Formáli 

Hér vörpum við Þráðum okkar í 6. sinn út á alnetið full af stolti og þakklæti að það er þó eitthvað sem pestin nær ekki að rýra. Hvað sem á dynur þá syndir hugsunin um tónlist og umhverfi hennar áfram í heiminum og það kemur æ betur í ljós hversu dýrmætt það er að geta fangað hana og birt á einum stað eins og hér.  

Smám saman hefur sköpulag vefritsins mótast af sjálfu sér og sérhver ný grein eykur nú jafnan við tiltekinn þráð sem fyrri árgangar hófu. Þannig erum við farin að kannast við nokkra meginþræði: Vitnisburðir úr sköpunarstarfinu, starf tónlistarmannsins, tónlistarkennsla, svipmyndir tónskálda eða verka, hugleiðingar um eðli og gildi tónlistar svo nokkrir séu nefndir. En vonandi fjölgar þeim áfram, enda er það engin sérstök ósk ritnefndar að vettvangurinn verði fyrirsjáanlegur. 

Sem fyrr segir stoppar pestin ekki ritið, það státar sig þvert á móti af myndarlegri grein Þorbjargar Daphne Hall og Ragnheiðar Ingunnar Jóhannsdóttur um áhrif hennar. Þau áhrif eru auðvitað merkjanleg jafnt í ytra sem innra lífi tónlistarmannsins en í grein Tryggva Baldvinssonar er sjónum beint að þeim kunnuglega skugga í því innra lífi sem kvíðinn er.  

Það er hins vegar allsendis kvíðalaust sem aðrar greinar þessa árgangs leysa upp það sem eitt sinn voru álitin eðlileg landamörk tónlistar. Hefur hún ekki vökvakennda veggi eins og önnur fög sem Einar Torfi Einarsson ræðir í grein sinni? Það virðist blasa við af nálgun Péturs Eggertssonar í grein hans þar sem hugtakið tónlistun ber á góma.  

Verkefni Þórhalls Magnússonar Intelligent Instruments upphefur þann þverfagleika sem að hans viti hefur alla tíð verið tónlistinni eiginlegur. Hér kynnir hann verkefnið og æfir sig í að fjalla um það á íslensku, enda verður varnarþing þessa stóra rannsóknarverkefnis á Íslandi næstu fimm árin. 

Þráinn Hjálmarsson lýsir fyrir okkur viðfangsefni Davíðs Brynjars Franzsonar sem verður ekki fangað með afgirtum skilgreiningum á tónlist. Verk Guðmundar Steins Gunnarssonar hafa áður verið rædd í Þráðum en nú fær hann sjálfur að leiða okkur um sköpunarheim sinn og benda á margt umhugsunarefnið sem þar verður á vegi okkar.  

Tvær síðastnefndu greinarnar nýta sér þann kost vefritsins að geta birt myndskeið og þar erum við auðvitað farin að þenja mörk þess hvað er grein. Hér opnast rangalar út úr lesna textanum og þær upplýsingar sem greinin flytur auka við sig hljóði og mynd, margfaldast við það og teygja sig í allar áttir. Já, veggir vefritsins eru líka vökvakenndir! 

Við þökkum höfundunum hjartanlega fyrir framlagið og vonum að ritið verði listamönnum, fræðimönnum, nemum, hollnemum, kennurum og öðrum ánægjulegur lestur og hvatnig til að senda okkur efni til birtingar. 

Svo þakka ég nefndarnautum mínum Þorbjörgu Daphne Hall og Einari Torfa Einarssyni fyrir samstarfið. 

f.h. ritnefndar 

Atli Ingólfsson 

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Þræðir - forsíða
Þræðir - tölublað 6

Tölublað 6

Um höfunda