Tveir nemendur við listkennsludeild LHÍ búa til danssmiðju fyrir eldri borgara
 
Guðrún og Ingunn Elísabet kynntust í meistaranámi sínu í listkennslu við Listaháskóla Íslands. Sameiginlegur áhugi þeirra á hreyfingu, virkni og áhrifum hennar á líðan og upplifun einstaklingsins á heiminum og sjálfinu leiddi þær saman. Bakgrunnur þeirra er dans og danskennsla og ætla þær að nýta sér þá þekkingu við vinnslu smiðjunnar. Þær vita að hreyfing er mikilvæg fyrir alla aldurshópa og ekki síst þá eldri þar sem reglubundin hreyfing getur haft áhrif á jafnvægi og virkni hugans.
 
„Það má segja að þetta hafi byrjað í  janúar, síðastliðnum, þegar dansskólinn Óskandi á Eiðistorgi bauð upp á námskeið fyrir eldri borgara sem tilraunverkefni. Það verkefni gekk vonum framar og var námskeiðið vel sótt. Það sýndi að áhugi væri í samfélaginu fyrir dansi og hreyfingu fyrir þennan aldurshóp,“ segja þær Guðrún og Ingunn en Hrafnhildur, framkvæmdarstjóri Dansgarðsins, er umsjónarmaður verkefnisins. Guðrún Óskarsdóttir og Ingunn Elísabet Hreinsdóttir sjá um mótun og þróun danssmiðjunnar.
 
Dansgarðurinn fékk nú á dögunum styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að búa til sex vikna Danssmiðju fyrir eldri borgara. Við sköpun smiðjunnar verður lögð megináhersla á að auka vellíðan, félagsleg samskipti, líkamsmeðvitund, styrk, þol og að þátttakendur smiðjunnar fái tækifæri til að hreyfa sig út frá eigin færni.
 
Dansgarðurinn samanstendur af Klassíska listdansskólanum, Óskandi, Forward Youth Company og Dans fyrir alla. Dansgarðurinn hefur hingað til einbeitt sér að þjónustu við börn og ungmenni og að gera danskennslu aðgengilega sem flestum. Eitt af markmiðum Dansgarðsins er að svara samfélagslegum þörfum á sviði dans - og sviðslistar. Með þessum stuðningi gefst Dansgarðinum tækifæri til að þróa og þjóna eldri borgurum enn frekar.
 
 
Fyrir frekari upplýsingar er hægt að hafa samband í gegnum netfangið ingunn.elisabethreinsdottir [at] gmail.com (), og/eða í síma: 862-5162.
 
ffec3a8e-89a9-4dba-b0a8-44dc2a50ee4f.jpeg
Ingunn Elísabet Hreinsdóttir og Guðrún Óskarsdóttir