Styrkir úr sjóði Halldórs Hansen voru veittir við hátíðlega athöfn í Salnum í Kópavogi þann 18.júní 2021.
 

33lhi_hansen21.jpeg

 

Föstudaginn 18.júní hlutu þrír ungir tónlistarnemar styrk úr sjóði Halldórs Hansen. Halldór Hansen barnalæknir lét eftir sig mikið tónlistarsafn með um 10.000 hljómplötum, sem hann ánafnaði Listaháskólanum í erfðaskrá ásamt öðrum eigum sínum sem skyldu renna í sérstakan sjóð í hans nafni. Meginmarkmið sjóðsins er að styrkja uppbyggingu og styðja við tónlistarsafn Listaháskóla Íslands og veita árlega styrk til framúrskarandi tónlistarnema. Stjórn sjóðsins mynda þau Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands og formaður, Árni Tómas Ragnarsson, læknir og ritari og Tryggvi M Baldvinsson, deildarforseti tónlistardeildar Listaháskóla Íslands og meðstjórnandi.

Styrkhafar í ár voru þau Íris Björk Gunnarsdóttir, Áslákur Ingvarsson og Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir. Öll voru þau að ljúka bakkalárnámi í söng frá tónlistardeild Listaháskóla Íslands og leggja leið sína út fyrir landsteinana í frekara nám í haust. Tryggvi M. Baldvinsson, forseti tónlistardeildar, fór fögrum orðum um þessa afreksnemendur við athöfnina og veitti þeim viðurkenningarskjöl og litríka blómvendi ásamt Fríðu Björk Ingvarsdóttur, rektor og formanns sjóðsins. 

screenshot_2021-06-21_at_11.52.53.png

 

Að þessu sinni var einnig veitt sérstök heiðursviðurkenning fyrir framlag á sviði tónlistar en hana hlaut píanóleikarinn Víkingur Heiðar Ólafsson. Víkingur hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir framlag sitt til tónlistar og þykir einn færasti píanóleikari heims. Velgengni Víkings hefur eflaust verið mikil hvatning fyrir unga flytjendur enda einstök fyrirmynd. Víkingur var staddur í München á tónlistardegi Halldórs en Fríða Björk Ingvarsdóttir tilkynnti heiðursviðurkenningarhafann sem sendi styrkhöfum rafræna kveðju og hvatningarorð fyrir komandi tíð. Kveðjuna má nálgast hér að neðan.

 

 

 

Við óskum viðurkenningarhöfum innilega til hamingju með árangurinn og velfarnaðar í náinni framtíð.
Við erum afar stolt af þessum fulltrúum tónlistardeildar - framtíðin er ykkar!
----

Vefsvæði Styktarsjóðs Halldórs Hansen
Styrkhafar frá upphafi
Tónlistarsafn Halldórs Hansen
Útvarpsþættir um Halldór Hansen