Minningarbrot úr leikskóla

Viðhorf barna til uppeldisfræðilegra skráninga úr leikskólanámi þeirra

 
 
Markmið rannsóknarinnar er að rýna í mat og hugmyndir barna um gildi þeirra uppeldis-fræðilegu skráninga sem settar voru í námsbækur þeirra og fylgdu þeim frá upphafi skólagöngu í leikskólanum Sæborg til útskriftar þaðan.
 
Uppeldisfræðilegar skráningar má rekja til ítölsku borgarinnar Reggio Emilia en hlutverk þeirra er að gera nám barna sýnilegt. Margar af skráningunum í námsbókum barnanna fjalla um þau í skapandi ferli og listrænum verkefnum. Leitast er eftir að fá upplýsingar um hvaða gildi þessar skráningar hafa fyrir börnin, hvað þau telja mikilvægt að sé skráð og hvernig megi bæta skráningar í námsbókum út frá viðhorfi þeirra.
 
Rannsóknin er eigindleg og byggist á hálfopnum viðtölum við börn á aldrinum sjö til sautján ára. Skráningar í námsbók þeirri sem fylgdi þeim á leikskólaárunum í Sæborg voru útgangspunktur viðtalanna.
 
Fimm þemu komu í ljós í viðtölunum sem kallast minningar, sjálfsmat, orðgeymd, myndræn túlkun og hugsun um hugsanir. 
 
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna á afgerandi hátt að skráningar í námsbókum barnanna skiptu þau máli. Þau töldu mikilvægt að eiga minningar frá leikskólagöngu sinni og voru hrifnust af skráningum sem sögðu frá orðum þeirra, leikjum og skapandi verkefnum.
 
Hugmyndir þeirra að umbótum voru meðal annars að hafa fleiri myndir af vinum í leik, myndir af rými leikskólans, framlag þeirra í þema-verkefnum og að fjölga skráningum úr skapandi starfi.
 
 
anna_greta_-_lokaverkefni.jpg
 

 

Anna Gréta Guðmundsdóttir
annagretag [at] gmail.com
Leiðbeinandi: Dr. Guðrún Alda Harðardóttir
30 ECTS
2021