Listaháskóli Íslands hefur gengið til samstarfs við European Opera Academy, EOA.

 
EOA er samstarfsnet fimmtán evrópskra listaháskóla um menntun á sviði óperulistar. Ópera er lifandi þverfaglegt listform. Megináhersla EOA er að auðga reynslu og auka námstækifæri nemenda með skiptinámi og -kennslu og að þróa nám á sviði óperulistar í víðu samhengi. Nemendum bjóðast tækifæri til þess að sérhæfa sig og taka þátt í námskeiðum og sýningum á vegum skólanna og í samstarfi við tónlistarhátíðir og óperuhús, byggja upp og mynda tengslanet á alþjóðlegum vettvangi óperu.
 
Þóra Einarsdóttir, prófessor við Tónlistardeild og fagstjóri söngs, leiðir samstarfið fyrir hönd Lhí ásamt alþjóðaskrifstofu skólans. Hún segir að samstarfið í EOA bjóði upp á mikla möguleika fyrir söngbrautina en þar sé líka að finna tækifæri m.a. fyrir tónskáld, hljóðfæraleikara, sviðshöfunda og hönnuði. Þóra segir heiður falinn í því að vera boðið að taka þátt í samstarfi með þessum virtu háskólum. Á söngbraut Lhí hefur Þóra lagt áherslu á þróun teymisvinnu. Þar eru nemendur ekki með einn kennara heldur sækja tíma hjá öllum kennurum brautarinnar. Þetta er námstilhögun sem vakið hefur athygli og er mikilvægt skref í námsþróun með áherslu á valdeflingu og sjálfstæði, segir Þóra. Stjórnendur sumra samstarfsskólanna okkar hafa lýst miklum áhuga á að læra af okkur og taka upp svipað kennslufyrirkomulag. Það er mikil þörf á breyttu viðhorfi í tónlistarnámi jafnt sem í tónlistarbransanum öllum. Annað sem við í Lhí höfum fram að færa og horft er til er öflug tónsmíðadeild. Þetta samstarf mun vonandi efla enn frekar þverfaglegt nám og samstarf milli deilda. Þetta samstarf tengist á vissan hátt samstarfi tónlistardeild Lhí við þróun NAIP meistaransámsins en í því samstarfi safnaðist mikil þekking og reynsla sem við byggjum á. Við getum lært mikið af virkri þátttöku í samstarfsneti á borð við EOA og mun þetta án efa hjálpa okkur að byggja upp og þróa nám og vettvang fyrir óperuflutning á Íslandi.
 

Skólarnir sem taka þátt í EOA samstarfinu auk Lhí eru:

 
Conservatorio di Musica Arrigo Boito í Parma,
Conservatorio di Musica í Flórens
Conservatorium Maastricht
Escola Superior de Musica e artes do Espetáculo (ESMAE) í Porto
Hochschüle Für Musik und Theater í Hamburg
Jāzeps Vītols Latvian Academy of Music/JVLMA í Riga
Koninklijk Konservatorium í Antwerpen
Listaháskólinn í Ósló
Lithuanian Academy of Music and Theatre (LMTA) í Vilníus
Óperuháskólinn í Stokkhólmi
Royal Welsh College of Music & Drama í Cardiff
Samtök listaháskóla ISEACV í Valencia
Haute école de musique í Genf
Tónlistarháskólinn í Łódź
 
Nánari upplýsingar um EOA má finna hér.

Umsóknarfrestur í nám við Lhí fyrir haustið 2019 er til 4. maí.