Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, afhenti Íslensku myndlistarverðlaunin við hátíðlega athöfn í Listasafni Íslands.

Óskum við Libiu Castro og Ólafi Ólafssyni til hamingju með verðlaunin en þau hafa verið stundakennarar við myndlistardeild um árabil. Einnig óskum við Unu Björg Magnúsdóttur til hamingju með hvatningarverðlaun ársins en ásamt því að vera fyrrum nemandi myndlistardeildar mun hún einnig sýningarstýra útskriftarsýningu BA nema í myndlist.

Tilkynningu verðlaunanna má lesa hér í heild sinni:

Libia Castro og Ólafur Ólafsson hlutu Myndlistarverðlaun ársins 2021 fyrir verkið Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland, í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhús og á götum úti við Stjórnarráð og Alþingi Íslands, 3. október 2020 í samstarfi við Listahátíðina Cycle og Listahátíð í Reykjavík.

Þá hlaut Una Björg Magnúsdóttir Hvatingarverðlaun ársins 2021 fyrir sýninguna Mannfjöldi hverfur sporlaust um stund, D40, í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, 16. jan. – 15. mars 2020.

Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá hlaut Heiðursviðurkenningu fyrir framlag sitt til íslenskrar myndlistar og er þetta í fyrsta skipti sem að Myndlistarráð veitir slíka viðurkenningu. Með viðurkenningunni vill ráðið heiðra listamann sem á að baki langan og farsælan feril og markað spor í sögu íslenskrar myndlistar.

„Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá á að baki yfir 20 einkasýningar á Íslandi, í Bandaríkjunum og Kanada. Þá hefur hún einnig tekið þátt í fjölda samsýninga bæði hér á landi og erlendis. Verk Kristínar má finna í helstu listasöfnum landsins en einnig í söfnum í Evrópu og Bandaríkjunum. Hefur hún hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar meðal annars silfurverðlaun Alþjólega textílþríæringsins í Lódz í Póllandi árið 1992. Kristín hefur verið virkur félagi í Textílfélaginu og var brautryðjandi hér á landi við gerð verka úr þæfðri ull.

Með íhugulum verkum sínum Kristín vakið okkur til umhugsunar um siðferðileg álitamál í fortíð og nútíð og beint sjónum okkar að tímanum og hverfulleikanum, viðkvæmri náttúru landsins og tjáningarríku tungumálinu. Auk þess hefur Kristín fært menningarsögulega mikilvægan efnivið, ullina, inn í samtímalistina og sýnt fram á hvílíkan fjársjóð við eigum í íslensku ullinni.„

Þá fékk Listasafns Reykjavíkur viðurkenningu fyrir útgáfu sem fylgir yfirlitssýningum á Kjarvalsstöðum á verkum myndlistarmanna á miðjum ferli.