Nótnaforlagið Universal Edition gefur út tónlist Veronique Vöku

Tónskáldið og hollneminn Verinoque Vaka gerði samning við útgáfufyrirtækið Universal Edition á dögunum. 
Fyrirtækið hefur verið starfandi frá árinu 1901 og er eitt alstærsta og virtasta nótnaforlag heims.
Á útgáfulista forlagsins má finna verk eftir tónskáld á borð við Gustav Mahler, Karlheinz Stockhausen og Luciano Berio.
Samstarf Verinoque Vöku við forlagið eru enn ein stórtíðindin í sögu íslenskra kventónskálda. 
 

veronique_vaka.jpeg
 

Veronique Vaka er fædd árið 1986. Hún hefur klassískan tónlistarbakgrunn en hún lærði á selló á sínum yngri árum. 
Hún lauk bakkalárnámi í tónsmíðum frá háskólanum í Montreal og síðar meistaranámi í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands. 
Veronique hefur átt góðu gengi að fagna undanfarin ár. Hún hefur meðal annars samið verk fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands, 
Sinfóníuhljómsveit Áhugamanna, Ensemble Paramirabo, Duo Harpverk, Ensemble Synaesthesis, Ensemble Adapter, Elektra Ensemble,
Caput Ensemble, Siggi String Quartet, Ensemble Dasein og Nordic Affect. Þá hefur hún samið fiðlukonsert fyrir Unu Sveinbjarnardóttur og
sellókonsert fyrir Sæunni Þorsteinsdóttur. Verkið Lendh eftir Veronique Vöku hefur notið mikillar hylli og hlaut tvær tilnefningar á liðnu ári,
annars vegar sem verk ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2020 og hins vegar til Nordic Council Prize 2020.

Á vefsíðu Veronique Vöku má sjá yfirlit yfir verk hennar ásamt myndböndum og hljóðupptökum frá tónleikum og öðrum flutningi nokkura verka.  
Þá verður verkið Sciftan eftir Veronique flutt á Myrkum músíkdögum þann 24.apríl.

Við óskum Veronique Vöku innilega til hamingju og óskum henni áframhaldandi velfarnaðar.