Samstarfsverkefni Skerplu, The International Contemporary Ensemble, Tri-Centric Foundation og Nokia Bell Labs Experiments in Art and Technology. 

20.apríl kl.23:00 - Málstofa um verk Anthony Braxton.
21.apríl kl.21:00 - Tónleikar í beinu streymi frá Hörpu. 
Á dagskrá eru verk eftir Anthony Braxton og Bergrúnu Snæbjörnsdóttur.

Undanfarna mánuði hefur tilraunahópurinn Skerpla unnið veigamikið samstarf með The International Contemporary Ensemble, Tri-Centric Foundation og Nokia Bell Labs Experiments in Art and Technology.  
Verkefnið byggir á tilraunum tónsmíðaaðferða og tónlistarflutnings í nútíma samfélagi og umbreytingu upplifunar bæði sem flytjandi og áheyrandi sér í lagi í stafrænu umhverfi. Þátttakendur samstarfsins eru staðsettir víðsvegar um heiminn en ferlið og æfingar hafa alfarið átt sér stað á stafrænum vettvangi. 
 

img_0313_1.jpg
 

Þann 21.apríl mun afrakstur samstarfsins líta dagsins ljós á tónleikum í beinu streymi frá Reykjavík, New York og versturströnd Bandaríkjanna. Verkið Ecognosis eftir íslenska tónskáldið, Bergrúnu Snæbjörnsdóttur, verður frumflutt af International Contemporary Ensemble. Bergrún starfar sem staðarlistamaður hjá hljómsveitinni sem óskaði sérstaklega eftir verki frá Bergrúnu til frumflutnings á viðburðinum. Bergrún er hollnemi tónlistardeildar LHÍ og hefur átt góðu gengi að fagna undanfarin ár. 

Á dagskrá er einnig verk eftir Anthony Braxton. Meðlimir Skerplu sjá um flutninginn auk International Contemporary Ensemble undir stjórn James Fei. Meðlimir Skerplu að þessu sinni eru þau Berglind María Tómasdóttir flautuleikari, klarinettuleikararnir Alvar Rosell Martin og John McCowen, Ana Luisa S. Diaz De Cossio fiðluleikari, sellóleikarinn Sigurður Halldórsson og píanóleikarinn Khetsin Chunchan. Tónleikarnir er hluti af tónlistarhátíðinni Myrkir Músíkdagar og er einn af tveimur streymisviðburðum hátíðarinnar í ár. Í ljósi aðstæðna hefur öðrum viðburðum hátíðarinnar verið frestað fram á næsta ár.  

Jafnframt veðrur haldin málstofa um verk Anthony Braxton þann 20.apríl kl.23:00 í beinu streymi. Berglind María Tómasdóttir verður fulltrúi LHÍ á málstofunni. Nánari upplýsingar um málstofuna ásamt hlekk á streymið má finna hér.
 

 
Skerpla

,,Skerpla er hópur tónlistarmanna með aðsetur við Listaháskóla Íslands. Meðlimir eru flestir nemendur, hollnemar og starfsfólk tónlistardeildar LHÍ en hópurinn á rætur sínar að rekja til námskeiðsins ,,Flytjandinn/tónskáldið" sem bættist á kennsluskrá deildarinnar árið 2017. Berglind María Tómasdóttir, prófessor og fagstjóri meistaranámsins NAIP, hafði umsjón með námskeiðinu. Námskeiðið er á kennsluskrá á hverri önn og er opið öllum nemendur Listaháskóla Íslands. Hópurinn hefur staðið að hinum ýmsu verkefnum undanfarin ár sem hafa verið eins fjölbreytt og þau eru mörg: frumsamdar hljóðesseyjur, fyrirmælaverk Atla Heimis Sveinssonar, flúxus-innblásnar vinnustofur og innsetningar í óhefðbundum rýmum eru á meðal viðfangsefna Skerplu. Við spurðum Berglindi Maríu nokkurra spurninga varðandi Skerplu, samstarfsverkefnið og það sem framundan er hjá tilraunahópnum Skerplu". 

Við byrjum á samstarfsverkefninu sem nú verður flutt þann 21.apríl næstkomandi. Hvernig kom samstarfið til? 

,,Samstarfið hefur átt sér langan aðdraganda, en ég og Ross Karre, listrænn stjórnandi International Contemporary Ensamble, vorum saman í námi við UCSD fyrir nokkrum árum og höfum talað um samstarf oft síðan. Og reyndar kom hann hingað á vegum Nordic Music Days árið 2016 og hélt fyrirlestra og vinnustofum á vegum tónlistardeildar LHÍ. International Contemporary Ensamble  hefur mikla tengingu við Ísland en þau hafa meðal annars flutt tónlist efir eitt af okkar stærstu tónskáldum, Önnu Þorvaldsdóttur, sem einnig er hollnemi LHÍ. Síðan small þetta saman í gegnum Myrka músíkdaga núna - þegar Ásmundur Jónsson hafði samband með verk Anthony Braxton í huga. Tónlist Braxton hentar einstaklega vel fyrir flutning af þessu tagi þ.e. í beinu streymi milli heimshorna".  
 

Hvernig hefur hinn stafræni vettvangur reynst ykkur í ferlinu og hvaða lærdóm telur þú að þátttakendur muni draga af þessari reynslu? 
 

,,Sú tækni sem við notumst við virkar vel og miklar framfarir hafa verið á þessu sviði - eðlilega þar sem mikið hefur á hana reynt meðan á heimsfaraldi hefur staðið". 

Hvað er framundan hjá Skerplu? 
 

,,Áfanginn Skerpla á þessari önn hefur verið mjög áhugaverður en gestakennarar voru Ben Frost og Bergrún Snæbjörnsdóttir sem einmitt á verk á tónleikunum í næstu viku. Svo höldum við áfram í haust og það er ýmist í farvatninu. Skerpla er áfangi sem kenndur er á hverri önn og er opinn nemendum við LHÍ úr öllum deildum. Ég hvet sérstaklega nemendur úr öðrum deildum að taka þátt. Á haustönn verðum við meðal annars í samstarfi við spænska hljóðlistamenn og munum vinna verk með þeim sem tengist Þingvöllum og því lífríki og sögu sem þar er að finna". 

Við hvetjum alla til þess að fygjast með þann 21.apríl næstkomandi. Hér má nálgast streymi.