Sögur af flóttamönnum: Abraham, Edelstein, Urbancic og framlag þeirra til íslensks tónlistarlífs

Fyrirlesari: Árni Heimir Ingólfsson

Föstudaginn 18. mars heldur tónlistarfræðingurinn Árni Heimir Ingólfsson hádegisfyrirlestur í tónlistardeild. Þar mun hann fjalla um tónlistarmennina Róbert Abraham, Heinz Edelstein og Victor Urbancic og framlag þeirra til íslensks tónlistarlífs. Fyrirlesturinn fer fram í Dynjanda, sal tónlistardeildar, og hefst kl 12:45.

Öll velkomin!

Nánar um fyrirlestur

Meðal lykilmanna í íslensku tónlistarlífi um miðja 20. öld voru tveir landflótta gyðingar (Róbert Abraham og Heinz Edelstein) og einn til viðbótar sem var kvæntur gyðingakonu (Victor Urbancic). Þótt ýmislegt sé vitað um framlag þeirra til tónlistar á Íslandi er margt sem aðeins hefur komið í ljós á síðustu árum. Í fyrirlestrinum verður tæpt á helstu atriðum varðandi ævi þeirra en einnig fjallað um það hvernig saga íslenskrar tónlistar á 20. öld hefur verið sögð, hvernig vitundin um sögu þessara manna hefur áhrif á viðhorf og framtíðarsýn þegar kemur að flóttamönnum og listrænu starfi á Íslandi.

Um Árna Heimi

Árni Heimir Ingólfsson er tónlistarfræðingur sem hefur rannsakað íslenska tónlistarsögu og haldið fyrirlestra víða um heim, meðal annars í Bandaríkjunum, Japan, Bretlandi, Frakklandi og Sviss, auk þess að vera gestafræðimaður við Oxford- og Yale-háskóla. Hann hefur ritað fjórar bækur um tónlist og hafa tvær þeirra verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þá hefur hann tvívegis hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir hljóðritanir sínar á tónlist úr fornum íslenskum handritum.

 

2022_arniheimir_a3plakat.jpg