Hlutverk

Siðanefnd Listaháskólans starfar samkvæmt gildandi siðareglum LHÍ. Nefndin tekur til skoðunar ábendingar um brot á siðareglum og tekur afstöðu til þess hvort um brot á siðareglum sé að ræða. Nefndin heldur málaskrá þar sem skráðar eru ábendingar sem nefndinni berast, málsmeðferð og ákvarðanir um lok máls. Formaður nefndarinnar ritar fundargerðir.

Nefndarmaður skal víkja sæti og boða varamann komi til þess að fjallað sé um málefni þeirrar deildar eða sviðs sem nefndarmaður tilheyrir, að öðru leyti skal farið eftir reglum stjórnsýslulaga varðandi hæfi nefndarmanna.

Skipan

Í siðanefnd sitja fjórir aðilar, einn utanaðkomandi aðili, tveir fulltrúar starfsmanna og formaður stúdentaráðs LHÍ. Fagráð skipar í nefndina. Fulltrúar eru skipaðir til tveggja ára í senn og skulu þeir hafa varamann. Gæta skal sem mest jafnvægis varðandi skipan eftir deildum.

Tilkynningar

Hverjum þeim sem telur að siðareglur séu brotnar er heimilt að leggja mál fyrir siðanefnd. Ábending skal berast formanni nefndarinnar með skriflegum hætti þar sem tilefni hennar er lýst og meint brot á siðareglum tilgreind. Siðanefnd er heimilt að óska frekari gagna sé þess þörf.

Málsmeðferð

Formaður siðanefndar boðar til fundar berist nefndinni ábending. Nefndin skal taka mál til skoðunar sem henni berast, gæta jafnræðis og meðalhófs og skila af sér niðurstöðu svo fljótt sem verða má. Mál sem berast nefndinni og snerta ekki siðareglur skal vísað frá nefndinni og þeim sem ábending barst frá tilkynnt um þau málalok.

Verði mál tekið til formlegrar meðferðar skal nefndin safna sem nákvæmustum upplýsingum um málsatvik. Í því getur falist að krefja þann sem ábendinguna ber fram um frekari upplýsingar og/eða óska eftir gögnum sem málið varðar í skjalasöfn LHÍ. Siðanefnd getur leitað álits aðila innan sem utan LHÍ sé til þess ástæða. Sinni upphafsmaður málsins ekki óskum nefndarinnar máli sínu til stuðnings eða verði mál að öðru leyti ekki nægilega upplýst er siðanefnd heimilt að vísa því frá.

Siðanefnd skal skýra þeim aðila/um sem málið varðar frá framkominni ábendingu og afstaða hans/þeirra könnuð liggi hún ekki þá þegar fyrir. Verði ekki brugðist við óskum nefndarinnar skal nefndin byggja niðurstöðu sína á fyrirliggjandi upplýsingum.

Í niðurstöðu málsins skal taka rökstudda afstöðu til þess hvort um brot á siðareglum LHÍ er að ræða. Þar skulu málsatvik rakin og þær reglur sem brotið er gegn skulu tilgreindar. Jafnframt skal tilgreint ef brot eru ítrekuð.

Niðurstaða siðanefndar skal vera skrifleg og tilkynnt málsaðilum, rektor og stjórnanda viðkomandi deildar/sviðs. Nefndin getur ákveðið að gögn eða niðurstaða einstakra mála sé trúnaðarmál. Niðurstaða siðanefndar er endanleg og verður ekki áfrýjað.

Viðurlög

Viðurlög við brotum á siðareglum kunna að vera:

·Áminning

·Tímabundin brottvikning verði ekki brugðist við áminningu

·Varanleg brottvikning verði ekki brugðist við áminningu

·Fyrirvaralaus tímabundin eða varanleg brottvikning.

Viðbrögð við brotum á siðareglum LHÍ eru ákveðin af rektor og stjórnanda viðkomandi deildar/sviðs sem heimild hafa til að veita nemanda/starfsmanni áminningu eða víkja úr námi eða starfi.