu Tónlist og heilabilun, eða Music and Dementia. Þetta er sjötta árið sem þetta frumkvöðlaverkefni hefur verið starfrækt hér Íslandi og er það á vegum evrópska meistaranámsins NAIP (New Audiences and Innovative Practice) við Listaháskólann. Að þessu sinni fer verkefnið fram á hjúkrunarheimilinu Grund, þar sem sem átta heimilismenn Grundar og starfsfólk á heimilinu taka þátt. Stuðst er við verkefnið Music for Life sem hefur verið starfrækt í London í rúmlega tuttugu ár. Kjarni verkefnisins eru tónlistarsmiðjur þar sem allir þátttakendur mætast á jafningjagrundvelli í tónlistarsköpun. Tónlistin verður farvegur samskipta og þátttaka og virkni allra þátttakenda leiðir til sameiginlegs þroska hópsins sem eykur lífsgæði. Þar á ofan eflir þessi vinna samskipti heimilisfólks og starfsfólks langt út fyrir tónlistarstundirnar sjálfar.

Magnea Tómasdóttur söngkona, sem hefur sérhæft sig í tónlistariðkun með fólki með heilabilunarsjúkdóma er kennari námskeiðsins, en ásamt henni taka þátt sex nemar frá Listaháskólanum og tveir hljóðfæraleikarar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þau leiða hópinn í tónlistarspuna, en það hefur sýnt sig að tónlistarþátttaka léttir lund, eykur lífsgæði og færni til samskipta.
Þátttaka Sinfóníuhljómsveitarinnar í verkefninu gefur því enn meira gildi og tengir starf sveitarinnar sem og Listaháskólans beint inn í samfélagið og gerir áhugasömu fólki við fjölbreyttar aðstæður tækifæri til sköpunar og uppbyggilegra, þroskandi samskipta.