Jafnréttisdagar ávarp rektors Listaháskóla Íslands

 
 
 

 

 
 
 
Hér má lesa ávarpið í fullri lengd.
 
Í Dýrabæ George Orwells, þeirri heimsfrægu háðsádeilu, er loforð um jafnrétti upphaf samstöðu þeirra kúguðu. Slagorð bæjarins er í samræmi við það: "Öll dýrin eru jöfn". Það líður þó ekki á löngu þar til leiðtogi umbótaaflanna bregst í hlutverki sínu og bætir við; "en  sum dýr eru jafnari en önnur".
 
Í viðbótinni liggur lykillinn að því því hversu erfiðlega gengur að koma á fullkomnu jafnrétti í okkar ófullkomna heimi. Samfélagið er hvikult og valdið til að leiða það enn hvikulla. Misrétti hefur því í gegnum aldanna rás beinst að allskonar og mjög ólíkum þjóðfélagshópum, allt eftir tíma og tíðaranda. Misrétti er vitaskuld gríðarlega neikvætt afl. Og í samræmi við það er því iðulega beitt sem sundrungarafli, í valdabaráttu og hagsmunavörslu, til að ná tökum á auðævum eða öðlast forréttindi af einhverju tagi. Loks sprettur misrétti svo stundum einfaldlega  af fáfræði eða djúpstæðri sögu fordóma sem flestir hafa jafnvel gleymt hvaðan spruttu.
 
Jafnrétti í dag grundvallast því ekki einungis á stefnumótum samfélagsins, heldur einnig á því að hver og einn geri upp við sína eigin fordóma. Átti sig á því að manngildi byggir ekki á trú, kynhneigð, litarhætti, kyni, þjóðerni, móðurmáli, fötlun, stétt eða efnahag.
 
Meira að segja í okkar smáa og tiltölulega einsleita samfélagi getur veigamikill þáttur menningarinnar, svo sem tungumálið haft sínar neikvæðu afleiðingar án þess að við veltum því mikið fyrir okkur. Hugsunarlaus orðanotkun getur til að mynda verið mjög særandi. Sömuleiðis getur tungutak sem byggir á hugmyndum fyrri tíma búið til óþarfar hindranir; oft tungutak sem byggir á aðgreiningu frekar en samlögun, á flokkun frekar en einingu. Við eigum til að mynda mörg orð yfir þá sem ekki eru fæddir hér á landi en vilja taka sér hér bólfestu. Sumir eru innflytjendur svo dæmi sé tekið, á tímabili voru einhverjir nýbúar og enn einn hópurinn sem mikið er rætt um nú eru flóttamenn. Skilgreiningarnar skýra vissulega stöðu einstaklinga innan tiltekins manngerðs ramma. En þær taka lítið tillit til kjarna mennskunnar sem er okkur öllum sameiginlegur og markar grundvöll jafnréttis.
 
Nýverið sá ég spurt af hverju við værum ekki bara öll "innlendingar" og kæmum þannig í veg fyrir slíka flokkadrætti og gildislægar skilgreiningar. Innlendingar væru þá allir þeir sem sem eiga það sameiginlegt að búa á Íslandi hverju sinni, án tillits til uppruna og annarra þátta sem greina okkur að.  
 
Slík lausn, eins snjöll og hún annars er, breytir þó auðvitað ekki miklu um innbyggða fordóma hvers samfélags. Auðvitað aðstoða lög, reglur og viðmið um jafnrétti okkur við að stemma stigu við fordómum. En mestu ræður þó afstaða okkar sjálfra, sem einstaklinga, til náungans. Við þurfum að þjálfa okkur í að horfa á manngildið í öllu okkar samferðafólki og rækta um leið með okkur virðingu fyrir fjölbreytileikanum í öllu sínu veldi.
 
Með því að virða alla til jafns, leyfa hverjum og einum að njóta hæfileika sinna sem best og deila sínum mannkostum, drögum við fram mestu styrkleika hvers samfélags. Okkur má einu gilda hvort um er að ræða hana, hann eða hán, hvernig litaraftið er, uppruninn eða atgervið.
 
Notum því tækifærið á jafnréttisdögum til að minna okkur á, rifja upp, kryfja, læra og greina samtalið um þetta brýna málefni, svo við höldum öll áfram að þroskast og eflast. Tökum tillit, opnum arma okkar og fögnum fjölbreytileikanum þannig að allir njóti sín til fullnustu, við nám, leik og störf undir merkjum jafnréttisins.
 

Fríða Björk Ingvarsdóttir