Á hreindýraslóðum  
Eðvarð Egilsson

Árið 1943 lögðu þeir félagar Helgi Valtýsson rithöfundur, Torfi Guðlaugsson verslunarmaður og Eðvarð Sigurgeirsson ljósmyndari ásamt fylgdarmönnum í einn af fjölmörgum leiðangra þeirra upp á öræfi Íslands umhverfis Snæfell í svonefndum Kringilsárrana, en þar voru aðal heimkynni hreindýra á sumrum. Markmið þessara ferða var að rannsaka stofn hreindýra á Íslandi á þessum tíma og skrá jafnframt allar helstu upplýsingar um lifnaðarhætti þeirra. Kringilsárrani var friðaður allt fram til ársins 2006, en þá hófust miklar framkvæmdir vegna umdeildrar uppbyggingar Kárahnjúkavirkjunar og má segja að þá hafi þessu einstaklega mögnuðu landsháttum verið drekkt í aurvatni Hálslóns, en mannvirkið hefur verið nefnt einhver stærsta mannlega framkvæmd Íslandssögunnar og um leið... umdeildasta. Gildi Kringilsárrana fólst ekki aðeins í einstæðum jarðminjum og gróðurfari, heldur einnig í því að það gróðurfar og skjól í þeim hluta hans, sem hallaði niður að Jöklu, 
tryggði tilveru dýranna, sem annars voru í útrýmingarhættu hér á landi.

 
ee_mynd_2.jpg
 

 

Eðvarð Egilsson (f. 1989) er tónskáld búsettur á Seltjarnarnesi. Eðvarð bjó um árabil í Los Angeles þar sem hann starfaði með hljómsveit sinni Steed Lord, en flutti heim fyrir 3 árum síðan, settist á skólabekk og lauk nýverið BA gráðu í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands undir leiðsögn Páls Ragnars Pálssonar.  Eðvarð hefur samið tónlist við verkefni eins og sjónvarpsþættina Líf Kviknar, sem hlaut Edduverðlaunin 2019 sem besti mannlífs-þáttur ársins, samdi tónlist við leiksýninguna Útsendingu, sem sett var upp á stóra sviði Þjóðleikhússins síðastliðinn vetur og margt fleira. Hefur samið tónlist fyrir stórar auglýsingaherferðir aðila eins og Lincoln, Mercedes-Benz, Bank of Communications, tölvuleikinn Pro Evolution Soccer frá Konami og sömuleiðis myndir eins og Dögun (Riff 2018), dansþáttaröðina So You Think You Can Dance, herferð Jafnréttisstofu „Þú átt von“ og sjónvarpskvikmyndina Ég gafst ekki upp. Eðvarð vinnur nú að tónlist fyrir íslensku kvikmyndina Skjálfta og nýja þáttaröð fyrir Sjónvarp Símans.

ee_mynd_1.jpeg