Hádegisfyrirlestur 5.febrúar
12:45 - 13:45 í beinu streymi frá vef skólans.

Tónlistarfræðingurinn Árni Heimir Ingólfsson fjallar um handritið ,,Melódía'' og erlend sönglög á Íslandi á 16. og 17. öld. Fyrirlesturinn fer fram á ensku.

Handritið Melódía hefur að geyma 223 lög og er merkasta heimild um tónlistariðkun á Íslandi á 17. öld. Í yfirskrift handritsins segir að það hafi að geyma „útlenda tóna“ en fram á síðustu ár var allt á huldu um uppruna þeirra. Smám saman hefur komið í ljós að lögin eiga uppruna sinn í prentuðum nótnabókum frá meginlandi Evrópu, aðallega Þýskalandi og Frakklandi. Í fyrirlestrinum mun Árni Heimir Ingólfsson fjalla um handritið og rannsóknir sínar á því. Einkum mun hann segja frá nýrri uppgötvun varðandi lag sem fram til þessa hefur verið talið af ókunnum uppruna, en er í raun mótetta eftir eitt frægasta tónskáld Niðurlanda um miðja 16. öld.
 
Árni Heimir Ingólfsson tónlistarfræðingur er listrænn ráðgjafi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hann hefur ritað fjórar bækur um tónlist sem allar hafa hlotið mikið lof og fjölmargar viðurkenningar. Sú nýjasta, Tónlist liðinna alda, Handrit 1100–1800, var nýverið tilnefnd til Viðurkenningar Hagþenkis, Félags höfunda fræðirita og kennslugagna. Hann hefur tvívegis hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir geisladiska með tónlist úr fornum íslenskum handritum, og tvisvar verið tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Árni Heimir lauk doktorsprófi frá Harvard-háskóla og var um skeið dósent og síðar gestaprófessor við tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Hann hefur gegnt stöðu gestafræðimanns við háskólana í Oxford og Boston og haldið fyrirlestra um tónlist víða um heim, m.a. í Bandaríkjunum, Bretlandi, Svíþjóð, Sviss og Japan. Skólaárið 2019–20 er hann gestafræðimaður við Yale-háskólann í Bandaríkjunum.