Ungir einleikarar 2021 // Íris Björk Gunnarsdóttir, sópransöngkona 

Líkt og fram kom á fréttaveitu LHÍ fyrir skömmu hafa sigurvegarar Ungra einleikara 2021 verið kynntir til leiks í stuttum viðtalsfréttum hér á vef skólans. Það voru þau Marta Kristín Friðriksdóttir, Íris Björk Gunnarsdóttir, Jón Arnar Einarsson og Johanna Brynja Ruminy sem þóttu hlutskörpust að þessu sinni en þau koma fram ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborgarsal Hörpu næstkomandi fimmtudaginn, 20.maí. Undirbúningur tónleikanna er í fullum gangi og nú kynnumst við síðasta einleikara keppninnar 2021 en það er engin önnur en sóprasöngkonan Íris Björk Gunnarsdóttir.

ibg_1.jpeg
 
Ferillinn hófst í Svíþjóð þegar að Íris var aðeins 5 ára að aldri

Íris er nú að ljúka bakkalárnámi við tónlistardeild Listaháskóla Íslands en tónlistarferillinn hófst fyrir þónokkrum árum. Hún segir okkur stuttlega frá upphafinu og ferlinum til þessa. 

Ég hóf tónlistarnám mitt 5 ára gömul í Svíþjóð. Eldri kona í hverfinu sem ég bjó í tók að sér að kenna mér á blokkflautu þar sem foreldrar mínir töldu að það væri mikilvægt að byrja snemma að læra en tónlistarskólar í Svíþjóð tóku ekki við nemendum fyrr en um 10 ára aldurinn. Ég skipti blokkflautunni út fyrir þverflautu þegar ég var 7 ára og spilaði á hana þar til ég hóf söngnám um tvítugt. Ég flutti til Íslands 14 ára og fór í Tónlistarskóla Kópavogs þar sem Pamela De Sensi kenndi mér. Um tvítugt sá Pamela hvað ég hafði mikinn áhuga á söng og sendi mig í tíma til Valgerðar Guðnadóttur sem kenndi mér næstu 3 árin og vakti áhuga minn á óperusöng. Þegar ég sá uppfærslu Íslensku Óperunnar á óperunni Ragnheiði eftir Gunnar Þórðarson þá var eins og kviknaði á ljósaperu og ég vissi þar og þá hvað ég ætlaði að verða þegar ég verð stór. Síðan þá hef ég í raun verið syngjandi.

Ég var í Söngskóla Sigurðar Demetz í fjögur ár, frá 21-25 ára, fyrstu þrjú hjá Völu en síðasta árið hjá Diddú. Á meðan ég var þar tók ég einnig þátt í óperusýningum skólans og fyrsta heila hlutverkið sem ég lærði var Lauretta í Gianni Schicchi eftir Giacomo Puccini sem við sýndum m.a. í Tjarnarbíó. Þar kviknaði ástin á Puccini og ítölskum óperum sem skrifaðar voru í kringum aldarmótin 1900. Ég hef einnig verið í Kór Langholtskirkju og Graduale Nobili undanfarin 5 ár og nýt þess vel að syngja með vinum mínum þar.

Í Janúar 2018 bar ég sigur úr býtum í Vox Domini, söngkeppni á vegum félags íslenskra söngkennara, og hlaut titilinn “Rödd ársins 2018.” Meðal verðlauna var að halda tónleika í Kaldalóni í Hörpu og það gerði ég í nóvember 2018. Í nóvember 2018 tók ég einnig þátt í uppfærslu Óperudaga í Reykjavík á Trouble in Tahiti eftir Leonard Bernstein. Þar lék ég hlutverkið “Girl” sem syngur í jazzstíl í gegnum alla óperuna. Við sýndum í Tjarnarbíó þrisvar við góðar undirtektir. Þetta var mjög lærdómsríkt og skemmtilegt ferli. Skólaárið 2019-20 var ég í skiptinámi við Óperuháskólann í Stokkhólmi. Aðalkennarinn minn þar var Ulrika Tenstam sem ég held enn sambandi við og vonandi get ég verið eitthvað aftur í Stokkhólmi og lært meira hjá henni á næstu árum. Námið í Stokkhólmi snýst eingöngu um óperur og í raun það eina sem við gerðum var að fara í söngtíma, coach-tíma með meðleikara og vinna síðan senur úr óperum og sýna þær. Meðal þess sem við gerðum var ítalskar óperusenur 300m undir jörðu í fyrsta kjarnorkutilraunaveri Svía, fyrsta þátt úr Falstaff eftir Verdi með sinfóníuhljómsveit konunglega tónlistarháskólans, barnasýning í gullsal konunglegu óperunnar, barrokkaríur í Drottningholm-leikhúsinu (Drottningholm er kastali konungsins og þar sem konungsfjölskyldan býr mest allt árið) og toppurinn var þegar ég tók þátt í nýárstónleikum konunglegu óperunnar með konunglegu hljómsveit óperunnar í stóra salnum á gamlárskvöld. Ég var einnig valin af kennurum skólans sem framúrskarandi nemandi og hlaut veglegan styrk frá sænskri stofnun sem styrkir efnilega unga tónlistarnemendur til áframhaldandi náms.

Á dögunum flutti ég sópranaríurnar í Jóhannesarpassíunni sem Kór Langholtsirkju flutti ásamt einsöngvurum og hljómsveit í Langholtskirkju. Núna er ég í námi við Listaháskólann og mun útskrifast með bakkalárgráðu í söng í sumar. Aðalkennarar mínir í LHÍ hafa verið: Hanna Dóra Sturludóttir, Kristinn Sigmundsson, Ólöf Kolbrún Harðardóttir, Stuart Skelton og Ólöf Kolbrún Harðardóttir.

Íris Björk hefur haft í nógu að snúast undanfarna mánuði þrátt fyrir óvenjulegt árferði. Hún hefur einstaka útgeislun og hefur náð sérlega langt í sínu fagi þrátt fyrir ungan aldur enda einstaklega hæfileikarík söngkona. Við spurðum hana nokkrar spurning varðandi keppnina, ferlið, undirbúninginn og framtíðaráhorf. 

Hvaða verk munt þú flytja og hvað varð til þess að þau urðu fyrir valinu?

Ég mun flytja þrjár aríur úr óperum sem voru allar skrifaðar á 41 árs tímabili, eða 1875-1926. Þetta er klárlega uppáhalds tímabilið mitt í óperusögunni og nær allar mínar uppáhalds óperur eru skrifaðar á þessum tíma. Stridono lassú, aría Neddu úr Pagliacci eftir Ruggero Leoncavallo, Je dis que rien ne m’épouvante, aría Michaelu úr Carmen eftir Georges Bizet og Tu che di gel sei cinta, aría Liù úr Turandot eftir Giacomo Puccini.
Ég valdi þessar aríur einfaldlega vegna þess að mig dreymir um að syngja þær með hljómveit. Þetta eru algjör draumahlutverk sem ég vonast til að fá að syngja í heild sinni einhvern tíman í framtíðinni.
Michaela, Liù og Nedda eru allar ungar konur sem eiga það sameiginlegt að elska mann sem þær fá ekki að vera með. Í aríum þeirra heyri ég mikla þrá og ástríðu, en allar ástarsögurnar enda illa. Það er eitthvað við sögur þeirra sem heilla mig og mér finnst þær allar þrjár dásamlegar. Ég nýt þess að setja mig í fótspor þeirra og finna fyrir ástinni, gleðinni og sorginni sem býr innra með þeim.

Hvað varð til þess að þú tókst þátt í UE og hvernig hefur ferlið verið?

Alveg síðan ég byrjaði að læra söng hef ég haft það að markmiði að taka þátt í keppninni og lagt mig fram við að undirbúa mig vel svo ég ætti möguleika á að vera valin ein af ungum einleikurum.
Mig dreymdi einfaldlega um að syngja uppáhalds aríurnar mínar með Sinfóníuhljómsveit Íslands og er mjög þakklát fyrir þetta dásamlega tækifæri. Ég undirbjó mig vel fyrir prufurnar í haust og hef haldið áfram nú í vor að æfa aríurnar, kynnast karakterunum betur og kynna mér hvernig hljómsveitarskorið fyrir hverja aríu er. Ég hlakka til að læra meira hvernig það er að syngja þessar aríur með hljómsveitinni enda verður það sennilega allt öðruvísi en að syngja með píanómeðleik.

Hvað telur þú að þessi reynsla geti haft í för með sér?

Ég er alveg viss um það að geta tekið fram sigur í keppni eins og þessari á ferilskrá hafi áhrif á inntöku í mastersnámin sem ég er að sækja um. Það hlýtur að teljast gott að hafa þá reynslu í farteskinu að hafa sungið aríur með Sinfóníuhljómsveit áður en ég hef áframhaldandi nám í haust. Vonandi fylgja fleiri verkefni í kjölfarið og ég hlakka til að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér.

Hvað er framundan?

Ég var að fá inngöngu í það meistaranám sem að mig dreymdi um og í haust flyt ég til Noregs og hef tveggja ára mastersnám í óperusöng við Konunglega listaháskólann í Ósló - Operahøgskolen. 

Þetta eru svo sannarlega ekki endalokin hjá Írisi Björk sem undirbýr flutninga til Noregs í haust. Við óskum henni ásamt einleikurunum þremur innilega til hamingju með árangurinn og góðs gengis á fimmtudaginn.