Ungir einleikarar 2022
13.janúar í Eldborgarsal Hörpu

Samkeppni ungra einleikara fór fram þann 22.október síðast liðinn og er það í nítjánda sinn sem að keppnin er haldin. Ungir einleikarar er samstarfsverkefni LHÍ og Sinfóníuhljómsveitar Íslands en sigurvegarar keppninnar fá tækifæri til þess að flytja einleik á Eldborgarsviði Hörpu ásamt sinfóníuhljómsveitinni. Tónleikar einleikaranna og sinfóníuhljómsveitarinnar fara fram þann 13.janúar 2022. 

Breytt snið keppninnar 

Það má segja að viss þáttaskil hafi orðið í keppninni í síðasta ári en eftir endurskoðun á þátttökuskilyrðum var ákveðið að opna keppnina fyrir nemendum á öllum stigum háskólanáms og þá var aldurstakmark einnig afnumið. Þessar breytingar eru gerðar með þróun tónlistarnáms á háskólastigi til hliðsjónar og opna enn frekari möguleika allra sem það stunda. 

Í ár fór keppnin fram með breyttu sniði og skiptist nú í tvær umferðir. Í fyrri umferð voru umsækjendur metnir út frá innsendum upptökum af flutningi þeirra. Það gerir öllum íslenskum nemendum sem stunda nám í erlendum tónlistarháskólum kleift að taka þátt en breytingarnar eru ekki síður gerðar með umhverfissjónarmið í huga. Sérskipuð dómnefnd fékk það vandasama verkefni að meta hverjir kæmust áfram í seinni umferð sem fram fór í Hörpu þann 22.október. Ný dómnefnd var mynduð fyrir seinni umferð en þar komu keppendur fram í Norðurljósum og fluttu verk sín í heild sinni. 

 Sigurvegarar Ungra einleikara 2022
 

Þátttakendur í ár vory fjórtán talsins og þar af voru átta keppendur boðaðir í seinni umferð.  Í dómnefnd sátu Anna-Maria Helsing, hljómsveitastjóri, Árni Heimir Ingólfsson píanóleikari og listrænn ráðgjafi SÍ, Greta Salóme Stefánsdóttir, fiðluleikari, Joseph Ognibene, hornleikari og Hjördís Elín Lárusdóttir, söngkona.  Að lokinni seinni umferð stóðu fjórir þátttakendur uppi sem sigurvegarar.

 Birkir Örn Hafsteinsson, klarínett
Hanna Ágústa Olgeirsdóttir, söngur
Ingibjörg Ragnheiður Linnet, trompet
Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir, söngur

Við óskum einleikurunum fjórum innilega til hamingju með árangurinn og óskum þeim góðs gengis í undirbúningum. 
Fram að tónleikum fáum við að kynnast einleikurunum fjórum örlítið betur, fylgjumst með undirbúningi þeirra fyrir
stóru stundina í Eldborg og fáum frásögn af bakgrunni þeirra í tónlist. Tónleikarnir fara þann 13.janúar 2022 í Eldborgarsal Hörpu.  
Stjórn keppninnar hefur tekið tímasetningu tónleikanna til endurskoðunar og búast má við að frá og með 2023 munu tónleikarnir fara fram að vori.
Umfjöllun mun birtast hér á vefsíðu LHÍ sem og öðrum miðlum skólans. 

Á samfélagsmiðlum LHÍ má finna ýmsan fróðleik s.s. fréttaefni, upplýsingar um viðburði skólans og myndir úr skólalífinu. 

Facebooksíða tónlistardeildar
Facebooksíða LHÍ
Instagram LHÍ