Í dag opnar útskriftasýning myndlistarnema á BA stigi - Fararsnið.

Sýningin er óhefðbundin að því leyti að hún er mun seinni á ferðinni en vanalega en hefðbundin að því leyti að hún er vitnisburður og afsprengi 3 ára lærdómsferli nemenda.
Í ár eru 20 nemendur sem sýna verk sín á Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum og eru þau jafn ólík og þau eru mörg.
 
Ólöf Kristín Sigurðardóttir safnstjóri Listasafnsins opnaði sýningu formlega í gær að viðstöddum nemendum, starfsfólki skólans og fagaðila.
Ólöf vísaði í nafn verskins og óskaði nemendum góðrar ferðar er þau hefja flugið, og sagði þau fara glæsilega af stað.
frida_og_loa.jpg
Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor og Ólöf Kristín Sigurðardóttir safnstjóri

 

Jóhannes Dagsson starfandi deildarforseti myndlistardeildar hóf dagskrána og lýsti yfir stolti og þakkæti að sýningin hafi komið eins vel saman og raun ber vitni.
johannes_dagsson_.jpg
Jóhannes Dagsson starfandi deildarforseti

 

Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor Listaháskólans sagðist glöð yfir geta staðið og ávarpað samkomuna því á tímabili var ekki útlit fyrir að sú yrði raunin.
 
„Á tímabili í vetur sá ég ekki fyrir mér að nokkurt okkar gæti átt þá stund þetta vor sem við erum að upplifa öll saman hér í kvöld. Hér hafa útskriftarnemar sem glímdu við heimssögulegar aðstæður á sinni lokaönn í bakklárnámi, ekki bara sannað þrautseigju sína og seiglu, heldur náð að setja saman sýningu á afrakstri þeirra listrænu tilrauna og ekki síður íhygli sem þessi óvenjulegi vetur sannarlaga krafðist af þeim. Og það þrátt fyrir að allt, bæði nám og persónulegt líf, færi fram með hætti sem fæsta hefði getað órað fyrir.“
 
Lesa má ávarp Fríðu Bjarkar í heild sinni hér fyrir neðan.
 
carl_sirra_og_hekla.jpg
Carl Boutard, Sirra Sigrún Sigurðardóttir og Hekla Dögg Jónsdottir kennarar BA myndlist
 
Listaháskólinn fagnar þessum merka áfanga á þessum fordæulausu tímum og óskar útskriftarefnunum, aðstandendum þeirra og kennurum innilega til hamingju með vel lukkaða sýningu.
 

Sýningin er á Listasafni Íslands, Kjarvalsstöðum og stendur til 17. Júní.

Sýningin er opin á opnunartímum safnsins frá kl. 10 – 17.

Leiðsögn um sýninguna verður sunnudaginn 14. júní en þá mun sýningarstjórinn Kristín Dagmar Jóhannesdóttir leiða áhugasama um.

Kvöldopnun verður mánudaginn 15. júní frá 17 – 20.

 
 
Útskriftarsýning Kjarvalsstöðum
ávarp rektors
fbi 12.06.20
 
 
Kæru útskriftarnemar, kæru gestir!
 
Á tímabili í vetur sá ég ekki fyrir mér að nokkurt okkar gæti átt þá stund þetta vor sem við erum að upplifa öll saman hér í kvöld. Hér hafa útskriftarnemar sem glímdu við heimssögulegar aðstæður á sinni lokaönn í bakklárnámi, ekki bara sannað þrautseigju sína og seiglu, heldur náð að setja saman sýningu á afrakstri þeirra listrænu tilrauna og ekki síður íhygli sem þessi óvenjulegi vetur sannarlaga krafðist af þeim. Og það þrátt fyrir að allt, bæði nám og persónulegt líf, færi fram með hætti sem fæsta hefði getað órað fyrir.
 
Það sem hér ber fyrir augu hefur því ekki einungis krafist óvenju mikils af nemendum, heldur einnig af starfsfólki Listaháskóla Íslands og sjálfu safninu, Listasafni Reykjavíkur. Það hafa allir þurft að mæta óvæntum og umfangsmiklum áskorunum með lausnarmiðuðu hugarfari. Mig langar því til að byrja á því að þakka ykkur öllum ykkar jákvæða viðhorf til þess ærna verkefnis sem beið okkar í vetur og hefur nú skilað þeim árangri að útskriftarnemendur á þessari óvenjulegu önn geta átt sitt samtal við samfélagið með sinni sýningu líkt og hefð er fyrir við Listaháskólann.
 
Einn þeirra þátta sem gera tíma á borð við þá sem heimurinn hefur upplifað undanfarna mánuði svo erfiða, er óvissan. Að vita ekki hvað bíður manns, hvað er framundan.
 
Kannski liggur styrkur listamanna einmitt í því að hafa bæði hæfileikann og þjálfunina til að takast á við óvissuna. Takast á við það sem Hreinn Friðfinnsson, myndlistarmaður, lýsti sem"stöðugri óvissu" í samnefndu verki sem hann vann með Kristni E. Hrafnssyni. Hvort hann er að vísa til sinnar eigin vinnuferla, eða ástands heimsins, skiptir ekki máli - það sem skiptir máli er að greina þau sóknarfæri sem felast í óvissunni og nýta hana til að skoða og skapa, breyta og bylta - í einhversskonar viðleitni til að takast á við aðstæður m.a. með því að ögra því viðtekna, staðnaða eða sjálfgefna.
 
Og það er einmitt það sem þið hafið áorkað undanfarna mánuði og sett fram í hnotskurn hér á Kjaralsstöðum í kvöld.
 
Það er hefð fyrir því að þessi sýning þjóni sem einskonar kynning gagnvart fagsamfélagi listanna. Því hér koma ekki einungis vinir og vandamenn, heldur einnig listamenn, listunnendur og listgreinendur til að skoða og upplifa verk þeirra sem eiga eftir að móta með þeim framtíðina. Koma sem sagt til að upplifa ykkar verk, kæru útskriftarnemar, sem saman leggið grunn að nýrri fagurfræði, nýjum hugmyndum, aðferðum og áherslum útfrá gildum og sýn ykkar eigin kynslóðar.
 
Þannig breytist heimurinn fyrir ykkar tilstilli, hægt en örugglega.
Til hamingju með sýninguna ykkar!