Meistaraverkefni fá viðurkenningu skóla- og frístundaráðs: Tvö af sjö verðlaunaverkefnum koma úr listkennsludeild LHÍ

 
 
Höfundar sjö meistaraverkefna í leikskóla-, grunnskóla-, og frístundafræðum fá viðurkenningu skóla- og frístundaráðs 2020, hver um sig 250.000 krónur.
 
Viðurkenning fyrir meistaraprófsverkefni er liður í því að hvetja til og auka hagnýtingu rannsókna í fagstarfi með börnum og unglingum og vekja athygli á skóla- og frístundastarfi í Reykjavík.
 
Þau meistaraverkefni sem fá viðurkenningu eru öll unnin á vettvangi Reykjavíkurborgar. Dómnefnd, skipuð sérfræðingum í starfi leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs fór yfir umsóknir og valdi sjö verðlaunaverkefni. 
 
Tvö af sjö verkefnum koma úr listkennsludeild Listaháskóla Íslands og eru það þær Helga Þórdís Guðmundsdóttir og Ingunn Elísabet Hreinsdóttir sem báðar hlutu verðlaun og viðurkenningu fyrir lokaverkefni sín, en þær útskrifuðust frá deildinni árið 2020.
 
Hér má lesa nánar um verkefnin og alla verðlaunahafa í frétt Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. 
 
 
Umsögn um verkefnin, texti fenginn af vef Skóla- og frístundasviðs:
 
Helga Þórdís Guðmundsdóttir fær viðurkenningu fyrir meistaraverkefnið Hljómleikur sem lokið var við listkennsludeild Listaháskóla Íslands.
 
Það er kennslubók í ukulele- og hljómborðsleik fyrir byrjendur á miðstigi grunnskóla eða forskóladeildir tónlistarskóla. Um er að ræða mjög vandað kennsluefni sem auðveldar kennurum að vefa tónlistariðkun og söng inn í starf með börnum og ungmennum.
 
Nánari upplýsingar um verkefnið á Skemmu og af vef LHÍ.
 
mynd_2011.jpg
Helga Þórdís Guðmundsdóttir

 

Ingunn Elísabet Hreinsdóttir fær viðurkenningu fyrir verkefnið Skapandi dans – Mótun handbókar fyrir danskennara í grunnskólum.
 
Verkefnið er unnið við listkennsludeild Listaháskóla Íslands og er verkfæri í formi handbókar fyrir kennara til þess að sinna danskennslu í grunnskólum, ekki bara dansins vegna heldur vegna sköpunarinnar, hreyfingarinnar, tilfinningaþroska og jákvæðra áhrifa dansins á allt nám ef vel er staðið að.
 
Nánari upplýsingar um verkefnið á Skemmu og af vef LHÍ
 
thumbnail_img_0221.jpg
Ingunn Elísabet Hreinsdóttir

 

 
 

Listaháskólinn og listkennsludeild óska þeim Helgu Þórdísi og Ingunni Elísabetu hjartanlega til hamingju með viðurkenninguna.