Listkennsludeild Listaháskóla Íslands og Borgarbókasafnið í Gerðubergi hafa gert með sér samkomulag um að allir útskriftarviðburðir deildarinnar veturinn 2021-22 fari fram í húsakynnum Borgarbókasafnsins í Gerðubergi. 

 
Viðburðir deildarinnar munu fara fram víðsvegar í Gerðubergi og verða opnir almenningi.
 
„Útskriftarviðburðir listkennsludeildar Listaháskóla Íslands eru af miklum gæðum gerðir og hafa oft breiða skírskotun og eru afar aðgengilegir. Það er því mikill fengur fyrir okkur í Borgarbókasafninu Gerðubergi að fá þá á okkar viðburðahlaðborð,“ segir Ilmur Dögg Gísladóttir, deildarstjóri í Borgarbókasafninu Gerðubergi. 
 
Opið rými allra 
 
Í Gerðubergi hefur verið starfrækt lífleg starfsemi frá árinu 1983. Í byrjun árs 2015 voru Menningarmiðstöðin Gerðuberg og Borgarbókasafn Reykjavíkur sameinuð undir einn hatt. Þar með breyttist heiti stofnunarinnar í Borgarbókasafnið | Menningarhús Gerðubergi. Í Gerðubergi er umfangsmikil starfsemi; bókasafn, fjölbreytt viðburða- og sýningahald, salaleiga, kaffihús og félagsstarf. Bókasafnið er afar bjart og rúmgott. Þar er frábær aðstaða fyrir alla aldurshópa og mjög gott úrval af bókum, tímaritum og öðrum safnkosti, bæði á íslensku og erlendum tungumálum. 
 
Borgarbókasafnið í Gerðubergi er staðsett í Gerðubergi 3-5, 111 Breiðholti. Hverfið er eitt fjölmennasta og fjölbreyttasta hverfi borgarinnar. Í umhverfi Gerðubergs má finna sundlaug, Fjölbrautarskólann í Breiðholti, Fab lab og Elliðaárdalinn.
 
Í nýrri stefnu Borgarbókasafnsins 2021-24 segir m.a. „Borgarbókasafnið er opið rými allra. Það rúmar því ekki rasisma, hatursorðræðu, áreitni eða ofbeldisfulla hegðun. Hér berum við virðingu hvert fyrir öðru. Með hlýju og fordómaleysi mætum við notendum á þeim stað sem þeir eru. Við leitumst við að greiða leiðir að upplýsingum og skapa vettvang sem tengir borgarbúa saman. Í starfi erum við meðvituð um jaðarsetningu ákveðinna hópa og leitum leiða til að jafna aðstöðumun hvað varðar aðgengi og tækifæri til þátttöku í lýðræðissamfélagi.“
 
Stöðugt samtal og samstarf
 
Í listkennsludeild Listaháskóla Íslands er saman kominn hópur fólks úr öllum listgreinum sem og fólk sem hefur lokið námi á almennum fræðasviðum en vill nota aðferðir lista í kennslu. Nemendur útskrifast með meistaragráðu og kennsluréttindi á öllum skólastigum.
 
Markmiðið er að bjóða nám þar sem nemendur vinni í þverfaglegu samtali að þróun listgreinakennslu og einnig kennslu með áherslu á aðferðir lista með sem víðtækustum samfélagslegum og hugmyndafræðilegum skírskotunum.
Í listkennsludeild er lögð áhersla á efla persónulega færni nemenda með markvissri þjálfun í að setja sér persónuleg og fagleg markmið sem reyna á sjálfstæði og úthald ásamt tjáningar- og miðlunarhæfni. Með stöðugu samtali og samstarfi á milli greina er opnað fyrir framþróun og nýja möguleika í kennslu listgreina og annarra kennslugreina. 
 
Útskriftarviðburður listkennsludeildar er hluti af útskriftarhátíð Listaháskóla Íslands. Meistaranemar og verðandi kennarar frá listkennsludeild LHÍ kynna lokaverkefni sín á útskriftarviðburði sem samanstendur af fjölbreyttum erindum og fjölskylduvænum smiðjum sem eru öllum opin.
 
„Það er mikill akkur fyrir listkennsludeild Listaháskóla Íslands að gera samkomulag við Borgarbókasafn Gerðubergi. Hugmyndafræði Borgarbókasafnsins og stefna fellur einnig vel að starfi og menningu listkennsludeildar svo hér er um að ræða vísi að gjöfulu og frjóu samstarfi. Við í listkennsludeild erum ákaflega glöð með að vera komin í hús og fá að taka þátt í því góða starfi sem fram fer í Gerðubergi og sér í lagi að tengjast nærumhverfi safnsins og íbúum í Breiðholti,“ segir Kristín Valsdóttir, forseti listkennsludeildar Listaháskóla Íslands.
 
 
20210825_131457.jpg
Ilmur Dögg Gísladóttir, deildarstjóri í Borgarbókasafninu Gerðubergi og Kristín Valsdóttir, forseti listkennsludeildar Listaháskóla Íslands.