Áhrif COVID-19 á tónlistarlíf á Íslandi: Samkomubann og streymistónleikar

Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir og Þorbjörg Daphne Hall

 

Inngangur

Á blaðamannafundi þann 13. mars 2020 tilkynntu stjórnvöld að samkomutakmarkanir þar sem í mesta lagi 100 manns mættu koma saman tækju gildi 16. mars og ættu að gilda í fjórar vikur. Viðburðir þar sem fleiri en 100 manns koma saman voru þar með ekki leyfðir og á smærri viðburðum varð að viðhalda tveggja metra fjarlægðarmörkum milli fólks. Ákvörðunin var tekin í kjölfar þess að yfir 100 COVID-19 smit höfðu greinst á landinu og neyðarstigi almannavarna hafði verið lýst yfir. Þann 23. mars voru fjöldatakmarkanir hertar og hámarksfjöldi lækkaður úr 100 manns niður í 20 manns, en takmarkanir héldust með þeim hætti til 4. maí þegar hámarksfjöldi var rýmkaður og 50 manns máttu koma saman ef tveggja metra fjarlægðarmörk voru virt. Þann 25. maí tóku svo frekari tilslakanir gildi; þá máttu 200 manns koma saman, hvatt var til þess að hafa tveggja metra bil milli fólks þótt það væri ekki lengur skylda og áhersla lögð á að vernda viðkvæma hópa og bjóða upp á þann möguleika að viðhalda tveggja metra fjarlægðarreglu fyrir þá sem þess óskuðu. Hámarksfjöldi var svo hækkaður í 500 manns þann 15. júní og hélst þannig fram til 31. júlí þegar önnur bylgja veirunnar var orðin að staðreynd og mörkin voru lækkuð í 100 manns á nýjan leik.[1]

Samkomutakmarkanir höfðu gífurleg áhrif á landsmenn; framhaldsskólum og háskólum var lokað, starfsmönnum stórra vinnustaða gert að vinna heima, atvinnuleysi jókst og ferðamannaiðnaðurinn lá niðri. Sviðslistafólk og menningarstofnanir urðu að aflýsa eða fresta fjölda viðburða og hátíða um land allt auk þess sem ýmis veisluhöld; árshátíðir, brúðkaup og dansleikir sem tónlistarmenn áttu að koma fram á féllu niður. Þar sem tilkynnt var um fyrstu samkomutakmarkanir með stuttum fyrirvara urðu landsmenn að bregðast hratt við og ástandið næstu mánuði einkenndist af mikilli óvissu þar sem almannavarnir mátu stöðuna reglulega og gátu aðeins tilkynnt um takmarkanir til skamms tíma í einu. Margar menningarstofnanir brugðust við með því að bjóða upp á sjónvarps- og netútsendingar, landsmönnum að kostnaðarlausu, og streymistónleikar voru haldnir nær daglega hér á landi þegar fjöldatakmarkanir voru hvað mestar. Í fjölmiðlum lýstu stjórnmálamenn og „þríeykið“ svokallaða því hvað menning, og ekki síst tónlist, hefði haft jákvæð áhrif á líðan landsmanna á þessum erfiðu tímum og hafa þau,[2] ásamt Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands,[3] þakkað tónlistarfólki fyrir framlag þeirra.[4] Til varð nýr texti við lag eftir José Feliciano sem hljómsveitin BG og Ingibjörg gerði frægt hérlendis fyrir hálfri öld sem Góða ferð. Í nýja textanum eru landsmenn hvattir til að „ferðast innanhúss“ um páskana, og komu ýmsir landsþekktir söngvarar, auk „þríeykisins“ fyrrnefnda, fram í myndbandinu sem fór eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla.[5] Af þessu sést að tónlist gegndi veigamiklu hlutverki á tímum veirunnar sem sameiningarafl, sóttvarnartól og afþreying.

Hér á eftir verður gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknar[6] sem unnin var sumarið 2020 og kannaði hvaða áhrif þessar fyrrgreindu samkomutakmarkanir höfðu á tónlistarstofnanir, tónlistarhús og tónlistarfólk auk þess að greina þau tækifæri og takmarkanir sem streymistónleikar hafa. Þessi rannsókn er mikilvæg í ljósi þeirrar stöðu sem tónlistariðnaðurinn býr við núna þar sem tónleikahald er mjög mikilvægur hlekkur í tekjuöflun. Á undanförnum árum hefur plötu- og geisladiskasala lotið í lægra haldi fyrir streymisveitum.[7] Spilun tónlistar á streymisveitum gefur tónlistarfólki almennt lítið í aðra hönd og því reiðir það sig gjarnan á tónleikahald og tónlistarflutning við ýmis tilefni. Talsverður hluti miðasölutekna rennur einnig til tónleikastaðarins og jafnvel umboðsmanna eða bókara.[8] Tónleikahald hefur því orðið að lykilþætti í tekjum þeirra sem starfa innan tónlistariðnaðarins. Tónlistarfólk, og þá um leið tónleikastaðir og umboðsmenn, verða óumflýjanlega af þessum tekjum þegar samkomubann skekur heimsbyggðina. Ljóst er að streymistónleikar eru spennandi kostur sem getur gert aðgengi að tónleikum auðveldara, kynningarmöguleika fyrir tónlistarfólk meiri og gert fólki, sem ekki hefur ráð eða kost á að sækja tónleika, kleift að njóta þeirra í beinni útsendingu. Í þessari grein verður lögð sérstök áhersla á streymistónleikana, hvernig bæði tónlistarfólk og áhorfendur upplifðu þá og hvort og þá hvernig framtíð þeirra gæti orðið þegar samkomubanni verður aflétt. Hér að neðan verða fyrst aðferðir rannsóknarinnar raktar stuttlega áður en niðurstöður eru ræddar.

 

Aðferðafræði

Eins og áður kom fram fór rannsóknin fram sumarið 2020 og einblíndi á fyrstu bylgju faraldursins sem stóð frá mars og fram í byrjun júní. Skráðir voru helstu streymistónleikar sem fram fóru á tímabilinu og tvær spurningakannanir voru útbúnar, annars vegar fyrir almenning („áheyrendur“) og hins vegar fyrir tónlistarfólk, sem deilt var á Facebook og þær m.a. sendar út til félagsmanna FÍH, FÍT, ÚTÓN og hljóðfæraleikara Sinfóníuhljómsveitar Íslands. 319 einstaklingar svöruðu áheyrendakönnuninni. Þar af voru 79 karlar, 239 konur og 1 kynsegin (non-binary) og meirihluti svarenda (60%) voru 35 ára eða yngri. Í könnuninni fyrir tónlistarfólk sögðust flestir svarendur aðallega (61%) starfa við sígilda og samtímatónlist, næstflestir (29%) við popp, rokk, rapp og raftónlist og færri við jazz og blús, kvikmynda- og leikhústónlist og þjóðlagatónlist. Þá var rúmur helmingur sjálfstætt starfandi, 27% með fastráðningu og 21% í námi. 60% svarenda voru konur og 40% karlar. Könnuninni var skipt upp eftir því hvort svarendur voru tónlistarflytjendur (79%), tónskáld/lagasmiðir/„producers“ (7%), hljóðfæraleikarar/söngvarar sem flytja eigin verk (9%) eða umboðsmenn/tónleikaskipuleggjendur (5%). Hér verður aðallega rýnt í niðurstöður úr svörum við spurningum sem beint var sérstaklega til tónlistarflytjenda þar sem langstærstur hluti svarenda kom úr þeim hópi. Flestir tónlistarflytjendur sögðust leika á tónleikum einu sinni til þrisvar sinnum í mánuði undir eðlilegum kringumstæðum (49%) og hafa mestar tekjur af opinberum tónlistarflutningi (56%).

Auk þess voru tekin viðtöl við Láru Sóleyju Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra SÍ, Svanhildi Konráðsdóttur, forstjóra Hörpu, Unu Sveinbjarnardóttur, 3. konsertmeistara SÍ, tónlistarkonuna Guðrúnu Ýri Eyfjörð Jóhannesdóttur (GDRN), auk tveggja aðila sem lýstu yfir áhuga á að koma í viðtöl um viðhorf sitt til streymistónleika. Fyrir þetta verkefni var leitað að erlendum rannsóknum um streymistónleika almennt en fyrir tíma samkomubanns var lítið um streymistónleika án áheyrenda og því ekki úr miklu að moða. Þó var ein sérlega gagnleg rannsókn sem benti á möguleika á samblöndun lifandi tónleika og streymistónleika sem leið að sjálfbærari tónlistariðnaði.[9]

Hvað varðar sértækar rannsóknir á áhrifum faraldursins á tónlistariðnaðinn, þá eru fræðigreinar og umræða ennþá á fyrstu stigum þar sem rannsóknir og úrvinnsla á þeim í hinum akademíska heimi taka alltaf sinn tíma, en hagaðilar voru fljótir til að draga fram mynd af ástandinu. Strax í júnímánuði (2020) kom út skýrsla sem unnin var fyrir Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag íslenskra hljómplötuframleiðenda, Samtök flytjenda og hljómplötuframleiðenda, STEF, Tónlistarborgina Reykjavík og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar. Hún greindi þau áhrif sem samkomubannið hafði á fólk sem starfar í íslenskum tónlistariðnaði og þau úrræði sem íslenska ríkið og Reykjavíkurborg höfðu þá þegar ráðist í. Þar voru jafnframt lagðar fram tillögur að frekari aðgerðum sem skýrsluhöfundar telja að myndu gagnast betur en þær sem stjórnvöld höfðu ráðist í.[10] Segja má að þessi skýrsla hafi verið framlag hagaðila á sviði tónlistar til greiningar og úrbóta á stöðunni sem var komin upp. Sambærilegar skýrslur hafa einnig verið unnar erlendis, t.d. í Noregi.[11]

 

Streymistónleikar í samkomubanni

Áður en fjallað verður um viðhorf til streymistónleika er rétt að draga fram stöðu tónleika á því tímabili sem rannsóknin kannaði og með því veita ákveðið samhengi fyrir þær niðurstöður sem á eftir koma. Eins og við vitum féllu nær allir „hefðbundnir“ tónleikar niður eða þeim var frestað á tímabilinu. 68% svarenda urðu fyrir því að tónleikum sem þeir ætluðu á var frestað eða þeir felldir niður vegna samkomubanns (mynd 1).

mynd1.png

Mynd 1. Tónleikar í fyrstu bylgju faraldursins.

Í stað þess var gripið til streymistónleika og 74% svarenda í áheyrendakönnuninni horfðu á streymistónleika á tímabilinu (mynd 2). Af þeim sem ekki sáu neina streymistónleika (26%) svöruðu langflestir (85%) að ástæðan væri að þeir hefðu ekki haft áhuga á því. Því er ljóst að flestir þátttakendur höfðu tök á því að horfa á streymistónleika og að aðgengi að streymistónleikum var almennt gott.

mynd2.png

Mynd 2. Áhorf á streymistónleika.

Það liggur í hlutarins eðli að nær allir tónlistarflytjendur (85%) sem tóku þátt í könnuninni lentu í því að tónleikum sem þeir áttu að koma fram á var frestað eða þeir felldir niður (mynd 3).

mynd3.png

Mynd 3. Svör tónlistarfólks um eigin tónleika.

Þar af tóku 36% þátt í streymistónleikum (mynd 4) og þar á meðal sögðu 64% streymistónleikana hafa verið á vegum stofnunar.
 

mynd_4_minni.png

Mynd 4. Þátttaka í streymistónleikum.

Ljóst er að meirihluti streymistónleika var á vegum stofnana og mögulega voru þær frekar í stakk búnar til þess að standa að streymistónleikum; kannski vegna þess að stofnanir hafa stundum tekjur annars staðar frá (s.s. úr ríkissjóði eða með opinberum styrkjum) og voru því ekki eins bundnar við tekjur sem hefðu fengist með miðasölu á tónleikana sjálfa. Þá búa stofnanir e.t.v. að frekari tæknisérhæfingu og búnað sem streymistónleikar krefjast og mannskap (annan en tónlistarfólkið sjálft) til þess að sjá um skipulagningu og utanumhald.

mynd5.png

Mynd 5. Ástæða fyrir því að taka ekki þátt í streymistónleikum.

Af þeim sem ekki komu fram á streymistónleikum sagði um helmingur að ástæða þess væri að sér hefði ekki boðist það eða ekki fengið tækifæri til þess. 26% sögðust ekki hafa haft áhuga á að koma fram á streymistónleikum (mynd 5). Þetta gefur til kynna að fleiri hefðu haft áhuga á að taka þátt í streymistónleikum en gerðu, en áhuga vekur að það var ekki tæknikunnátta sem fólk taldi að stæði í vegi fyrir sér, heldur var því ekki boðið að taka þátt. Það bendir til þess að einhverjir flytjendur töldu sig vilja taka þátt ef einhver annar hefði staðið að framkvæmd. Því má draga þá ályktun að sjálf framkvæmdin hafi vaxið einhverjum í augum.

 

Viðhorf til streymistónleika

Streymistónleikar virðast þó ekki eiga eftir að taka við af hefðbundnum tónleikum í bráð, þar sem niðurstöður kannananna sýna fram á að bæði áheyrendum og tónlistarfólki hugnast betur að hafa tónleika með áheyrendum í sal. 85% þeirra sem tóku þátt í áheyrendakönnununni töldu sig njóta hefðbundinna tónleika betur og aðeins 2% kusu frekar streymistónleika (mynd 6).

mynd6.png

Mynd 6. Hefðbundir tónleikar eða streymistónleikar?

Það er auðvitað vel þekkt að hluti af tónleikaupplifun er bundinn við þann tíma og rúm þar sem viðburðurinn fer fram. Það myndast ákveðin stemning og tengsl á milli tónleikagesta innbyrðis og á milli áheyrenda og flytjenda sem hafa mikil áhrif á upplifunina. Einn viðmælandinn sagði frá því að henni hefði þótt „grautfúlt að komast ekki á tónleika í Hörpu“ á tímum samkomubanns og saknaði einna helst andrúmsloftsins sem myndast þegar fólk kemur saman og hlustar á tónlist. Hún var ánægð með að streymistónleikar væru aðgengilegir á tímum samkomubanns, en að hennar sögn er það að horfa á streymistónleika „alls ekki það sama og að vera í tónleikasal“, þótt henni þættu hljómgæðin mikil og hún segði „tónlistina standa fyrir sínu“. „Þegar maður fer á tónleika er maður í samfélagi, maður er innan um fólk og finnur að það eru fleiri að hlusta. Það er eitthvað svona andrúmsloft í salnum.“[12] Þetta rímar við upplifun annarra viðmælenda í rannsókninni sem og niðurstöður annarra fræðimanna á tónleikum og upplifun á þeim.[13] Á sama hátt þykir tónlistarfólki mun skemmtilegra að flytja tónlist fyrir tónleikagesti heldur en myndavélar og telur áhorfendur mikilvægan hluta af upplifuninni en sér þó einnig ákveðin tækifæri með streymistónleikunum (tafla 1):

Ég saknaði þess að finna fyrir nærveru tónleikagesta.     28%
Ég gladdist yfir því að fá eitthvað í staðinn fyrir hefðbundna tónleika.   19%
Ég saknaði þess að vinna með öðru tónlistarfólki. 18%
Ég tel að fleiri hafi séð streymistónleikana en hefðu annars mætt á venjulega tónleika. 13%
Það var kvíðavaldandi að tónleikarnir voru í beinni útsendingu.         6%
Það var óþægilegt að vita að tónleikarnir eru einnig aðgengilegir eftir á.    6%
Það var óþægilegt að vita ekki hve margir sáu tónleikana á meðan á þeim stóð.  5%
Það var þægilegt að geta haldið tónleikana á þeim stað og tíma sem mér hentaði.   5%

Tafla 1. Viðhorf tónlistarfólks til streymistónleika.

Fjarvera tónleikagesta vó einna þyngst í viðhorfi tónlistarfólks til streymistónleika, en um 28% söknuðu þess að hafa gesti í sal. Þetta staðfestir enn frekar að tónleikaupplifunin snýst ekki bara um tónlistina heldur einnig þá stemningu og orku sem myndast í salnum og þá gagnvirkni sem á sér stað milli áhorfenda og flytjenda. Einhverjir (13%) töldu að fleiri hefðu séð streymistónleikana en hefðu annars komið á hefðbundna tónleika og ætla má að aðgengi að ókeypis streymistónleikum sé mun meira en að hefðbundnum tónleikum þar sem fólk þarf að hafa tök (og ráð) á að kaupa miða og mæta á staðinn á ákveðnum tíma.

Einn viðmælandi rannsóknarinnar, Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir (GDRN) kom fram á nokkrum streymistónleikum á tímum samkomubanns. Þeir fyrstu voru tónleikarnir Látum okkur streyma í Hljómahöllinni Reykjanesbæ 7. apríl, í beinni útsendingu á RÚV 2, þar sem hún kom fram ásamt hljómsveit og lék lög af nýútkominni plötu sinni. Hún lýsti reynslu sinni af þessum streymistónleikum á eftirfarandi hátt: „Það er svolítið skrýtið og fyndið að segja það en ég held að ég hafi aldrei verið jafn stressuð fyrir tónleikum eins og þessum af því að það var tómur salur. Þá fattaði ég hvað það skiptir miklu máli að hafa áhorfendur fyrir „feedback-ið““. Henni fannst skrýtið að ljúka einu lagi og hefja það næsta án þess að heyra neinn klappa fyrir sér á milli laga. „Maður er með aftast í huganum að það er fullt, fullt af fólki að hlusta, ég bara sé það ekki“. Tilfinningin hafi þó skánað eftir því sem Guðrún kom oftar fram á streymistónleikum en miklu skemmtilegra sé að hafa áheyrendur í sal og að sjá þá sem hlusta á tónleikana. Hún sagði jafnframt:

Þetta var stressandi af því að þetta var „live“. Þegar maður er í upptökum er maður svo slakur því maður hugsar: „Ef eitthvað klikkar þá bara gerum við þetta aftur.“ Það er ekki þessi „stressfactor“. En nú var hann þarna, en samt engir áhorfendur. Þetta var mjög skrýtin blanda af: „Þú mátt ekki klúðra neinu, en þú ert algjörlega upp á þig eina komin hvað varðar „performansinn“ og hvað þú ert að gefa af þér.“ Það er fyndið að gefa af sér í tóman sal.[14] 

Guðrúnu þykir mikill munur á því að koma fram á hefðbundnum tónleikum með áheyrendum sem eru í beinni útsendingu og streymistónleikum án áheyrenda. Hún telur marga sem hefðu ekki mætt á tónleika hjá henni undir eðlilegum kringumstæðum hafa séð streymistónleikana hennar: „Ég get alveg sagt að það hafi opnað á nýja hlustendahópa í þessu samkomubanni.“[15]

Unu Sveinbjarnardóttur fiðluleikara þótti einnig dálítið óþægilegt að leika fyrir nánast tómum sal, en sagði stemninguna á tónleikum Páls Óskars og Sinfó, þegar loksins var hægt að hleypa gestum í sal, hafa verið rosalega góða og sagði alla hafa verið „þakkláta fyrir að fá lifandi flutning“. Hún sagði viðbrögðin við streymistónleikunum hafa verið frábær en saknaði „stemningarinnar í rýminu þegar maður spilar lifandi, fyrir fólk.“ Hún hafi í raun ekki orðið þreytt á að leika á streymistónleikum en hins vegar hafi hún sem áheyrandi og neytandi verið orðin rosalega leið á að sjá og hlusta á streymistónleika. Hún sagði: „Ég var alveg hætt að nenna að kíkja á einhver streymi eftir nokkrar vikur.“[16]

 

mynd7.png
Mynd 7. Framkoma á streymistónleikum.

Athygli vekur að fáum þótti auðveldara að koma fram á streymistónleikum heldur en á hefðbundnum tónleikum (mynd 7) og samræmist það frásögnum viðmælenda í viðtölum, en aðeins 8% fannst auðveldara að koma fram í streymi. Hér er væntanlega aftur hægt að vísa í þessa tengingu sem bæði flytjendur og áhorfendur finna fyrir sem er svo mikilvæg fyrir tónleikaupplifunina. Þegar engir áhorfendur eru, þá fá flytjendur enga endurgjöf á flutninginn og njóta ekki andrúmsloftsins og kraftsins sem myndast á tónleikum. Það hafa a.m.k. enn sem komið er ekki verið þróaðar leiðir til þess háttar endurgjafar.

 

Framtíð streymistónleika að samkomubanni loknu

Í ljósi umræðunnar hér að ofan kemur það ekki á óvart að niðurstöður sýna að flest tónlistarfólk telur ólíklegt að það muni koma fram á eða standa fyrir streymistónleikum eftir að samkomubanni hefur verið aflétt (mynd 8).

mynd8.png
Mynd 8. Þátttaka í streymistónleikum eftir samkomubann.

65% svarenda taldi það ólíklegt eða neituðu alfarið, 32% taldi það líklegt en hjá aðeins 3% svarenda stóð það til. Þegar tónlistarfólk var spurt út í fyrirkomulag mögulegra streymistónleika eftir að samkomubanni lyki, þá kaus mikill meirihluti (71%) tónleika með áheyrendum í sal í beinu streymi frekar en streymistónleika án áheyrenda, eins og tíðkuðust á tímum samkomubanns (mynd 9).

mynd9.png
Mynd 9. Streymistónleikar: Með eða án áhorfenda?

Þó svo að tónlistarfólk sé ekki líklegt til þess að standa fyrir streymistónleikum þá voru niðurstöður áheyrendakönnunarinnar á þann veg að 75% svarenda myndu vilja að streymistónleikar stæðu áfram til boða eftir að samkomubanni hefur verið aflétt (mynd 10).

mynd10.png
Mynd 10. Áhugi áheyrenda á streymistónleikum eftir samkomubann.

Ljóst er að fleiri geta notið streymistónleika en hefðbundinna tónleika og þannig gefst fólki kostur á að kynnast nýju tónlistarfólki og tónlistarstílum, auk þess sem fólk, sem ekki hefur tök á að sækja hefðbundna tónleika, getur notið streymistónleika heima hjá sér hvenær sem því hentar og jafnvel horft á tónleikana aftur. Þó er það ljóst að þetta þyrfti að vera viðbót við hefðbundna tónleika, því streymi leysir þá ekki af hólmi. Einn viðmælandi benti á ákveðna kosti við streymistónleika. „Maður getur ýtt á pásu, verið bara í kósýfötunum heima og horft hvenær sem manni hentar. Oft missir maður af tónleikum, er kannski að svæfa börnin. Þá er gott að geta horft á þá í tölvunni.“[17] Það virtist ekki vera mikill munur á því hvort fólk horfði almennt á streymi í beinni útsendingu (58%) eða eftir á (42%), og því má gera ráð fyrir að möguleikinn að geta horft á eitthvað á þeim tíma sem hentar skipti suma miklu máli.

 

Tekjur af streymistónleikum

Helsti gallinn við streymistónleika, að mati tónlistarfólks hérlendis, virðist vera sá að engar tekjur fást úr miðasölu ef tónleikarnir eru aðgengilegir ókeypis á netmiðlum eða sýndir á opnum sjónvarpsstöðvum. Tónlistarfólk þarf því oftar en ekki að gefa vinnu sína, þrátt fyrir að tónleikahaldið krefjist mikillar vinnu og æfinga, auk þess sem upptakan getur reynst kostnaðarsöm. Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, benti á að ýmsir hafa reynt að finna leiðir til að standa straum af kostnaði við streymistónleika; að sumar hljómsveitir erlendis selji miða á streymistónleika eða netáskriftir að viðburðum og aðrir reiði sig á frjáls framlög áheyrenda, en það sé lítil hefð fyrir því hérlendis. Hún sagði að það þurfi að gæta þess að bjóða ekki upp á of mikið af ókeypis streymistónleikum því þá geti áheyrendur vanist því að njóta tónleika endurgjaldslaust og „að það muni grafa undan tilvistar- og rekstrargrundvelli menningarhúsa og menningarstofnana eins og Sinfóníuhljómsveitarinnar.“[18]

Á sumum streymistónleikum hérlendis óskuðu tónleikahaldarar eða tónlistarfólk eftir frjálsum framlögum; til dæmis á fernum streymistónleikum sem STEF stóð fyrir, Tónastreymi, og á streymistónleikaröðinni Tómamengi í Mengi. Að sögn skipuleggjenda Tómamengis voru framlögin á við örfáa selda miða á hverjum tónleikum[19] og að sögn Guðrúnar Bjarkar Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra STEFs, námu frjáls framlög samtals 25.285 kr. á fernum tónleikum þar sem tólf hljómsveitir/tónlistarmenn komu fram.[20] Það gerir því rétt rúmar 2000 kr. á hljómsveit. Þetta sýnir að hérlendis er ekki hefð fyrir frjálsum framlögum til tónlistarfólks, rétt eins og Svanhildur Konráðsdóttir benti á í sínu viðtali.

Í Noregi gagnrýndu sjálfstætt starfandi tónlistarmenn sinfóníuhljómsveitir sem buðu upp á streymi, landsmönnum að kostnaðarlausu, og töldu þær með því móti grafa undan þeim möguleika að Norðmenn væru reiðubúnir að greiða fyrir annað streymi.[21] Til að streymistónleikar geti verið raunhæfur möguleiki fyrir tónleikahald til frambúðar er ljóst að finna verður lausn á þessu vandamáli; hugsanlega með því að koma í veg fyrir að streymistónleikar geti verið aðgengilegir áhorfendum að kostnaðarlausu og með því að finna hentuga leið til að selja miða eða áskriftir að streymisrásum.

Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að samþróun (e. co-evolution) streymistónleika og lifandi tónleika hafi gengið vel á síðustu árum og að með því að tileinka sér þær tækniframfarir sem orðið hafa við upptökur og dreifingu tónlistar á netinu ættu ólíkir aðilar og stofnanir að geta unnið saman til að koma á streymisveitu sem heldur úti miðasölu og sýnir frá streymistónleikum í beinni útsendingu.[22] Með því móti væri hægt að koma listamönnum á framfæri víðsvegar um heiminn, auk þess sem aðgengi neytenda væri gott. Þetta samræmist þeirri samfélagsþróun að fólk vill geta fengið upplýsingar, gögn og tónlist á örskotsstundu í snjalltækjum sínum. Rétt eins og fólk sér íþróttaleiki í beinni útsendingu, í stað þess að sitja í áhorfendastúkunni, væri þannig hægt að njóta tónleika á streymisveitunni. Þetta myndi einnig styðja við viðnám við loftslagsbreytingum ef færri ferðuðust vegna tónleika. Þetta er þó enn framtíðarmúsík og ætla má að miðlunarleiðir þróist ört á næstu árum.

Í ljósi þess að streymistónleikar sköpuðu tónlistarfólki litlar sem engar tekjur verður það að teljast sérstaklega alvarlegt að aðgerðir ríkis og borgar (s.s. hlutabótaleiðin, átaksverkefni tónlistarsjóðs, menningarpottur Reykavíkurborgar eða sambærilegir sjóðir) hafi ekki nýst tónlistarfólki nægilega vel á tímum samkomubanns en könnunin sýnir að þær nýttust einungis 25% svarenda (mynd 11).

mynd11.png
Mynd 11. Nýting á fjárhagsúrræðum stjórnvalda.

 

Sú stefna ríkisstjórnarinnar að setja aukið fjármagn í sjóði þar sem fólk þarf að leggja fram tillögu að tónleikahaldi eða nýjum verkefnum til að eiga möguleika á að hljóta styrk hefur verið gagnrýnd. Erfitt er að skipuleggja tónleikahald á óvissutímum sem þessum og fáir tónlistarmenn hafa getað nýtt sér atvinnuleysis- eða hlutabætur. Rétt er að benda á að þetta endurspeglar aðeins úrræði stjórnvalda í fyrstu bylgju faraldursins og síðar komu önnur úrræði sem nýttust tónlistarfólki e.t.v. betur.
 

Lokaorð

Ljóst er að heimsfaraldurinn hefur haft slæm áhrif á tónlistarfólk hérlendis. Vegna samkomubanns féllu fjölmargir tónleikar niður eða var frestað. Ýmsir stóðu fyrir streymistónleikum sem hlutu góðar viðtökur og voru aðgengilegir landsmönnum að kostnaðarlausu. Tónlistarmenn höfðu litlar sem engar tekjur af þeim en streymistónleikar gætu þó hafa átt þátt í að koma listamönnunum á framfæri og auka hróður þeirra. Fullvíst má telja að landsmenn muni flykkjast í tónleikasali þegar samkomubann heyrir sögunni til og hefðbundið tónleikahald hefst á ný. Viðmælendur lýstu því að þegar samkomubanni lauk í sumar og þeir komust loks á tónleika þá nutu þeir þeirra betur en venjulega. Sömuleiðis má ætla að eftirspurn verði áfram eftir streymi því þrátt fyrir að veiran verði vonandi einhvern tíma á bak og burt er alltaf ákveðinn hópur fólks sem á ekki heimangengt. Einnig eru augljós þau verðmæti sem felast í að hægt sé að njóta tónleika, í heild eða að hluta, við þær aðstæður og á þeim tíma sem fólki hentar best, og jafnvel oftar en einu sinni. Það er þó ljóst að mikilvægt er að finna flöt á tekjumöguleikum streymistónleika. Eftir sem áður er það í tónleikasalnum sem töfrarnir gerast. Samkomubann og nálægðartakmarkanir hafa kennt okkur að það er ómetanlegt að geta safnast saman til að njóta tónlistar.

Heimildaskrá

Gran, Anne-Britt, Linn-Birgit Kampen Kristensen, Audun Molde, Anja Nylund Hagen og Peter Booth. „Krise og kreativitet i musikkbransjen – koronapandemien 2020.“ Osló: BI Centre for Creative Industries, 9. júní 2020. https://www.musikkindustrien.no/media/2250555/krise-og-kreativitet-i-mus....

Ágúst Borgþór Sverrisson. „Þórólfur þakklátur Helga Björns – „Ég þori ekki að segja Helgi Eff Björns…“.“ Dv.is. 30. mars 2020. https://www.dv.is/frettir/2020/03/30/thorolfur-thakklatur-helga-bjorns-e....

María Rut Reynisdóttir og Bryndís Jónatansdóttir. „Áhrif COVID-19 á íslenskan tónlistariðnað.“ Reykjavík: júní 2020. https://static1.squarespace.com/static/5f0314f402ff316dfaaaa141/t/ 5f0321c938bdf707c8f4bfeb/ 1594040789664/FINAL+Report+Covid+%282%29.pdf.

Naveed, Kashif, Chihiro Watanabe og Pekka Neittaanmäki. „Co-evolution between streaming and live music leads a way to the sustainable growth of music industry – Lessons from the US experiences.“ Technology in Society, 50 (2017): 1-19. doi: 10.1016/j.techsoc.2017.03.005.

Orri Freyr Rúnarsson. „Ferðumst innanhúss – nýtt lag. “ Rúv.is. 8. apríl 2020. https://www.ruv.is/frett/2020/04/08/ferdumst-innanhuss-nytt-lag.

Ríkislögreglustjórinn, almannavarnadeild. „Stöðuskýrsla: Koronaveira – COVID-19 04052020.“ Reykjavík: 4. maí 2020. https://www.almannavarnir.is/utgefid-efni/stoduskyrsla-koronaveira-covid....

„Viðbrögð á Íslandi.“ covid.is. Embætti landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Sótt 5. júlí 2020. https://www.covid.is/undirflokkar/vidbrogd-a-islandi.

„Víðir þakkar Helga Björns.“ Mbl.is. 2. maí 2020. https://www.mbl.is/folk/frettir/2020/05/02/ vidir_thakkar_helga_bjorns/.

 

Viðtöl:

Drífa Ísleifsdóttir. Viðtal við Ragnheiði Ingunni Jóhannsdóttur. 25. ágúst 2020.

Guðmundur Ari Arnalds (tónleikaskipuleggjandi í Mengi). Tölvupóstur til Ragnheiðar Ingunnar Jóhannsdóttur. 8. september 2020.

Guðný Helgadóttir. Viðtal við Ragnheiði Ingunni Jóhannsdóttur. 17. júlí 2020.

Guðrún Björk Bjarnadóttir (framkvæmdastjóri STEFs). Tölvupóstur til Ragnheiðar Ingunnar Jóhannsdóttur. 8. september 2020.

Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir (tónlistarkona). Viðtal við Ragnheiði Ingunni Jóhannsdóttur. 10. júlí 2020.

Svanhildur Konráðsdóttir (forstjóri Hörpu). Ragnheiði Ingunni Jóhannsdóttur. 16. júlí 2020.

Una Sveinbjarnardóttir (fiðluleikari). Viðtal við Ragnheiði Ingunni Jóhannsdóttur. 8. júlí 2020.

---

[1] „Viðbrögð á Íslandi,“ covid.is, sótt 5. júlí 2020, https://www.covid.is/undirflokkar/vidbrogd-a-islandi.

[2] „Víðir þakkar Helga Björns,“ mbl.is, 2. maí 2020, https://www.mbl.is/folk/frettir/2020/05/02/vidir_thakkar_helga_bjorns/.

[3] Ríkislögreglustjórinn, almannavarnadeild. „Stöðuskýrsla: Koronaveira – COVID-19 04052020.“ (Reykjavík: 4. maí 2020), 3. https://www.almannavarnir.is/utgefid-efni/stoduskyrsla-koronaveira-covid....

[4] Ágúst Borgþór Sverrisson, „Þórólfur þakklátur Helga Björns – „Ég þori ekki að segja Helgi Eff Björns…“,“ dv.is, 30. mars 2020, https://www.dv.is/frettir/2020/03/30/thorolfur-thakklatur-helga-bjorns-e....

[5] Orri Freyr Rúnarsson, „Ferðumst innanhúss – nýtt lag “ rúv.is, 8. apríl 2020, https://www.ruv.is/frett/2020/04/08/ferdumst-innanhuss-nytt-lag.

[6] Rannsóknin var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna.

[7] Naveed, Watanabe og Neittaanmäki, „Co-evolution between streaming and live music leads a way to the sustainable growth of music industry,“ 2.

[8] Naveed, Watanabe og Neittaanmäki, „Co-evolution between streaming and live music leads a way to the sustainable growth of music industry,“ 11.

[9] Kashif Naveed, Chihiro Watanabe og Pekka Neittaanmäki, „Co-evolution between streaming and live music leads a way to the sustainable growth of music industry – Lessons from the US experiences,“ Technology in Society, 50 (2017): 1-19, doi: 10.1016/j.techsoc.2017.03.005.

[10] María Rut Reynisdóttir og Bryndís Jónatansdóttir, „Áhrif COVID-19 á íslenskan tónlistariðnað,“ (Reykjavík: júní 2020), https://static1.squarespace.com/static/5f0314f402ff316dfaaaa141/t/5f0321....

[11] Anne-Britt Gran, Linn-Birgit Kampen Kristensen, Audun Molde, Anja Nylund Hagen og Peter Booth, „Krise og kreativitet i musikkbransjen – koronapandemien 2020.“ (Osló: BI Centre for Creative Industries, 9. júní 2020). https://www.musikkindustrien.no/media/2250555/krise-og-kreativitet-i-mus....

[12] Guðný Helgadóttir, viðtal við Ragnheiði Ingunni Jóhannsdóttur, júlí 2020.

[13] Tina K. Ramnarine, „Musical performance,“ í An Introduction to Music Studies, ritstj. J.P.E. Harper-Schott og Jim Samson (Cambridge: Cambridge University Press, 2009).

[14] Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir (tónlistarkona), viðtal við Ragnheiði Ingunni Jóhannsdóttur, júlí 2020.

[15] Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir, viðtal.

[16] Una Sveinbjarnardóttir (fiðluleikari), viðtal við Ragnheiði Ingunni Jóhannsdóttur, júlí 2020.

[17] Drífa Ísleifsdóttir, viðtal við Ragnheiði Ingunni Jóhannsdóttur, ágúst 2020.

[18] Svanhildur Konráðsdóttir (forstjóri Hörpu), viðtal við Ragnheiði Ingunni Jóhannsdóttur, júlí 2020.

[19] Guðmundur Ari Arnalds (tónleikaskipuleggjandi í Mengi), tölvupóstur til Ragnheiðar Ingunnar Jóhannsdóttur, september 2020.

[20] Guðrún Björk Bjarnadóttir (framkvæmdastjóri STEFs), tölvupóstur til Ragnheiðar Ingunnar Jóhannsdóttur, september 2020.

[21] Gran, Kristensen, Molde, Hagen og Booth, „Krise og kreativitet i musikkbransjen,“ 63.

[22] Naveed, Watanabe og Neittaanmäki, „Co-evolution between streaming and live music leads a way to the sustainable growth of music industry,“ 1.

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Þræðir - forsíða
Þræðir - tölublað 6

Tölublað 6

Um höfunda