Úthlutun úr Rannsóknasjóði LHÍ 2020

 
Styrkjum úr Rannsóknasjóði Listaháskóla Íslands hefur verið úthlutað til fjögurra rannsóknaverkefna akademískra starfsmanna skólans. Er þetta í annað sinn sem úthlutað er úr sjóðnum.
 
Hlutverk þessa innri styrktarsjóðs rannsókna á fræðasviði lista er að styðja við verkefni fastráðinna akademískra starfsmanna með rannsóknahlutfall og stuðla með því að eflingu rannsókna á fagsviðum lista. Borin er virðing fyrir ólíkri nálgun, viðfangsefnum og framsetningu en skilyrði er að verkefnum sé miðlað á opinberum vettvangi.
 
Eftirtalin verkefni hlutu styrk úr sjóðnum að þessu sinni: Tónlist handan tónlistar í umsjón Berglindar Maríu Tómasdóttur, dósents við tónlistardeild,  Þensla í umsjón Garðars Eyjólfssonar, dósents við hönnunar- og arkitektúrdeild, Öll hreyfing hefur huga í tíma og rúmi í umsjón Sveinbjargar Þórhallsdóttur, prófessors við sviðslistadeild, og Þverfaglegar aðferðir fyrir vistfræðileg afsprengi (e. Transdisciplinary Methods for Hybrid Ecologies) í umsjón Thomas Pausz, lektors við hönnunar- og arkitektúrdeild.
 
Verkefni Berglindar Maríu Tómasdóttur, Tónlist handan tónlistar, er listrannsókn sem miðar að því að víkka út hugmyndir um tónsköpunarferlið í gegnum tilraunakenndan spuna og þverfaglega nálgun. Tilgangur verkefnisins er að valdefla samtímatónlistarflytjandann sem skapandi tónlistarmann með þeim aðferðum sem fyrirfinnast í tilraunatónlist. Verkefnið felur í sér margþátta samvinnu umsækjanda; þróun nýrrar útgáfu af eldra hljóðfæri með hljóðfærasmiði, samstarf við önnur tónskáld, tónlistaflytjendur og listrannsakendur um gerð tónlistarleikhúsverks og óperu.
Í umsögn stjórnar Rannsóknasjóðs Listaháskólans segir að um sé að ræða áhugavert og framsækið verkefni sem stuðli að þverfagleika og miði að því að brjóta niður hefðbundna valdastrúktúra á sviði tónlistar. Verkefnið feli í sér nýja sýn og nýja nálgun á sviði tónsköpunar og tónlistarflutnings hér á landi.
 
berglindmariatomasdottir.jpg
Tónlist handan tónlistar - Berglind María Tómasdóttir

 

 
Þensla nefnist rannsóknar- og sýningargerðarverkefni í umsjón Garðars Eyjólfssonar. Þar verða tekin fyrir verk eftir íslenska hönnuði og listamenn sem ögra mörkum hönnunar og starfa á vettvangi sem á ensku er vísað til sem „expanded field of design.“ Það sem einkennir þá hönnunarhugsun og nálgun sem þar er tekin til skoðunar er viðleitni til að veita mótspyrnu gegn, þenja og þrýsta út hefðbundnum skilgreiningarömmum fagsviða. Umhverfi og vistkerfi eru mörgum þessara hönnuða hugleikin, á meðan aðrir beina sjónum að félagslegum veruleika og tækniframförum í samtímanum. Markmið verkefnisins er að veita yfirsýn yfir víðara svið hönnunar sem hefur lítt verið rannsakað hér á landi til þessa. Niðurstöðum verður miðla á sýningu næsta vetur og með gerð veglegrar sýningarskrár sem veitir innsýn í heim hönnunar á Íslandi í dag og alþjóðlegs samhengis framsækinnar hönnunarhugsunar.
Í umsögn stjórnar Rannsóknasjóðs Listaháskólans segir að verkefnið sé bæði tímabært og þarft. Um sé að ræða mikilvægt innlegg til umræðna og frekari umfjöllunar um víðari nálgun í samtímahönnun hér á landi, sem hafi mikið gildi fyrir innlendan fagvettvang hönnunar og lista.
 
Dansrannsókn Sveinbjargar Þórhallsdóttur, Öll hreyfing hefur huga í tíma og rúmi, felst í að þróa aðferð í kóreógrafíu sem hefur það að markmiði að tengja innra ástand líkamans við hreyfingar og fanga þannig tímann í ákveðnu hugarástandi. Markmið rannsóknarinnar er að hámarka meðvitund líkamans á sviði, greina þá óorðuðu þekkingu sem líkami og tækni dansarans býr yfir, - þá sögu og reynslu sem búi í líkamshreyfingum, og leitast við að koma því til skila án þess að skapa rof á milli dansarans á sviðinu og áhorfenda í sal.
Í umsögn stjórnar Rannsóknasjóðs Listaháskólans segir að um sé að ræða vel skilgreint og áhugavert verkefni sem hafi mikið gildi fyrir innlendan fagvettvang samtímadans og rannsókna á því sviði, og sé til þess falið að vekja athygli á þróun listformsins í alþjóðlegu samhengi. Verkefnið sé fjölþætt og þverfaglegt, og tali skýrt inn í samhengi framsækinna rannsókna á sviði lista og vísinda í dag.
 
sveinbjorgthorhallsdottir2.jpg
Öll hreyfing hefur huga í tíma og rúmi - Sveinbjörg Þórhallsdóttir

 

Viðfangsefni Thomas Pausz í viðamiklu verkefnaneti undir yfirskriftinni Þverfaglegar aðferðir fyrir vistfræðileg afsprengi felur m.a. í sér kaflaskrif í útgáfu bókverksins Swamp & the new imagination á vegum MIT Press og Sternberg Press, sem fylgir eftir þátttöku rannsakanda í „Mýrarskálanum,“ the Swamp Pavilion á arkitektúrtvíæringnum í Feneyjum árið 2018, og þátttöku í sýningunni  The Wildflower í sýningarstjórn Becky Forsythe sem sett verður upp í Hafnarborg í september n.k.  
Í umsögn stjórnar Rannsóknasjóðs segir m.a. að um sé að ræða áhugaverða og framsækna rannsókn á vettvangi hönnunar, lista og vistfræði, sem sé til þess falin að vekja athygli á áskorunum og brýnum verkefnum samtímans.    
 
thomaspausz.jpg
Þverfaglegar aðferðir fyrir vistfræðileg afsprengi - Thomas Pausz

 

 
Stjórn Rannsóknasjóðs LHÍ 2019 – 2021 skipa Þórhallur Magnússon, tónskáld og deildarforseti tónlistardeildar Sussex háskóla í Bretlandi (formaður), Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, lektor í listkennsludeild, og Alexander Roberts, lektor í sviðslistadeild.