Stafræn nálgun á textílmennt

Mat á möguleikum nýrrar tækni og þróun kennsluleiðbeininga í textílmennt fyrir grunnskóla
 

Viðfangsefni þessa verkefnis var að auka faglega hæfni mína í stafrænni nálgun á textíl í þeim tilgangi að gera kennsluleiðbeiningar fyrir textílmenntarkennara í grunnskólum, sem geta stutt við þróun starfrænna kennsluhátta í textílmennt.
 
Grunnskólar hafa síðustu árin staðið frammi fyrir vaxandi kröfum um nýsköpun og nám og kennslu í starfrænni tækni sem tengd er við nýjar áherslur 21. aldarinnar. Líkt og við á í flestum greinum atvinnulífsins er textíliðnaðurinn að breytast ört.
 
Stafrænar áherslur í hönnun og framleiðslutækni og ný viðhorf til þess hvernig má nýta nútíma tækni í textíl í bland við hefðbundnar aðferðir eru orðnar mjög áberandi. Kennsla í stafrænni tækni þarf því ekki síður að ná til textílmenntar en annarra námsgreina og þróun textílmenntarkennslu þarf að taka mið af þessum breyttu áherslum.
 
 
Hér á landi hefur verið hröð þróun í uppbyggingu skapandi rýma í skólum og hafa víða verið settar upp svokallaðar snillismiðjur, þar sem er hægt að nálgast ýmis konar stafrænan búnað sem væri kjörið að nýta í textílmenntarkennslu. Raunin virðist hins vegar vera sú að þessi úrræði eru lítið notuð í textílmennt.
 
Verkefnið er unnið í samstarfi við Mixtúru, sköpunar- og upplýsingatækniver skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur þar sem ég fékk aðstöðu til að þróa aðferðir í notkun starfrænnar tækni í textíl.
 
Við þróun verkefnisins studdist ég við aðferðir starfendarannsókna. Þannig vann ég markvisst að því að auka hæfni mína á sviði stafrænnar nálgunar með textíl og kanna möguleikana og bestu aðferðirnar við að nýta nýja og framsækna tækni í textílmenntarkennslu.

 

 

Eftir að hafa komist að niðurstöðu og dregið ályktanir af tilraunum mínum, kannað áhugasvið og stöðu stafrænnar nálgunar í óformlegum könnunum og samtölum við textílmenntarkennara í grunnskólum Reykjavíkur gat ég gert raunhæfar kennsluleiðbeiningar sem stutt geta við starfsþróun textílmenntarkennara.
 
Kennsluleiðbeiningarnar eru aðgengilegar á vefsíðunni stafræn nálgun á textílmennt þar sem einnig má finna önnur verkefni og upplýsingar.
 

 

img_20210328_123227_878.jpg
 

 

Alexía Rós Gylfadóttir
alexiarosg [at] gmail.com
www.alexiaros.com
Leiðbeinendur: Björgvin Ívar Guðbrandsson og Gunndís Ýr Finnbogadóttir
20 ECTS
2021