Vá!

Greinasafn um fagurfræði náttúrunnar 

 
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir er lektor við listkennsludeild LHÍ og doktor í heimspeki.
 
Guðbjörg gaf nýverið út safn greina um fagurfræði náttúrunnar og gildi þeirrar fegurðar. Greinasafnið ber yfirskriftina: Vá! Ritgerðir um fagurfræði náttúrunnar. 
 
screenshot_2021-01-12_at_15.08.56.png
 

 

„Fegurð, landslag og líkamleg, skynjuð þekking hafa mun meiri áhrif á líf okkar og lífsgæði en við gerum okkur yfirleitt grein fyrir, en hingað til hefur skort orðræðu sem leyfir okkur að taka þessi fyrirbæri og gildi þeirra alvarlega,“ segir Guðbjörg. 
 
Hvers vegna segjum við: „Vá!“ frammi fyrir ægifögru landslagi? Hvað meinum við með því? Við erum sammála um að upplifun af náttúrufegurð hefur ótvírætt gildi fyrir okkur sem einstaklinga og fyrir samfélagið í heild en hvernig getum við rætt um slíka upplifun og þar með rökstutt verndun náttúrufegurðar?
 
Í ritgerðunum sem safnað er saman í bókinni er leitast við að svara spurningum sem þessum með greiningum á þeim upplifunum, hugtökum og orðræðu sem vekja þær.
 
„Bókin er hluti af ritröð Heimspekistofnunar sem er útgáfuvettvangur fyrir rannsóknir félaga stofnunarinnar,“ segir Guðbjörg en það var Gunnar Harðarson, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands sem ritstýrði.  
 
Ritgerðirnar í bókinni eru afrakstur doktorsrannsóknar við heimspekideild Háskóla Íslands, en rannsóknin fór fram á árunum 2008 til 2015 og einnig nýdoktorsrannsóknar Guðbjargar við Heimspekistofnun HÍ sem hófst árið 2015 og lauk á síðasta ári 2020. Ritgerðirnar hafa flestar komið út áður í öðrum útgáfum, tímaritum og bókum, á árunum 2010-2020.
 
„Doktorsrannsóknin Icelandic Landscapes: Beauty and the Aesthetic in Environmental Decision-making  fjallaði um fagurferðilegt gildi landslags og stöðu þess innan ákvarðanatökuferla í umhverfismálum“ útskýrir Guðbjörg en kjarni rannsóknarinnar fólst í greiningu á hugtökunum fegurð og landslag, sem og á upplifunum fólks af íslensku landslagi, út frá fyrirbærafræðilegu sjónarhorni.
 
„Nýdoktorsrannsóknin Mannskilningur-náttúruskilningur-sjálfsskilningur: Mikilvægi skynjaðrar þekkingar í þverfaglegu samtali um umhverfismál  fjallaði um mikilvægi skynjaðrar þekkingar á tengslum manns og náttúru til jafns við þá röklegu og vísindalegu þekkingu sem hefur hingað til leikið aðalhlutverkið í glímu mannkyns við þá umhverfiskrísu sem blasir við.  
 
„Með útgáfunni vonast ég til að stuðla að aukinni og dýpri umræðu um fegurð, landslag og þá skynjuðu þekkingu sem við getum öðlast í gegnum fagurferðilegar upplifanir okkar, hvort sem er af náttúru eða listum.“  
 
thumbnail.jpeg
Mynd: Leifur Wilberg Orrason

 

 
Bókina má ennfremur nálgast hjá Bóksölu stúdenta og í Pennanum.