„Það væri klikkað að fara í LHÍ“

 

Guðmundur Arnar Sigurðsson er meistaranemi í listkennsludeild. Hann er lífsglaður, ungur maður sem er að læra almenna kennslufræði, með áherslu á aðferðir lista. 

 

Stakk sköpunargleðinni ofan í skúffu 

 
„Ég er alinn upp í Fossvogi og hef haft mjög gaman af íþróttum og þá helst hlaupum og fótbolta. Ég hef þó alla tíð verið listhneigður eins og sjá má á listaverkum sem ég gerði í barnaskóla og myndböndum sem ég gerði með upptökuvél pabba. En þegar komið var fram á unglingsaldurinn fór feimni að aftra mér og ég þorði ekki að vera skapandi að neinu ráði.“
 
Eftir að hafa lokið námi við Verzlunarskóla Íslands ákvað hann að prófa eitthvað nýtt og fór í spænskuskóla á Spáni. Guðmundur segir það hafa verið hollt fyrir sig að kynnast öðrum menningarheimi og læra nýtt tungumál. 
 
„Mér var tekið opnum örmum af fjölskyldu sem hafði engan áhuga á að tala ensku við mig – sem reyndist mikil blessun. Ég lærði að treysta á sjálfan mig í nýjum aðstæðum og sá að mér var treystandi. Mér gekk vel að læra spænsku og eignaðist einn mjög góðan vin sem heitir Ángel. Hann gaf mér vinaband þegar við kvöddumst.“  
 
Þegar heim var komið fann Guðmundur fyrir ákveðinni pressu um að fara í háskóla og hóf þá sína háskólagöngu.
 

Hlustaði á sína innri rödd 

 
„Eftir tvær stuttar göngur í sagnfræði og ferðamálafræði í Háskóla Íslands ákvað ég að skoða hug minn og hjarta og finna út hvað ég vildi gera. Ég fór að hlusta á mína innri rödd. Hún hvíslaði að mér að ég ætti að tjá mig á sviði og gefa af mér til fólks sem á um sárt að binda,“ segir Guðmundur sem tók í kjölfarið að sér að vera sögumaður í Heimilislausa leikhúsinu. 
 
jolasyning_hl.jpg
Jólasýning Heimilislausa leikhússins

 

„Í því verkefni kom fólk fram sem glímdi við andlega erfiðleika, var að leita hælis hérlendis eða bjó á götunni. Rúnar Guðbrandsson og Ilmur Kristjánsdóttir leiddu þetta verkefni af fagmennsku og úr varð flott sýning á Menningarnótt í Herkastalanum.“  
 
 
heimilislausa_leikhusid.jpg
Heimilislausa leikhúsið

 

Síðustu ár hefur Guðmundur sótt spunaleiklistarnámskeið og tekið þátt í viðburðum á vegum Improv Ísland. 
 
„Þar að auki hef ég tekið þátt í sýningu hjá Stúdentaleikhúsinu þar sem ég lék spænskumælandi ungling sem hafði verið skiptinemi í Argentínu. Það var verulega gaman að taka þátt í þeim fjölbreyttu verkefnum sem tilheyra leikhúsinu, á sviðinu sem og á bakvið tjöldin.“  
 
 
studentaleikhusid.jpg
Stúdentaleikhúsið

 

spuni.jpg
Á sviði í spuna

 

Meistaraneminn hefur í gegnum tíðina unnið ýmiskonar umönnunarstörf og fundið mikinn tilgang í þeim.
 
„Ég hef unnið á frístundaheimili, leikskóla, hjúkrunarheimili, við liðveislu og fleira. Ég hef gaman af að vinna með fólki og láta gott af mér leiða. Árið 2017 fann ég að ég var tilbúinn að fara í háskólanám, 27 ára gamall. Ég skellti mér í heimspeki og í náminu hefur mér gefist tækifæri til að pæla í heiminum út frá ólíkum sjónarhornum.“
 

Hvað ef? 

 
Guðmundur valdi ritlist sem aukagrein og skrifaði ljóð og örsögur sem honum fannst mjög gaman. 
 
„Guðrún Eva Mínervudóttir kom í einn ritlistartímann og sagði mér að heimspekin spyrji: „Hvað er?“ en skáldskapurinn spyrji: „Hvað ef?“. Mér finnst kennaranámið í LHÍ góður staður til að reyna svara báðum þessum spurningum.“  
 
Árið 2017 teiknaði Guðmundur mynd af sjálfum sér að segja að „það væri klikkað að fara í LHÍ“, meint í jákvæðri merkingu. 
 
„Hingað er ég loksins kominn. Valið stóð á milli þess að fara í kennaranám í HÍ, sem gæfi mér framhaldsskólakennsluréttindi í heimspeki, og að fara í kennaranámið í LHÍ, sem veitir mér almenn kennsluréttindu fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. 
 
Ég valdi LHÍ vegna þess að ég hafði áhuga á að pæla í skapandi leiðum í námi og sameina þannig áhuga minn á listum og heimspeki. Það skipti mig líka máli að hafa verið boðaður í viðtal hjá LHÍ og hitta jákvæðu þremenningana: Ólöfu Hugrúnu, Kristínu Vals og Ingimar Waage,“ sem eru hluti af fastráðnu starfsfólki listkennsludeildar.
  

Tilraunastofa listafólks

 
Guðmundur er ánægður í náminu og tiltekur meðal annars þá ástæðu að í náminu fær hann talsvert frjálsræði. 
 
„Kennararnir veita okkur nauðsynlega leiðsögn og segja frá skapandi leiðum í kennslu. Gunndís kennari talar til dæmis fyrir því að kenna í göngutúrum. Ég er á leið til hennar í gönguviðtal í næstu viku út af vettvangsnáminu sem ég var að klára. En kennararnir hvetja okkur líka til þess að hugsa sjálf og að vinna saman í teymum að þeim hugmyndum sem við höfum áhuga á,“ segir hann og víkur sögunni að húsakostum deildarinnar.
 
„Húsnæðið á Laugarnesi var upphaflega hugsað sem sláturhús og fyrst þegar ég kom þangað inn þá var það skrítin upplifun, allt öðruvísi en að mæta í HÍ. En þó það sé ekki búið að sparsla í öll göt á veggjum eða stroka út tússteikningar af borðum þá er samt mjög fínt að vera þarna. Húsnæðið er einskonar tilraunastofa listafólks.“  
 

Með stjörnur í augunum 

 
Undanfarin misseri hefur Guðmundur, ásamt öðrum nemendum reyndar lítið verið í húsi.
 
„Meirihluti kennslunnar hefur farið fram á Veraldarvefnum vegna Covid-19 faraldursins. Þegar losnað hefur um fjöldatakmarkanir þá hefur verið gaman að sjá samnemendurna sem maður hefur séð á skjánum. 
 
Einn samnemandi nefndi að það væri eins og að sjá kvikmyndastjörnur þegar við komum saman í staðtíma. Allir hafa staðið saman og gert sitt besta í óvanalegum aðstæðum. Sem betur fer hef ég getað sótt námskeið sem krefjast staðkennslu eins og söng- og leiklistarnámskeið. Ég steig til dæmis vel út fyrir þægindarammann þegar ég lærði að syngja af krafti hjá Björk Jónsdóttur. Það var mikið fjör!“ 
 

Sumar á safni

 
Guðmundur er að ljúka fyrra ári af tveimur í meistaranáminu í listkennsludeild en í sumar kemur hann til með að vinna að skemmtilegu verkefni.
 
„Síðastliðið haust vann ég með Jóhönnu Bergmann, safnkennara á Þjóðminjasafni Íslands, í teymisvinnu og útkoman var skemmtilegt myndband um Þrymskviðu úr norrænni goðafræði. Í því lék ég senur og klippti myndbandið saman. Henni leist vel á mitt framtak þar, sem og í vettvangsnáminu, og bauð mér að vera með í umsókn hjá Nýsköpunarsjóði um að útbúa fræðslupakka á netinu fyrir kennara sem ætla að koma með nemendur á safnið. Ég vildi endilega vera með í þessu verkefni“ útskýrir Guðmundur en teymið fékk þær gleðifregnir fyrir skömmu að umsóknin hafi verið samþykkt og verkefnið fengið styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. 
 
„Það stefnir í skapandi og skemmtilegt sumarstarf hjá okkur á Þjóðminjasafni Íslands!“