Doktorsstöður lausar til umsókna innan rannsóknarverkefnis um tengsl listar og samfélags FEINART.

Rannsóknaverkefnið FEINART hlaut á síðasta ári veglegan Marie Curie styrk úr Horizon 2020 rannsóknaráætlun Evrópusambandsins. Háskóli Íslands og Listaháskóli Íslands eru þátttakendur í verkefninu ásamt fleiri háskólum og listasöfnum, en það er Wolverhampton-háskóli sem fer með stjórn þess. Það eru þeir Björn Þorsteinsson, prófessor í heimspeki, Benedikt Hjartarson, prófessor í almennri bókmenntafræði og menningarfræði og Jón Ólafsson, prófessor í menningarfræði sem leiða verkefnið af hálfu Háskóla Íslands en Bryndís H. Snæbjörnsdóttir prófessor fyrir hönd Listaháskóla Íslands.
 
Alls munu ellefu doktorsnemar vinna við verkefnið og er nú kallað eftir umsóknum. Doktorsnemar munu m.a. rannsaka list sem felur í sér þátttöku og beinar aðgerðir, þróun hugmynda um gildi slíkrar listar og tengsl listar og samfélags, m.a. hér á landi þar sem Ísland verður tekið sem dæmi um jaðarsvæði í Evrópu. Eitt skilyrða fyrir umsóknum er að viðkomandi hafi ekki haft fasta búsetu í viðkomandi landi í meira en 12 mánuði síðustu þrjú ár áður en verkefnið hefst (okt/nóv 2020). Eðli máls samkvæmt eru umsækjendur búsettir hér á landi eingöngu gjaldgengir í stöður sem bjóðast við samstarfsskóla verkefnisins erlendis; Háskólann í Wolverhampton (ESR 1, ESR 2, ESR 3) og Zeppelin Háskólann í Friedrichshaven í Þýskalandi (ESR 9, ESR 10)
 
Skilafrestur umsókna er 30. júní 2020
 
Allar nánari upplýsingar um umsóknarferlið, ásamt rafrænu eyðublaði er að finna á heimsíðu verkefnisins: https://feinart.org/esr-recruitment/