Formáli

Fimmta tölublað Þráða kemur nú út þegar kórónuveiran Covid-19 (SARS-CoV-2) herjar á mannskepnuna og leggur áður óþekkt álag á stoðir, úthald og útsjónarsemi samfélagsins. Þrátt fyrir þetta ástand ber að finna greinarhöfunda sem ótrauðir halda áfram og láta þetta óvissuástand ekki trufla skrifin um tónlistina.   

Með stolti kynnum við fimmtu útgáfu þessa vefrits með sjö greinum eftir kennara tónlistardeildar LHÍ. Eins og áður er tónlist skoðuð út frá hinum ýmsu sjónarhornum. Atli Ingólfsson varpar hér fram framhaldsgrein þar sem kafað er dýpra í flatneskju nútímans og áhrif þess á tónlist á meðan Berglind María Tómasdóttir rýnir í verufræði og sögu tilraunatónlistar. Elín Gunnlaugsdóttir greinir frá nýju verki sem leitar á miðin milli tónlistar og myndlistar og Þráinn Hjálmarsson sendir okkur póstkort sem leiðir okkur í gegnum skúlptúrinn Intersection II eftir Richard Serra. Úlfar Ingi Haraldsson vegur og metur hvernig tónlist getur talist sem frásögn og Hróðmar I. Sigurbjörnsson greinir hendingaform og frásagnarmáta í Malarastúlkunni fögru eftir Schubert. Síðast en ekki síst fjallar Sigurður Halldórsson á persónulegan hátt um fiðluleikarann Jaap Schröder og áhrif hans á íslenskt tónlistarlíf síðustu 20 árin.

Um leið og ég þakka greinarhöfundum þessa tölublaðs kærlega fyrir framlagið vil ég benda á að Þræðir varðveita nú samanlagt 46 greinar og verður það að teljast afrek á fimm árum í svona litlu samfélagi sem okkar. Ennfremur þakka ég Þorbjörgu Daphne Hall og Atla Ingólfssyni fyrir þeirra góða ritstjórnarstarf.

 

F.h. ritstjórnar

Einar Torfi Einarsson