Miðstöð ís­lenskra bók­mennta úthlutaði á dögunum styrkjum til útgáfu 45 bókverka. Verkin sem hlutu styrki eru gífurlega fjölbreytt og umfjöllunarefni þeirra af margvíslegum toga.
Meðal styrkhafa eru Anna Dröfn Ágústsdóttir, sagnfræðingur og fagstjóri fræða við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands og Guðni Valberg hollnemi Listaháskóla Íslands, arkitekt og einn eiganda arkitektastofunnar Trípólí. Anna Dröfn og Guðni hlutu 1.500.000 kr útgáfustyrk fyrir bókinni Laugavegur sem Angústúra kemur til með að gefa út.
 
Í bókinni Laugavegur verður byggingarsaga aðalverslunargötu Reykjavíkur sögð í máli og myndum. Áhersla verður á myndræna framsetningu þar sem önnur götumynd en sú sem við þekkjum í dag mun birtast fólki ljóslifandi og tilraun gerð til að útskýra hvers vegna Laugavegurinn hefur þróast með þeim hætti sem raun ber vitni. 
 
Anna Dröfn og Guðni segja Laugaveginn eiga sérstakan sess í byggingar- og verslunarsögu Reykjavíkur. Gatan hefur tekur sífelldum breytingum því þar eru alltaf einhverjar framkvæmdir. Segja má að það hafi verið einkennandi fyrir götuna frá upphafi. Mörg húsanna voru byggð í mörgum áföngum og yfir langan tíma og með réttum lyklum má lesa þessa sögu í útlit þeirra. Að þessu leyti á Laugavegurinn sér enga hliðstæðu í Reykjavík og hefur þessi fjölbreytni bæði hvað varðar notkun á byggingarefni og byggingarstílum orðið eitt af einkennum hennar. 
 
Anna Dröfn og Guðni hafa áður gefið út bókina Reykjavík sem ekki varð sem hlaut verðskuldaða athygli og naut mikilla vinsælda.
 
Þá hlaut Pétur H. Ármannsson sem hefur kennt við námsbraut í arkitektúr við hönnunar- og arkitektúrdeild nú í 20 ár, 1.200.000 kr styrk fyrir útgáfu á bókinni Guðjón Samúelsson arkitekt í útgáfu Hins íslenska bókmenntafélags.
 
Listaháskóli Íslands óskar styrkþegum innilega til hamingju, það verður spennandi að fylgjast með þeirri flóru bókmenntaverka sem verða að veruleika í kjölfar úthlutuninnar.

 

*Ljósmynd með frétt tekin af Aldísi Pálsdóttur