Á fundi ríkisstjórnarninnar í dag kynntu forsvarsmenn aðgerðaáætlun  til eflingar skapandi greina. Eins og kemur fram í fréttatilkynningu frá mennta- og menningarálaráðuneytinu þá fer Listaháskólinn í nýtt húsnæði og hefur Tollhúsið við Tryggvagötu verið valið sem staðsetning, ritað hefur verið undir samning stjórnvalda og Listaháskólans um kvikmyndanám og stofnað verður rannsóknarsetur skapandi greina við Bifröst. 

„Þessi yfirlýsing varðandi húsnæðismálin er ótrúlega stór áfangi fyrir okkur og færir okkur svo miklu nær lokatakmarkinu sem er raunverulegt samfélag listgreinanna. Upphaf kvikmyndanáms á háskólastigi á sama tíma er einnig sannarlegt gleðiefni. Þetta hefur ekki gerst af sjálfu sér og bæði rektor og framkvæmdastjóri eiga miklar þakkir skildar fyrir alla þá vinnu sem liggur að baki.“ Segir Magnús Ragnarsson formaður stjórnar Listaháskólans um gleðitíðindi dagsins. 

 

Nýbygging/húsnæði: 

Listaháskóli Íslands fagnar því mjög að niðurstaða um framtíðarhúsnæði háskólans skuli vera í sjónmáli eftir fund ríkisstjórnarinnar í dag. Með uppbyggingu faglegs húsnæðis í samræmi við það sem best gerist í samanburðarskólum okkar erlendis verður Listaháskólanum gert kleift að skila til fullnustu þeim mikla slagkrafti sem í honum býr inn í íslenskt menningarlíf. 

 

„Dagurinn í dag er mjög mikilvægur fyrir skapandi greinar í landinu. Listaháskólinn er vitaskuld grunnurinn að þeim - sá grunnur sem stöðugt skýtur stoðum undir framtíðina, þannig að þær góðu fréttir sem skólinn fékk í dag um faglegt og nýtt húsnæði fyrir skólann eru stórkostlegar fyrir okkur og allt okkar bakland“ segir Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor Listaháskólans og bætir við „við gerum ráð fyrir að í framtíðarhúsnæði LHÍ eigi mikilvægasti kjarni skapandi greina á Íslandi aðsetur, að byggingin verði einskonar orkustöð listanna, sú sem knýr menninguna og hinar skapandi greinar áfram inn í framtíðina.“ 

 

Skapandi greinar er sú atvinnugrein sem vex hvað örast í flestum nágrannalöndum okkar. Sameining allrar starfsemi Listaháskólans á einum stað er sannarlega til þess fallin að byggja varanlegar stoðir undir þroska og viðgang skapandi greina hér á landi, styðja við listir og nýsköpun í samfélagi sem þarf að skapa sér ný sóknarfæri á allra næstu árum. 

 

Tollhúsið er hannað af Gísla Halldórssyni arkitekt og mun verða griðarstaður menntunar og rannsókna á fræðasviði lista, þvert á allar listgreinar. Með uppbyggingu í gamalli og sögufrægri byggingu við höfnina fær Listaháskólinn nýtt hlutverk í borgarsamfélaginu. Starfsemi háskólans hefur mikið aðdráttarafl, t.a.m. telja viðburðir á útskriftarhátíð í hundruðum og eru mjög vel sóttir. Starf skólans byggir að stórum hluta til á samspili við samfélag og almenning í þeim skapandi suðupotti sem listirnar einar geta skapað. Sem slík mun hún verða hreyfiafl fyrir íslenskt listalíf og menningu, auk þess að verða miðstöð listanna í alþjóðlegu samhengi háskólasamfélagsins. Þar hefur Listaháskólinn á undanförnum árum skapað sér eftirtektarverða sérstöðu sem þjóðarskóli með mikla breidd hvað varðar kennslu, rannsóknir og samfélagslegan slagkraft.  

 

II

Kvikmyndanám: 

 

Kvikmyndalist er eina listgreinin sem aldrei hefur verið kennd á háskólastigi hér á landi og því eru samningar um að færa hana inn í Listaháskólann mikið gleðiefni fyrir listgreinina og kvikmyndagerðarfólk í landinu. Með kennslu á háskólastigi gefast ótal tækifæri til alþjóðlegs samstarfs, auk þess sem háskólanám í þverfaglegum skóla mun gefa kvikmyndagerð hér á landi nýja vídd sem sannarlega er þess virði að nýta sem best. 

 

Aðspurð segir Fríða að „það er mikill áfangi að skrifa undir samning um stofnun kvikmyndanáms á háskólastigi, því það skapar þeirri listgrein sömu umgjörð og öðrum listgreinum í landinu. Að auki skapar það Listaháskólanum mikla sérstöðu í alþjóðlegu samhengi að vera með allar listgreinar undir einum hatti með öllum þeim tækifærum sem í slíkri samtali felst.  

 

Uppbygging á náminu er á lokastigum og það verður áhugavert að taka fyrstu skrefin við lokahnykk undirbúningsins á næsta skólaári, þannig að hægt sé að taka inn nemendur haustið 2022 í öllum helstu greinum kvikmyndagerðar. 

 

III

Rannsóknarmiðstöð skapandi greina: 

 

Rannsóknir á hagrænum áhrifum skapandi greina hafa ekki verið markvissar hér á landi fram til þessa, en mikilvægt er að halda utan um hagræn áhrif þessarar mikilvægu atvinnugreinar, sem skipa mun stóran sess í framtíðinni. Sú samstaða sem miðstöðvar allra listgreina,  Háskólinn á Bifröst og Listaháskólinn sýna með því að sameinast um slíka miðstöð er til marks um mikilvægi þess að halda til haga áhrifamætti skapandi greina á samfélag og menningu. 

 

Við hlökkum til samstarfsins og óskum Háskólanum á Bifröst velgengni og velfarnaðar í verkefninu sem framundan er.