Fög og vökvakenndir veggir þeirra

Einar Torfi Einarsson

 

Í allri þeirri orð- og umræðu um þverfagleika, sem einkennir að mörgu leyti nútímann, er oft erfitt að gera sér grein fyrir hvað nákvæmlega er átt við með þessu orði. Í þessari stuttu grein verður snert á einkennum þess sem kalla mætti fagleika, fjölfagleika, þverfagleika og gegnumfagleika til að skyggnast örlítið inn í þessi fyrirbæri og öðlast vonandi betri skilning á þeim. Tónlist verður notuð sem rauður þráður til að skýra og benda á hinar ýmsu birtingamyndir fyrirbæranna.
 

th6_ete_mynd-i.png
 
Fag

Hvað meinum við þegar við tölum um fag, grein eða fræðigrein, eða það sem kallað er á ensku discipline? Að kunna sitt fag, að vera fagmaður/faglegur, hefur skírskotun í sérmenntun, rétt vinnubrögð, og/eða ákveðna leikni og kunnáttu (sbr. fagkunnátta), allt frá pípulagningum yfir í heimspeki. En ef við skoðum aðeins orðið discipline innan háskólasamfélagsins getum við talað um akademísk fög og þá ákveðna þjálfun innan ákveðinna greina. Við getum sagt að fag sé sérhver skipulögð þekkingarstarfsemi sem hefur náð fótfestu og orðið að eins konar stofnun. Orðið discipline er áhugavert því það þýðir bæði hlýðni, þjálfun, agi og jafnvel refsing, en orðið sjálft á rætur sínar að rekja til latínu, discipulus, þar sem það stendur (yfrleitt) fyrir lærling eða þann sem fylgir öðrum til að öðlast menntun. Julie Thompson Klein skilgreinir fag sem safn verkfæra (e. tools), aðferða, reglna, fyrirmynda, hugtaka og fræða (kenninga):

„The term discipline signifies the tools, methods, procedures, exempla, concepts and theories that account coherently for a set of objects or subjects. …A discipline comes to organize and concentrate experience into a particular ‘world view.’ Taken together, [these]…put limits on the kinds of questions practitioners ask about their material, the methods and concepts they use, the answers they believe, and their criteria for truth and validity.[1] 

Áhugavert er hvernig hún talar um að fagið móti heimsmynd „lærlinganna“ og hvernig ákveðin fagþekking felur einnig í sér takmarkanir á t.d. hvernig spurninga iðkendur fagsins spyrji sig. Þannig séð eru veggir fagsins nokkuð þéttir og virka sem einskonar regluverk á hegðun og hugsun, og að sjálfsögðu er nokkuð til í þessu, því öll menntun hefur vissulega áhrif á hvernig við sjáum heiminn. Michel Foucault túlkaði discipline sem ofbeldi pólitískra krafta sem framleiða „viðráðanlegar“ manneskjur og huga[2]. Þótt hann sé ekki beint að tala um akademísk fög þá tel ég rétt að hafa þessa valdtengingu einnig í huga.

En það er menntastofnunin sem er kjarni fagsins, án hennar er varla hægt að tala um fag því þá væri engin skipulögð miðlun milli kynslóða. Það tekur hins vegar tíma fyrir fag að taka á sig mynd og öðlast þannig sess innan menntastofnana, sér í lagi háskólastofnana, og sumar greinar leysast hreinlega upp með tímanum (eins t.d. höfuðlagsfræðin, e. phrenology, sem hvarf fljótlega eftir myndun). Þannig eru greinar misgamlar og í stöðugri þróun og ef við lítum á tónlist, þótt hún sé ævafornt fyrirbæri, þá á hún sér ekkert mjög langa sögu sem skipulögð menntastofnun eða þekkingarstarfsemi eins og við þekkjum hana í dag. Tónlist var kennd skipulega að einhverju leyti innan kirkjunnar á 12. og 13. öld.[3]

en fyrstu veraldlegu menntastofnaninar sem tóku að sér að mennta tónlistarfólk – og sem stofnanir nútímans bera sterkan svip af – mynduðust á Ítalíu á 16. og 17. öld. Þetta voru fyrstu konservatoríin sem upphaflega voru munaðarleysingjahæli (conservati nefndust börnin sem var bjargað).[4]  Þarna þróaðist námsefni sem skiptist niður í kontrapunkt, hljómborðstækni, tónheyrn, og partimenti eða raddsetningu.[5]  Konservatoríin uxu smám saman og á 18. öld tóku þær ríkan þátt í menntun tónlistarfólks og mótuðu þ.a.l. fagið sem slíkt. Ítölsku konservatoríin urðu svo fyrirmynd sem tekin var upp víða í Evrópu og loks í Bandaríkjunum á 19. öld.[6] Auðvitað mætti segja að fagið hafi verið til á undan konservatoríunum en þessi skipulagða menntun/starfsemi tók eiginlega fagið í sínar hendur.

En hvar lærði þá Bach sitt fag? Hjá föður sínum og bróður sem hafði verið svo „heppinn“ að fá tíma hjá Pachelbel. Því næst er menntun Bachs að mestu innan kórastarfs kirkjunnar og á eigin vegum í gegnum bókasöfn kirknanna; engin skipulögð skólastarfsemi studdi og mótaði hann.[7] 

Tónlist sem fag hefur tekið stakkaskiptum í gegnum tíðina, orðið viðameira og þanið sig út og skiptist nú í ótal undirgreinar: tónlistarfræði, tónlistarflutning, tónsmíðar, tónfræði, tónlistargagnrýni, skapandi tónlistarmiðlun, o.fl., hver með sína snertipunkta og sín sérstöku sjónarmið á tónlist. Þessar undirgreinar brotna svo enn frekar í aðrar undirgreinar, eins og t.d. þjóðtónlistarfræði, nýmiðlatónsmíðar, upprunaflutning (e. historically informed performance), og þannig mætti lengi telja. Fagið sem slíkt er því lifandi fyrirbæri sem vex og þroskast og elur af sér afkvæmi, og þar sem hinar ýmsu greinar og undirgreinar þess skarast við ýmis önnur fög, því nákvæmlega þetta á sér stað í flestum öðrum greinum líka. Sem slíkt er varla hægt að tala um fastmótaða dagskrá og þétta veggi. Fag er því einskonar heimur sem auðvelt er að tapa sér í, því sérhver heimur verður hæglega svo víðfeðmt fyrirbæri. Þetta sjónarhorn stangast því að vissu leyti á við skilgreiningu Klein að ofan.

Áhugavert er að skoða aðferðir Rick Szostaks til að greina einkenni akademískra faga. Í stuttu máli mótast sjónarhorn fagsins af fyrirbærafræði (hvernig við upplifum tónlist); þekkingarfræði (hvernig við þekkjum tónlist); aðferðum og tækni (til að skapa, iðka, og rannsaka); og fræði 

(upplýsa, útskýra, rannsaka).[8] Mætti því kannski segja að fagið dafni sem best þegar þessir þættir – sem augljóslega birtast missterkt á ólíkum námsstigum – tala vel saman.

Það getur verið hollt að kryfja sitt eigið fag og átta sig betur á því hvernig það hefur mótað heimsmynd og hugsunarmynstur manns. Þannig getur maður sett spurningamerki við hinar ýmsu „reglur“, sem oft eru teknar sem sjálfsagður hlutur, og mótað nýjar spurningar.
 

th6_ete_mynd-ii.jpg
 
Fjölfagleiki

Þegar fög koma saman geta allt aðrar spurningar og lausnir komið fram, en hvernig koma fög saman? Þegar talað er um að eitthvað sé fjölfaglegt (e. multidisciplinary) er ekki endilega svo að fögin „horfist í augu“ heldur er oft um að ræða teymi einstaklinga þar sem hver hefur sérþekkingu á sínu fagi og nýtir þá fagþekkingu til að leggja einhverju verkefni, eða verkefnisþætti, lið.[9]  Það er því horft að einhverju sameiginlegu markmiði. Hægt er að tala um ólíkar gerðir eða stig af fjölfaglegu athæfi en flest stærri verkefni innan samfélagsins eru fjölfagleg. Bygging, t.d., leiðir saman ólík fög iðnaðarmanna, verkfræðinga, arkitekta, o.fl. án þess að þátttakendur verkefnisins þurfi endilega að afla sér þekkingar á starfsviði hver annars. Þetta er eitt helsta einkenni fjölfagleikans, þar vinna einstaklingar innan síns fags, með sínar aðferðir, þekkingu, tækni og fræði. Fögin haldast því að mestu aðgreind þó unnið sé sem hópur. Hefðbundið umhverfi kvikmyndatónlistar getur talist fjölfaglegt þar sem tónlistarþátturinn þarf ekki endilega að kynna sér aðferðir leikara, tæknimanna, handritshöfunda, o.fl., til að vinna þann verkþátt. Fljótlega geta þó slík verkefni færst á grátt svæði og aðilar farið að hafa frekari áhrif hvor á annan. Gott dæmi um þetta gráa svæði er samstarf Hildar Guðnadóttur, tónskálds, og Todd Philips, leikstjóra myndarinnar Joker, þar sem tónlistin var notuð við tökur á nokkrum senum og hafði þ.a.l. áhrif á framgang kvikmyndarinnar, handritið og aðferðir leikaranna.[10] Þetta er öfugt við hefðbundið ferli þar sem tónskáldið eða tónlistin fær yfirleitt ekki aðkomu af öðrum verkþáttum kvikmyndarinnar. Þegar aðferðir, hugtök, tækni, og sjónarhorn eins fags fer að hafa áhrif á aðferðir annarra faga verður skörun og við getum sagt að fögin geti mögulega farið að taka breytingum, þverfagleikinn lætur þá á sér kræla.

Fjölfagleg verkefni geta auðvitað unnið að lokaafurð sem mætti kalla þverfaglega en mikilvægt er að átta sig á að mikill munur getur verið á vinnunni og samstarfinu sem liggur að baki. Kvikmynd, eins og bygging, getur verið þverfagleg í upplifun þó verkefnið sem slíkt hafi ekki stuðst við þverfagleg vinnubrögð. Fjölfagleg vinna er því að mörgu leyti ólík þverfaglegri vinnu.
 

th6_ete_mynd-iii.png
Þverfagleiki

Skiptar skoðanir eru á því hvað þverfagleiki er en að mínu mati er eitt helsta einkenni þverfagleikans samþætting (e. integration). Þegar fög – og þá sérstaklega aðferðir, tækni, hugtök og sjónarhorn – renna saman og erfitt eða jafnvel vonlaust getur verið að rekja eða aðgreina fögin innan e-s afraksturs, þá er búið að opna nýtt svæði til könnunar sem er afsprengi samþættingar. Þetta mætti því útlista svo og segja að þverfagleikinn sé áskorun á fögin eða veggi þeirra og krefst þess að nýrra samþættaðra lausna sé leitað. Hins vegar mætti líka segja að þverfagleiki sé hrein og bein innleiðing á tækni, leikni, eða aðferð úr einu fagi yfir í annað, sem er kannski eðlilegur (sam)vöxtur faganna. Julie Thompson Klein talar um þverfagleikann sem leið til að leysa vandamál og svara spurningum sem ekki er hægt að leiða til lykta með neinni einni aðferð eða nálgun, m.ö.o. eitt fag nær ekki að fanga viðfangsefnið.[11] 

En þetta með samþættinguna finnst mér áhugavert. Hefðbundin leikhústónlist er ekki þverfagleg því maður getur auðveldlega aðgreint tónlistina frá heildinni og allar þær aðferðir sem stuðst var við, samþættingin er í lágmarki. Verkið Maulwerke[12] eftir Dieter Schnebel er hins vegar mun erfiðara viðureignar þegar aðgreina á fögin sem stuðst er við, þar renna saman hljóð, bendingar/gestúrur, samhengi hreyfinga og látbragð tónlistar án tónlistar, upplifunin reikar og maður á erfitt með að skilgreina verkið sem tónlist eða leiklist, því það er einmitt hvorugt; það leitar á nýtt þverfaglegt svæði. Erfitt er einnig að átta sig á aðferðunum nákvæmlega því þær eru einmitt ákveðinn samruni á tónsmíðaaðferðum, leikhúsi, dans- og mime-aðferðum, og eflaust fleiru. Vökvakenndur bræðingur aðferða er umbreyting sem svipar til þess er litir blandast og nýr litur lítur dagsins ljós. Mætti því líka segja að þverfagleikinn ögri aðferðum, tækni og hugtökum innan faganna og á sama tíma hugsanlegum skilgreiningum þeirra með þessari samþættingu (þetta er eitthvað sem fjölfagleikinn lætur yfirleitt afskiptalaust). Iðkendur þverfagleikans þurfa því yfirleitt að afla sér þekkingar á a.m.k. tveimur fögum sem getur augljóslega leitt fólk út úr öruggum ramma fagsins eins og Roland Barthes talar um í sinni skilgreiningu:

„Interdisciplinarity is not the calm of an easy security; it begins effectively… when the solidarity of the old disciplines breaks down… in the interests of a new object and a new language neither of which has a place in the field of the sciences…[13] 

Skipta má þverfagleika í tvennt og tala um þröngan eða breiðan þverfagleika. Þröngur væri þá þar sem skyld fög mætast, eins og t.d. tvö listform þar sem aðferðir eru að einhverju leyti svipaðar, t.d. verkið Vagina Painting[14] eftir Kubota sem getur verið gjörningur eða myndverk, eða bæði/hvorugt. Verkið mitt Schumann-Sculpture (remnants + deracination)[15] (mynd 1) bræðir saman skúlptúr og nótnaritun og umbreytast tilheyrandi aðferðir í ferlinu. Lokaniðurstaðan er skúlptúr sem hefur mótast af ákveðnum nótnaritunaraðferðum sem voru þróaðar í allt öðrum tilgangi en tóku breytingum í formi skúlptúrs. Skúlptúrinn er hvorki nótnaritun né tónlist (í hefðbundnum skilningi) en ber samt sterkan keim af þeim og getur því þetta talist vera dæmi um það sem Klein kallar mærishlut (e. boundary object) sem er fyrirbæri á mörkum ákveðinna faga.[16] 

thessi.png

Mynd 1: Schumann-Sculpture (remnants + deracination), mögulegur mærishlutur

Breiður þverfagleiki er aftur þegar óskyld fög mætast, eins og t.d. líffræði og myndlist eða ritlist og erfðafræði eins og í Xenotext[17]  verkefninu þar sem Christian Bök notaði aðferðir erfðafræðinnar til að láta bakteríu kynslóðir skrifa óendanlegt ljóð í gegnum RNA/DNA framleiðslu.

Þegar þverfagleikinn lætur sem best skapast ný heild með umbreyttum aðferðum og nýju samhengi aðferða. Þannig getur þverfagleikinn jafnvel alið af sér nýtt fag, því nýr heimur getur 

opnast sem hægt er týnast í. Tæknileg listasaga (e. Technical Art History) getur talist sem sér fag, eða þá undirgrein listasögunnar, þar sem vísindalegum aðferðum er beitt, eins og t.d. röntgen myndatöku, til að leiða í ljós nýja forsögu málverka. Lífupplýsingafræði (e. bioinformatics) er annað dæmi um nýtt svið rannsókna sem myndaðist út frá samþættingu líffræðinnar og tölvunarfræðinnar.

Ekki er hugmyndin að velta hér upp öllum birtingamyndum þverfagleikans en til að varpa ljósi á ólík sjónarhorn vil ég nefna að þrenns konar afstaða myndaðist gagnvart þverfagleikanum í upphafi þessarar aldar:

(1) Verkfæra-þverfagleiki (e. instrumental interdisciplinarity), þar sem einblínt er á aðfengnar aðferðir og yfirfærslu verkfæra úr öðrum fögum til að leysa ákveðin vandamál. Hér er ekki verið að flækja málin með þekkingarfræðilegum vangaveltum heldur notar maður bara það sem virkar best hverju sinni og aðlagar aðstæðum.

(2) Hugtaka-þverfagleiki (e. conceptual interdisciplinarity), einblínir á lausn flókinna vandamála en keppist einnig við að skilja hvernig þverfagleikinn birtist, hvernig samþætting aðferða á sér stað, eða hvernig ferlið tekur breytingum, og þá hvernig þverfagleikinn tengist fögunum sem um ræðir hverju sinni. Til viðbótar er hér lögð áhersla á að iðkendur hafi öruggan grunn og skilning/þekkingu á þeim fögum sem samþætta á.

(3) Gagnrýnis-þverfagleiki (e. critical interdisciplinarity), tekur hins vegar afstöðu gegn fögunum sem slíkum og hefur það markmið að umbreyta umhverfi menntunar og formbyggingu þekkingar. Þessi afstaða tengist að ákveðnu leyti því sem kallað er post-disciplinary sem er pólitísk afstaða gegn núverandi skipulagningu menntastofnana í fög, greinar, deildir, fagsvið og fræðasvið, o.s.frv..
 

th6_ete_mynd-iv.jpg

[18] 

Gegnumfaglegt

Hefur þverfagleikinn takmörk? Er hægt að samþætta endalaust? Það má vera en þegar ekki er nóg að leggja fögin þvert yfir hvort annað og láta aðferðir blandast þá er hreinlega hægt að horfa í gegnum hin ýmsu fög með ákveðnum hugtaka-gleraugum. Þá lendum við í því gegnumfaglega (e. transdisciplinary) sem einkennist af sameiginlegum útgangspunkti eða 

sjónarhól sem er þannig séð hafinn yfir fögin sem slík. Þetta 21. aldar fyrirbæri á sér engin takmörk og mótast af heildrænum (e. holistic) hugsunarhætti. Hér er horfið frá -ology viðskeytinu, sem tók mið af fræði viðfangsefnisins, og í staðinn er oft talað um hinar ýmsu stúdíur (e. studies; cultural studies, international studies, visual studies, sound studies, etc.).

Gott dæmi um gegnumfagleika er svokölluð hljóðmenningarfræði[19] (e. Sound Studies). Þar er hljóðið útgangspunkturinn og miðast ekki við eitthvert ákveðið fag. Ekki er svo litið á að ákveðið fag eigi réttinn á því að taka eitthvað til skoðunar eða rannsóknar, þannig á tónlist eða hljóðlist ekki einkaréttinn á hljóði. Inn í þessa orðræðu kemur fólk/rannsakendur úr hinum ýmsu áttum því hljóð á sér stað í öllum fögum, greinum, heimum, afkimum, hvort sem um er að ræða menningu, ómenningu, örverusamfélög eða mannauðar plánetur, og getur nánari skoðun á þessum veruleikum leitt í ljós ýmsa sannleika og gefið okkur nýjan skilning og innsýn. Hljóðmenningarfræði er kannski ekki besta íslenskan því sound stúdíur miðast ekki endilega við menningarfræði (e. cultural studies) en áherslan í þessum gegnumfaglegu rannsóknum hljóðsins er á hvers konar orðræðu og urmul sjónarhorna. Hægt er að styðjast við hvaða aðferðir sem er, jafnvel listrænar aðferðir, og vettvangurinn getur verið hver sem er og aðkoman því úr hvaða átt sem er. Því er varla hægt að tala um fag þegar hið gegnumfaglega er annars vegar, ekki nema þau sem horft er í gegnum.

Gegnumfagleikanum er lýst vel í rannsóknarstofnunum nútímans eins og The New Centre for Research and Practice sem lýsir sínum gegnumfaglegu áherslum svona:

„the Transdisciplinary Studies Program explores this unique collusion between literature, poetry, anthropology, psychoanalysis, cultural studies, media theory, the arts, sciences, design, and vernacular knowledge by engaging with strategies that capture complexity, cultivate new ecologies of knowledge, and affect individual and collective transformations.[20] 

Hér er talað um ótakmarkað leynimakk (e. collusion) og samráð ólíkra faga innan nýrra vistfræða þekkingarinnar. Þetta er eflaust ný sýn á heiminn sem virðist taka við einstaklingum úr hvaða fagi sem er eða kannski bara þeim sem sjá veggi háskóladeildanna í vökvakenndu eða jafnvel gegnsæju formi?

Gegnumfagleikinn tekur þó ekki endilega afstöðu gegn fögum eða núverandi skipulagi menntastofnana þó eflaust séu þau sjónarmið eitthvað á lofti. Hægt er að líta á þetta sem viðbót, nýtt sjónarhorn á atferli sem draga fram ólík hlutverk eininga, smárra sem stórra (eins og hlutverk hljóðs í skurðlækningum). Niðurstöður slíkra rannsókna geta endurnært fögin og komið af stað nýjum hreyfingum innan þeirra. Nýjungar sem slíkar kalla ekki endilega á úreldingu fyrirrennara ef þeim er mætt með opnum hug.

 

Mjölfaglegt niðurlag - hugleiðing

Fög eða ekki fög er ákveðin þróunarsaga sem lýsir afstöðu mannsins til heimsins, hvernig sérfræðingurinn varð til og hvernig „breiðfræðingarnir“[21] koma til sögunnar. En það er kannski þriðji kosturinn, eins og víðar (og oft áður), sem þarf að fá sína sjálfsmynd viðurkennda sem bæði fag og ekki fag. Því ég vil meina að við þurfum á öllu þessu að halda; kraftmiklu starfi innan fagsins, nýjum samböndum milli faga, sjónarhól utan faga (þótt faglegur sé), og ákveðna heildarsýn á klabbið (fag, fjölfag, þverfag og í gegn). Þetta eykur samtal og skilning. Úrelding 

eru ekki endilega örlög allra faga en hvernig fög endurskipuleggja sig og aðlagast nýjum tímum leiðir óhjákvæmilega til þess að aðferðir, hugtök, tækni og kenningar taka breytingum og jafnvel úreldast og hverfa. Skipulag menntastofnana þyrfti að taka mið af þessu og hleypa í gang opnum leiðum, sem viðbót, innan hins hefðbundna umhverfis fagsviða, deilda, brauta og námslína. Jafnframt mætti setja á fót menntastofnanir sem hverfa alfarið frá þessu skipulagi og ala á nýrri heimsmynd handan faga.

Gegnumfagleikinn minnir óneitanlega á endurreisnarmanninn eða fjölfræðinginn (e. polymath) sem veður úr einu í annað en í þá daga voru fögin ekki einu sinni komin í barnsskóna og umhverfið í dag er gjörólíkt þar sem aðgengi menntunar og viðurkenning á fjölbreytni einstaklingsins og mannlífsins (svo við tölum ekki um flækjur nútímans) hefur keyrt af stað ný sjónarhorn og tilheyrandi breytingar. Þar að auki stöndum við hinum megin við sögu faganna og sérfræðinganna sem í raun byggðu stálveggi á milli sín á 20. öldinni (þó með undantekningum) og framleiddu gríðarlegt magn sérþekkingar. Að grafa slík göng inn í fögin með heimsýn eins fags í farabroddi getur leitt ýmislegt forvitnilegt í ljós (og á alveg rétt á sér[22]) en það getur einnig verið hættulegt og alið á þröngsýni. Þær hættur sem mannkynið stendur frammi fyrir í dag eru þess eðlis að öll fögin verða hreinlega að sameina krafta sína til að vinna gegn þeim, ný fög þurfa að myndast sem og iðkun handan faga, og kannski/vonandi eru þau orðin það fullorðin að treysta megi á það samtal.

---

[1]Klein, Julie Thompson, Interdisciplinarity: History, Theory, and Practice (US: Wayne State University Press, 1990), 104

[2]Foucault, Michel, Discipline and Punish: The Birth of the Prison (London: Penguin, 1991). 

[3] Tónlist var auðvitað hluti af quadrivium (æðri vísindagreinar miðalda: reikningur, rúmfræði, stjarnfræði og tónlist) sem var byggt á námskrá Platons úr bók hans Ríkið, en þar var ekki verið að mennta tónlistarfólk heldur fræðimenn.

[4] Gjerdingen, Robert, Child Composers in the Old Conservatories: How Orphans Became Elite Musicians (UK: Oxford University Press, 2020), 10-11.

[5] bid., 15.

[6] Oberlin Conservatory er meðal þeirra fyrstu, stofnuð 1865, sjá https://www.britannica.com/art/conservatory-musical-institution. Sótt 1. mars 2021.

[8] Szostak, Rick, Diagrams of the Interdisciplinary Research Process. https://sites.google.com/a/ualberta.ca/rick-szostak/research/about-inter.... Sótt 1. mars 2021.

[9] x

[10] Salisbury, Mark, How ‘Joker’ composer Hildur Gudnadottir’s music was used to inspire the actors on set. https://www.screendaily.com/features/how-joker-composer-hildur-gudnadott.... Sótt 1. mars 2021.

[11] Klein, Julie Thompson, Interdisciplinarity: History, Theory, and Practice (US: Wayne State University Press, 1990), 196.

[12] Schneber, Dieter (1968-74), sjá einnig: http://www.maulwerker.de/repertoire/R-schnebel-maulwerke.html

[13] Barthes, Roland, Image-Music-Text (London, Fontana Press, 1977), 155.

[15] Myndin er tekin á sýningunni New Release sem var hluti af Cycle hátíðinni 2015. Ekki er ætlunin að gera þessu verki hér ítarleg skil en það verður væntanleg gert í annarri grein.

[16] Klein, Julie T., Crossing boundaries: Knowledge, Disciplinary, and Interdisciplinarities (US: The University Press of Virginia, 1996), 50.

[18] © Einar Torfi Einarsson

[19] Hér er íslenskan ekki alveg í takt við heiminn því hér er enn -fræði viðskeytið til staðar.

[21] Mitt heiti á þeim er stunda gegnumfaglegar rannsóknir.

[22] Sjá t.d. í Mitchell, W.J.T., “Interdisciplinary and Visual Culture”, Art Bulletin, 77 (4), 1995. bls.541, þar sem talað er um jákvæðu hliðar þess að grafa holur inn í fögin, að einmitt slík starfsemi geta sprengt af sér veggi fagsins.

 

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Þræðir - forsíða
Þræðir - tölublað 6

Tölublað 6

Um höfunda