Lýsing:
Fræðimenn á mörgum sviðum hafa sýnt að nútímaarkitektúr (e. modern architecture) varð til sem svar við heilsufarsaðstæðum. Nútímahugmyndir um birtu, hreinlæti, loftræstingu, holræsingar og aðgreiningu fúnksjóna og samgangna ákvarðar arkitektúrinn, þótt oft sé því haldið fram að útlitið ráði öllu. Þetta námskeið skoðar hvernig heilsufar landsmanna frá upplýsingastefnunni um 1750 ákvarðaðist af híbýlum þeirra og hvernig þróun í híbýlamálum hélst í hendur við aukna velmegun. Er tilviljun að fyrsta stórbyggingin hönnuð af íslenskum arkitekt var berklahæli, Vífilsstaðir eftir Rögnvald Ólafsson, sem lést á sjálfu hælinu? Hvaða áhrif hafði spænska veikin á skipulag Reykjavíkur? Hvaða áhrif hafði betrunarhugtakið?
 
Athygli skal vakin að námskeiðið byggir ekki á fyrirliggjandi rannsóknum kennara, heldur er ætlast til að námskeiðið sé eins konar rannsókn, þar sem kennari leiðir hóp rannsakenda sem öll eru þó að lesa efnið í fyrsta skipti. Tilgangur með námskeiðinu er ekki að koma með hagnýtar lausnir, heldur er ætlunin þvert á móti að skapa skjól fyrir slíkri pressu og veita nemendum tækifæri til að spyrja gagnrýninna spurninga um tilhneigingu mannfólksins til að hanna lausnir sem gera lítið annað en að skapa ný vandamál.
 
Lærdómsviðmið:
  • að nemendur öðlist þekkingu á íslenskri arkitektúrsögu út frá sambandi arkitektúrs og hins manngerða umhverfis.
  • að nemendur tileinki sér nýjar stefnur og strauma í arkitektúrsagnfræði.
Námsmat:
Ætlast er til að þau sem taka námskeiðið til eininga skili stuttri (3 bls) greinargerð um samband arkitektúrs og hins manngerða umhverfis og stutt (5m) kynning á viðfangsefni í fyrirlestri 2.
 
Fyrir hverja er námskeiðið: Nemendur Listaháskóla Íslands, aðra háskólanemendur, starfandi arkitekta og hönnuði, almenning.
 
Hvað er kennt:  Arkitektúrsaga
 
Kennari: Óskar Örn Arnórsson 
Einingar: 2
Kennslutungumál: íslenska
Staðsetning: LHÍ Laugarnes
Kennslutímabil: 8. júní til 19. júní
Tímasetning: kennt á þriðjudögum og föstudögum kl. 9-11
 
Kennsluáætlun:
  1. Fyrirlestur: 1400-1750  Torfbær, Bóndabær. | Svarti dauði, stóra bóla. | Innréttingar, Stóru Akrar, Viðeyjarstofa. | Lækning: Ljós, guð refsing.
  2. Fyrirlestur: 1750 – 1850 Steinn, timbur, Þorp | Móðuharðindi, veðrátta, hungur, geðveiki. |
    Hegningarhús, holdsveikraspítali, skólar. | Lækning: menntun.
  3. Fyrirlestur: 1850-1950 Þéttbýli, Bær. | Slen, mengun, malaría. | Guðmundur Hannesson, Rögnvaldur Ólafsson, Louis Pasteur. | Lækning: Lyf, kæling, söltun, hreyfing.
  4. Fyrirlestur: 1950-2020 Stórborg. | Firring, sprengjan, ójöfnuður. | Offita, mengun sykursýki, alnæmi, COVID19, einmanaleiki. | Lækning: Alnetið, erfðabreytingar, bólusetningar.
Skráningagjald fyrir sumarnámskeið er 3.000.- kr.  Nemendur LHÍ geta tekið námskeið án endurgjalds.
Námskeið sem tekin eru án eininga geta þó skráðst, án eininga, á námsferil nemenda.
 
Forkröfur:
Stúdentspróf eða sambærilegt nám.
 

Rafræn umsókn