Umsóknarfrestur í MA nám í sýningagerð er til 15. júní nk.

Sýningagerð er mikilvægur hlekkur í fjölþættu vistkerfi myndlistar. Hugtakið nær yfir alla þekkingarsköpun sem á sér stað í sýningaferlinu; frá hugmynd til rannsókna, samtala og tilrauna; samninga, fjármögnunar, framkvæmdar og miðlunar; greinandi umfjöllunar og gagnrýni. Með sýningu er átt við hvers kyns framsetningu verka listamanna; eins eða fleiri; á einum stað eða mörgum; og hvort sem framsetningin er þverfagleg eða bundin við myndlist eingöngu.

Sýningagerð krefst þess af iðkendum hennar, sýningastjórnendum, að þeir taki ekki samfélagi og náttúru sem fyrirframgefnum fyrirbærum. Það er sérstaklega mikilvægt á meiriháttar umbreytingartímum eins og okkar, þar sem við erum áhorfendur að og þátttakendur í vatnaskilum í sögunni. Þar sem við stöndum í skilunum miðjum og vitum ekki hvort þau verða að vendipunkti í framtíð okkar eða ekki, verðum við meðvituð um framvindu sögunnar og öðlumst nýjan skilning á hlutverki og vægi listanna í endursköpun samfélaga í kjölfar meiriháttar heimsatburða eins og þeirra sem við lifum nú.

Á undanförnum mánuðum, á Íslandi og á alþjóðavettvangi, höfum við fylgst með listamönnum og sýningastjórnendum bregðast við þegar heimurinn eins og við þekktum hann stöðvaðist, og svara með því að skapa nýjar leiðir og aðferðir til að miðla listum og eiga tjáskipti; hefjast handa við að skilja og svara þeim djúpstæðu breytingum á samfélagi okkar sem við stöndum sameiginlega frammi fyrir.

Sumt verður ekki hugsað eða skilið með aðferðum vísinda, heldur þarf að beita aðferðum listanna; leita inn á fræðasvið sem ekki er hægt að nálgast með sama rökvísa hætti og sum önnur fræði, af því að listsköpun er snar þáttur í mannlegu eðli, og hún getur verið bæði órökvís og óvænt. Í sýningagerð er leitast við að draga fram og flétta saman hugmyndir og þekkingu úr ólíkum áttum og miðla til samfélagsins með nýskapandi hætti; til að skilja betur heiminn sem við búum í; sögu okkar, samtíma og framtíð; og eiga í gagnvirkri og gagnrýnni samræðu um viðfangsefni og áskoranir tímanna sem við lifum, í dýnamísku samtali við listamenn og áhorfendur.

Í Listaháskóla Íslands hefst í haust kennsla við sýningagerð; nýja námsleið innan meistaranáms í myndlistardeild. Í náminu verður litið á sýningagerð sem sjálfstæða listgrein á vettvangi myndlistar sem einskorðast þó ekki við hana, heldur sem leið til að stofna til samtals við fræðasvið lista almennt. Sýningagerð bindur þannig iðkendur hennar ekki við mörk einnar listgreinar eða fræðasviðs. Hún getur verið valkostur fyrir fólk sem hefur stundað myndlistarnám eða annað listnám, sem og þau sem eiga að baki menntun og störf á öðrum sviðum, og finna að hugmyndir þeirra eiga sér samsvörun í aðferðum og viðfangsefnum sýningagerðar.

Í starfi Listaháskólans er lögð rík áhersla á lýðræðislega þátttöku nemenda í mótun námsins sem þeir stunda. Hann er þverfaglegur suðupottur fræðasviðs lista og þar þrífst kraftmikið jafningjasamfélag skapandi einstaklinga með afar ólíkar aðferðir og nálgun við listsköpun. Meistaranemar í sýningagerð munu geta sótt námskeið í öðrum deildum skólans samhliða sjálfstæðri rannsókn, og fræða- og aðferðatengdum námskeiðum innan myndlistardeildar.

Áhersla verður lögð á að skapa vettvang innan og utan skólans þar sem nemendur geta raungert hugmyndir sínar.

Við fögnum þeirri viðbót sem námið er til að rannsaka, skapa og raungera; og fást við sýningagerðarformið.

Hanna Styrmisdóttir prófessor í sýningagerð við Listaháskóla Íslands