Rappresentatione di Anima, et di Corpo í flutningi Camerata og Kór LHÍ

 
Föstudaginn 19. Nóvember frumsýna nemendur tónlistardeildar verkið á Rappresentatione di Anima, et di Corpo eftir ítalska tónskáldið Emilio de´Cavalieri.  
 
„Verkið Rappresentatione di Anima, et di Corpo er merkilegt að svo mörgu leyti – það var frumflutt í Róm árið 1600 og þetta er talin fyrsta óratorían eða dramatíska verkið fyrir söngvara og hljómsveit. Sumir vilja jafnvel kalla það fyrstu óperuna sem samin hefur verið, þar sem notuð voru búningar og leiktjöld til að auka áhrif hjá áhorfendum.“ segir Hanna Dóra Sturludóttir fagstjóra söngbrautar og einn leiðbeinenda verkefnisins. „Umfjöllunarefnið er samtal sálarinnar og líkamans um hið jarðneska líf og það er merkilegt að skoða það, bæði í sögulegu og nútímalegu samhengi. Í verkinu leika Tíminn, Líkaminn, Sálin, Viskan, Heimurinn, Lostinn, Jarðneska lífið og Góðu ráðin helstu hlutverkin en einnig koma þar fyrir englar, blessaðar sálir og glataðar sálir.“ 
 
Spurð út í val á verkefni segir Hanna Dóra hún hafi sjálf kynnst Rappresentatione di Anima, et di Corpo á námsárunum í Berlin og hún viti ekki til þess að það hafi verið flutt áður á Íslandi. Það hafi því  orðið fyrir valinu og legið vel við þar sem það inniheldur mörg hlutverk sem sé auðvelt að skipta á milli söngvara ásamt því að flytjendur þurfa að tileinka sér stíl og reglur barrok-tónlistar. Um leið sé verkið aðgengilegt og fallegt áheyrnar. Kórinn  leikur einnig stórt hlutverk í flutningnum og nýtir de´Cavalieri hann til að styðja við söguna, í gegnum hann eru aðal atriði hennar dregin saman og skerpt á þeim boðskap sem sagan flytur okkur. 

 

p1035781.jpeg
 
Æfingar fyrir tónleikana hafa staðið yfir í allt haust og hafa samkvæmt Hönnu Dóru gengið vel þrátt fyrir samkomutakmarkanir og þá staðreynd að flytjendur telji á sjöunda tug. „Það er mikil skipulagning og vinna sem fer í að koma svona fjölmennu verkefni saman en vel þess virði þar sem það er ómetanleg reynsla fyrir nemendur að taka þátt og flytja verk á borð við þetta. Sigurður Halldórsson hefur haldið utan um verkefnið af mikilli snilld.“  
 
Sólveig Thoroddsen hörpuleikari og Sergio Leopold Blanco teorbuleikari leiða meðleik hljómsveitarinnar en samhliða því leiðbeina þau flytjendahópnum um stíl og flutningsaðferðir þess tímabils sem verkið rekur rætur sínar til. Aðrir leiðbeinendur sem koma að verkefninu auk Hönnu Dóru eru Katrín Gunnarsdóttir, kóreógraf og fagstjóri dansbrautar og Sigurður Halldórsson sem stjórnar flutningnum.  
 
Að lokum vill Hanna Dóra koma því á framfæri að frítt er inn á viðburðinn en vegna nýjustu samkomutakmarkana þurfi allir gestir að framvísa neikvæðu hraðprófi. 
 
Við hlökkum til að hlýða á flutning Camerata og kórs LHÍ á Rappresentatione di Anima, et di Corpo og óskum þeim góðs gengis. 
 
 
Hvað: Tónleikhúsflutningur á Rappresentatione di Anima, et di Corpo eftir Emilio de´Cavalieri.
Hver: Tónlistadeild Listaháskólans í samvinnu við Óperudaga
Hvar: Breiðholtskirkja
Hvenær: 19. og 20. nóvember 2021 kl. 19. - 21.
Aðgangur: Ókeypis aðgangur, ath að framvísa þarf neikvæðu hraðprófi.
 
 
p1035848.jpeg
 
p1035845.jpeg
 
p1035772.jpeg
 

Myndir af æfingu í Breiðholtskirkju mánudaginn 15. nóvember 2021.