Profondo Blu
Ingibjörg Elsa Turchi

,,Þau hljóðfæri sem urðu fyrir valinu eru: bassaflauta, bassaklarínett, básúna, túba, víóla, kontrabassi, breytt píanó og slagverk. Því sá ég fyrir mér það augljósa, sem var að ég myndi rannsaka dýptina og „drón” og svo þá yfirtóna sem kæmu úr því. Einnig hafði ég það til hliðsjónar að nokkur hljóðfæranna komast alveg tiltölulega hátt og þá eru það andstæðurnar sem ég er að kanna. Spurningarnar sem ég lagði fyrir mig voru: hvað er að gerast, hvað er ekki að gerast, er ákveðinn hrynur o.s.frv. Ég er mjög hrifin af extended technique margs konar og eru nokkur tækniatriði á þau hljóðfæri sem ég valdi í algjöru uppáhaldi. Einnig setti ég hljóðfærin upp í grúppur, tvö tréblásturshljóðfæri, tvö málmblásturshljóðfæri, tvö strengjahljóðfæri og svo eru píanó og slagverk í sama hóp. Þannig að á einhverjum stöðum í verkinu fylgjast þau að, en svo paraði ég líka saman hljóðfæri úr ólíkum hljóðfærafjölskyldum og spila þau saman líka. Það sem ég var að reyna að leitast við var það að reyna að njóta þess sem gerist á milli A og B. Endapunkturinn er ekki endilega hápunkturinn, framvindan er það sem skiptir máli. Ég hafði það í huga að hápunktar sem slíkir gætu birst á fjölmarga vegu; það gæti verið í þögn, í breyttri áferð eða skyndilegum atburðum. Verkið sjálft byggist upp á hljómum og vefjum sem ferðast saman og ýmist þjappast saman eða þenjast út í ferlinu. Það hljómakort sem ég lagði upp með í byrjun lá til hliðsjónar og svo vann ég með það á ákveðinn hátt þegar ég var búin að koma því öllu niður á blað. Tilraun mín var að hafa mjög mikið flæði gegnumgangandi en svo kemur þessi ákveðni samhljómur eða samspil til að brjóta það upp. Í ákveðnum kafla í verkinu vinn ég með fígúrur sem ég setti upp á hverja nótu fyrir sig og hvert hljóðfæri. Afleiða af þeirri vinnu var að mig langaði að byrja einn kafla á því að það væru engir eiginlegir tónar heldur aðeins loftkennd hljóð sem myndu byggjast upp og smám saman fengju þau tónana sem ég var búin að setja þeim. Þetta var tilraun til að ferðast með áferðina frá engum tónum til hreinna tóna og sjá hvort mér tækist sú tilraun"

 
ingibjorg_elsa_minni.jpg
 
Ingibjörg Elsa Turchi , bassaleikari og tónskáld hóf tónlistarnám í forskóla Tónskóla Sigursveins á blokkflautu og lærði svo á hin ýmsu hljóðfæri, s.s. flautu, píanó, gítar, harmonikku og svo rafbassa. Á ferli sínum hefur Ingibjörg spilað á bassa með mörgum af ástsælustu listamönnum þjóðarinnar eins og Bubba Morthens, Stuðmönnum, Emilíönu Torrini og Teiti Magnússyni, svo fátt eitt sé nefnt. Hún hefur spilað inn á fjölmargar plötur og með hljómsveitum hinna ýmsu listamanna í öllum straumum og stefnum, spilað í leikhúsum og gjörningum og árið 2017 hóf hún svo sinn sólóferil með útgáfu 7 tommu plötunnar Wood/work og gaf hún út sína fyrstu LP-plötu í júlí 2020 að nafni Meliae. Hún heldur úti eigin hljómsveit undir formerkjum spuna- og djasstónlistar. 
 
Ingibjörg lagði stund á bassanám í Tónlistarskóla FÍH og hljóðfæratónsmíðar í Listaháskóla Íslands undir leiðsögn Þuríðar Jónsdóttur og Páls Ragnars Pálssonar og útskrifaðist með BA-gráðu í tónsmíðum 2020. Mun hún einnig ljúka rytmísku kennaraprófi 2021. Þá lærði hún á rafbassa m.a. undir leiðsögn Skúla Sverrissonar og Sigurðar Flosasonar. Einnig er hún með BA-gráður í latínu og forn-grísku frá HÍ og að auki er Ingibjörg einn stofnmeðlima Stelpur rokka! félagasamtaka sem hófu störf árið 2012.