Alþjóðavæðing háskólanna
rafræn málstofa 28.janúar
Kl. 13:00 - 16:00

Frekari upplýsingar um dagskrá og skráningu má finna hér. 

Ráðgjafanefnd gæðaráðs íslenskra háskóla heldur árlega málstofu þann 28. janúar en í ár beinir hún sjónum sínum að alþjóðavæðingu háskóla. 
Ráðstefnan verður rafræn að þessu sinni og hefst kl. 13:00.  

Alþjóðavæðing háskólanáms hefur verið skilgreind sem samþætting alþjóðlegrar og menningarlegrar víddar í allri starfsemi háskóla, þ.e. kennslu, rannsóknum og þjónustustörfum.
Skilgreiningin getur falið í sér einn eða fleiri af eftirfarandi þáttum:

  • alþjóðlega þátttöku kennara (bæði í rannsóknum og kennslu)
  • aðgengilegar alþjóðlegar námsleiðir
  • samþættingu alþjóðlegra nemenda og kennara í störfum háskólans
  • nemendagarða og samtök námsmannaþar sem allir eiga jafnan rétt. 

Við mótun alþjóðanáms er mikilvægt að byggja á þeirri fjölbreyttu þekkingu sem mismunandi nemendahópar búa yfir og leitast við að þróa fjölmenningarlegt námssamfélag þar sem fjölbreyttir nemendahópar taka virkan þátt. Í málstofunni er kannað hvort að alþjóðavæðing í íslensku háskólasamfélagi geti aukið gæði kennslu en þá verður sjónum sérstaklega beint að nýjum tækifærum í samstarfi evrípskra háskóla og þörfinni fyrir að þjóna aukinni fjölmenningu heima fyrir. 
 

siggi_h.jpg
 

Sigurður Halldórsson, prófessor og fagstjóri alþjóðlegs meistaranáms í sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi (NAIP), er fulltrúi LHÍ á ráðstefnunni og tekur þátt í pallborðsumræðum þann 28.janúar. 
Í meistaranámi NAIP sem kennt er við tónlistardeild LHÍ hefur Sigurður lagt ríka áherslu á samstarf erlendra háskóla sem einnig bjóða upp á sömu námsleið á meistarastigi. Samstarfið hefur veitt nemendum fjölmörg tækifæri og opnað ýmsa möguleika bæði á erlendum og innlendum vettvangi. Þá hafa nemendur kynnst ólíkum tónlistarstílum, aðferðum og skilyrðum sköpunnar í gegnum samstarfið og fjölbreytni verið ríkjandi. 
 

Meistaranám í sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi (NAIP)

Evrópskt meistaranám í Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi (New Audiences and Innovative Practice - NAIP) er tveggja ára nám til 120 eininga og er sett á fót til að mæta auknum kröfum samfélagsins um hæfni tónlistarmanna til að starfa við fjölbreytilegar og þverfaglegar aðstæður. Námið er einnig vettvangur fyrir nýjar aðferðir í tónlistariðkun, sköpun og miðlun þar sem hver nemandi getur þróað og unnið með sína hugmynd, starfsemi, aðferð og/eða rannsókn. Námið fer fram í samvinnu við fleiri listaháskóla í Evrópu. Námið hentar tónlistarmönnum með fjölbreytilegan bakgrunn, bæði sem flytjendur og tónsmiðir, sem hafa skýra sýn, hæfni og köllun til að feta nýjar brautir í að vinna með tónlist og tónlistariðkun í þágu samfélagsins. Þeir fá þjálfun í listrænni stjórnun, verkefnastjórnun, frumkvöðlastarfi og starfendatengdum rannsóknum. Unnið er að samstarfsverkefnum milli ólíkra tónlistarstíla, listgreina og hvers konar hópa samfélagsins með það að markmiði að nálgast nýja áheyrendur, efla áræði og dug til að gerast leiðtogar á sínu sviði og þróa sífellt nýjan vettvang fyrir listsköpun í fjölbreyttu samhengi.