Bókin Krossgötur – álfatrú, álfabyggð og bannhelgi á Íslandi eftir Bryndísi Björgvinsdóttur, fagstjóra fræða við hönnunardeild Listaháskóla Íslands og Svölu Ragnarsdóttur ljósmyndara hlaut nýverið þriðju verðlaun úr sjóðnum „Gjöf Jóns Sigurðssonar.“
Bókin fjallar um bústaði álfa og huldafólks og þá sérstöku siði sem mannfólkið hefur tileinkað sér í samskiptum við þessa yfirnáttúrulegu vætti. Í henni má finna ljósmyndir af og umfjallanir um fimmtíu og fjóra álfasteina, huldufólkskletta, dvergasteina og aðra bannhelgi, og áhrif þeirra á líf og framkvæmdir manna. 
Krossgötur kom út hjá Bjarti, Veröld árið 2018 en hönnun og umbrot var í höndum Studio Studio sem samanstendur af þeim Birnu Geirfinnsdóttur dósent í grafískri hönnun og Arnari Frey Guðmundssyni stundakennari við hönnunardeild Listaháskóla Íslands.
 

Gjöf Jóns Sigurðssonar

Sjóðurinn Gjöf Jóns Sigurðssonar var stofnaður árið 1881 samkvæmt erfðaskrá ekkju Jóns Sigurðssonar, Ingibjargar Einarsdóttur. Sjóðurinn sem er starfræktur af Alþingi veitir viðurkenningar fyrir útgáfur og rit um sögu Íslands, bókmenntir, lög, stjórn eða framfarir. Úthlutað er úr sjóðnum á tveggja ára fresti og er nefnd hans kosin af Alþingi en nú sitja Sturla Böðvarsson, Halldór Gunnarsson og Sigrún Magnúsdóttir í verðlaunanefnd.
Í desember 2020 voru veitt verðlaun fyrir 19 rit sem komið hafa út á síðustu tveimur árum. Fyrstu verðlaun nema 1.200.000 kr, önnur verðlaun 800.000 kr og þriðju verðlaun 500.000 kr. Þá voru veittar 200.000 kr í verðlaun fyrir eitt handrit í smíðum. Hægt er að lesa sér til um verðlaunahafa hér: https://tidin.is/verdlaun-ur-sjodnum-gjof-jons-sigurdssonar/

 

Bryndís Björgvinsdóttir

Bryndís er rithöfundur, sagnfræðingur og þjóðfræðingur. Rannsóknir, kennsla og skrif Bryndísar fjalla um þjóðfræði, menningarfræði, heimspeki, bókmenntir og fræði- og skáldskaparskrif. Árið 2014 gaf hún út unglingabókina Hafnfirðingabrandarinn en fyrir hana hlaut hún bæði Íslensku bókmenntaverðlaunin og Fjöruverðlaunin. Hún hefur einnig ritstýrt bók hönnuðarins Gísla B. Björnssonar, Merki og tákn og vinnur nú að bók um ævi og störf grafíska hönnuðarins Kristínar Þorkelsdóttur sem hlaut á dögunum Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands 2020. Verk Bryndísar á sviði þjóðfræði og skáldskapar hafa verið birt víða um heim.
 

Hér má finna upptöku frá fyrirlestri Bryndísar Björgvinsdóttur „Nágrannar: Áhrif álfabyggða á umhverfi og menningu.“ þar sem fjallað var um bókina Krossgötur: álfatrú, álfabyggðir og bannhelgi á Íslandi og þá rannsóknarvinnu sem liggur að baki henni.
Listaháskólinn óskar Bryndísi og Svölu innilega til hamingju með verðlaunin.