Sól Hilmarsdóttir er sjónlistakona og meistaranemi í listkennsludeild Listaháskóla Íslands.

 
Sól Hilmarsdóttir vann nýverið til verðlauna fyrir myndskreytingu á barnabókinni Vala víkingur og Miðgarðsormurinn en hún myndskreytir allar myndirnar í bókinni.
 
adalmynd.jpg
 

 

 
Bakgrunnurinn Sólar er klassísk teiknimyndagerð og myndskreyting; hún lærði teiknimyndagerð í Vancouver og teikningu í MIR og Leeds. En hvers vegna ákvað hún að fara í listkennslu í LHÍ?  
 
 
„Ég byrjaði að vinna með börnum og sá um listsköpun með þeim, það heillaði mig svo mikið að ég tók þá ákvörðun að fá mér kennsluréttindin og gera þetta að starfsferil“, segir Sól en áður en hún hóf nám í listkennsludeild starfaði hún aðallega sem freelance teiknari og gerir enn.
 
 
„Ég vinn mikið með útgáfufyrirtæki sem heitir Drápa og einnig með litlu útgáfufyrirtæki úti í Englandi sem gefur út sögur á Amazon“ segir Sól en hún hlaut einmitt viðurkenningu frá útgáfufyrirtækinu Drápu fyrir bestu myndskreytingu á bókinni um Völu víking og myndskreytti einnig verkið sem hlaut titilinn besta bókin: Sá stóri, sá missti og sá landaði, eftir Sigurð Héðinsson. 
 
 
124683994_3782146271844822_6348617292029822520_o.jpg
Verðlaunagripir frá Drápu

 

 

Hetja sem ungar stelpur geta tengt við

 
Vala víkingur er hugmynd sem fæddist hjá Sól og vini hennar, Kristjáni Má Guðmundssyni.
 
img_4507.jpg
Kristján Már Guðmundsson og Sól Hilmarsdóttir

 

 
„Okkur langaði að opna fyrir norræna goðafræði fyrir börn. Hugmyndin að Völu er lítill grallari og er hún með prakkara fíling yfir sér. Við vildum hetju sem ungar stelpur geta tengt við“ útskýrir Sól sem teiknaði alla bókina, Kristján Már skrifaði og Arndís Lilja Guðmundsdóttir sá um hönnun og umbrot á bókinni. 
 
 

 

Teikning mikilvæg fyrir tilfinningalega tjáningu barna

 
Sól er á lokaári í meistaranáminu og segir hún upplifunina af náminu hingað til vera ótrúlega:  
 
„Ég vissi ekki að þetta yrði svona áhugavert og skemmtilegt nám, kennararnir eru svo áhugasamir og skemmtilegir, þeir eru alltaf til staðar til að hjálpa manni með verkefni og spurningar sem koma upp.“ 
 
 
Framundan á vorönn hjá sjónlistakonunni og verðandi kennaranum er vinna við lokaverkefni og jafnvel frekari bókaútgáfa.
 
„Ég er mjög spennt að byrja á lokaverkefninu og er einmitt að einblína á mikilvægi teikningu fyrir tilfinningalega tjáningu barna. Einnig eru vonandi fleiri bækur á leiðinni, þrátt fyrir kennsluréttindi þá held ég að teikning og sköpun verði alltaf í forgangi hjá mér. Við erum líka að ræða bók númer tvö af Völu, þar sem við kynnumst nýju goði og nýjum ævintýrum.“  
 
 
 
67926161_10156255433445598_7375127616589660160_n.jpg
 

 

Fyrir fleiri teikningar og vinnu er hægt að fylgjast með á Instagram: @Solahilmarz_illustrations eða á heimasíðu Sólar.