Við fyrsta hanagal!

Elín Gunnlaugsdóttir

 

Í þessari grein er ætlunin að fjalla um tilurð verkins Draumur Thoreau sem er innsetning á samsýningu þriggja listakvenna í Listasafni Árnesinga sem ber titilinn Tilvist og Thoreau.

Listakonurnar sem koma að sýningunni eru: Hildur Hákonardóttir, Eva Bjarnadóttir og undirrituð, Elín Gunnlaugsdóttir. Sýningarstjóri er Inga Jónsdóttir og var sýningin opnuð 16. nóvember 2019 og stendur hún til 26. apríl 2020.

 

Verkið Draumur Thoreau er samið út frá skrifum umhverfissinnans, náttúrufræðingsins og rithöfundarins Henry David Thoreau (1817-1862) í bókinni Walden eða Lífið í skóginum.[1] Í þeirri bók lýsir hann tveggja ára dvöl í húsi sínu við Waldenvatn í Massachusetts-ríki í Bandaríkjunum. Bókin Walden er grundvöllur sýningarinnar en hún kom út í íslenskri þýðingu Elísabetar Gunnarsdóttur og Hildar Hákonardóttur árið 2017, eða rúmum 160 árum eftir að hún kom fyrst út í Bandaríkjunum. Bókin á mikið erindi til okkar í dag því meginþema hennar er að einfalt líf sé farsælla og eftirsóknarverðara en það líf þar sem einblínt er á ytri gæði.

Bókin skiptist í átján kafla sem hver um sig tekur fyrir ákveðið efni. Textinn sem liggur að baki verkinu Draumur Thoreau er sóttur í kaflann um hljóð. Í kaflanum fer hann yfir þau hljóð sem hann heyrir innan og utan dyra meðan hann dvelur við vatnið. Í lok kaflans segist hann aldrei hafa heyrt hanagal meðan hann dvaldi í skóginum en fátt þyki honum þó fallegra. Hann útlistar svo í framhaldi af því hvað það væri gaman að hafa skóginn fullan af hænsnfuglum. Þessi skrif eru nokkuð skondin, einkum ef haft er í huga hvenær þetta er skrifað. Í hugum flestra eru það frekar fuglar eins og næturgalinn, lævirkinn og þrösturinn sem við tengjum við 19. aldar skáldin. Það að fylla rýmið af vængjaþyt, gaggi og hanagali auk sjónrænnar útfærslu á því sama er því tilraun til að láta þessa ósk Thoreaus rætast.

Það tók nokkurn tíma að finna hvernig hægt væri að útfæra þennan draum Thoreaus um skóg fullan af hönum og hænum. Hljóðinnsetningin var ekki svo flókin í útfærslu, það var nokkuð augljóst að það yrðu notaðir í henni upptökur úr hænsnakofa. Sjónræni hluti verksins var flóknari og hugmynd að honum fékk ég eftir lestur á viðtali Marie-France Rafael við Ara Benjamin Meyers sem birtist í bókinni Music on Display.[2]

Ari Benjamin Meyers (1972) fæddist í New York og nam við Juilliard skólann, Yale háskóla og Peabody stofnunina. Hann er nú búsettur í Berlín og mjög virkur í samtímatónlistarsenu borgarinnar. Í verkum sínum vinnur hann á mörkum sjónlistar og tónlistar en verk hans eru gjarnan flutt á listasöfnum eða í galleríum. Í huga hans er til dæmis raddskráin sjálf jafn mikill hluti af listrænni útfærslu verksins og sjálfur flutningur verksins. Einnig gerir hann innsetningar og gjörninga sem setja hið klassíska tónleikaform í myndlistarlegt samhengi. Í raun véfengir hann mjög hið klassíska tónleikaform og í samtali sínu við Marie-France Rafael segir hann:

Í dag teljum við vel heppnaðan lifandi flutning á verki [klassísku] vera ef það er nákvæmlega eins og flutningurinn á undan og flutningurinn þar á undan. Mér finnst þetta vera vandamál fyrir tónlistina sem lifandi listform, fyrir þróun hennar sem slíkrar. Þetta er ástæðan fyrir því að ég hætti að stjórna í hinum klassíska skilningi þess orðs.[3]

Dæmi um verk eftir Ara Benjamin Meyers er The Lightning and Its Flash (Solo for Conductor) frá árinu 2011. Í verkinu sitja áheyrendur eins og þeir séu hluti af hljómsveit og stjórnandinn stendur fyrir framan þá. Áheyrendur komast þannig úr sínu passíva hlutverki og verða virkari þátttakendur. Í raddskrá stjórnandans eru svo bara fyrirmæli um það hvernig hann eigi að stjórna, það eru engir hljómar eða laglínur. Stjórnandinn er flytjandinn, áheyrendur túlka hreyfingar hans og verkið verður til í höfði þeirra. Útkoman er því síbreytileg, allt eftir því hver er að hlusta.

Margir myndu segja að verkið minni á verkið 4:33 eftir John Cage en Ari Benjamin Meyers neitar því og segir að Cage hafi haft meiri áhuga á því að breyta þögn í tónlist. „Mitt verk gengur að ég held meira út á það að breyta tónlist í þögn. Ég spyr: er staður fyrir tónlist sem er utan þess sem við heyrum.“[4]

Það er út frá þessum hugleiðingum Meyers sem ég móta hina endanlegu gerð verksins. Sjónrænn hluti verkins hefur skýra skírskotun í tónlistarheiminn. Raddskráin býður upp á að vera túlkuð á margan hátt og hljóðrásin sem gengur meðan á sýningunni stendur, er eins og minning um verkið sem skráð er í raddskrána frekar en að vera verkið sjálft.

 

Verkið Draumur Thoreau

Mynd 1: Innsetningin Draumur Thoreau. Það er eins og gengið sé inn á æfingu þar sem flytjendurnir virðast hafa brugðið sér frá. Tilviljunarkennt gagg og vængjasláttur úr hátölurum gefur til kynna að þeir séu ekki langt undan. (© Kristín Þóra Guðbjartsdóttir)

Myndræn umgjörð Draums Thoreau er nótnapúlt úr spýtnaafgöngum og trébekkur frá fyrri hluta seinustu aldar. Á bekknum og nótnapúltinu liggur svo raddskráin og þar liggja líka pappírsmöppur. Hljóðrás er leikin í „surround“ kerfi og berast úr henni unnin og óunnin hljóð úr hænsnakofa.

Þær hugmyndir Ara Benjamin Meyers sem höfðu hvað mest áhrif á framsetningu á verksins eru:

  1. Uppröðun sem minnir á tónlistarflutning: Þegar sýningagesturinn gengur inn í verkið er eins og hann gangi inn á æfingu. Raddskráin og möppurnar eru lagðar handahófskennt á gamlan bekk og einnig er hluti af raddskránni á gömlu nótnapúlti. Uppsetningunni er ætlað að skapa þá tilfinningu að flytjendurnir séu skammt undan eða í pásu.[5]
  2. Gerðar voru tvær hljóðrásir. Hljóðin á þeim voru tekin upp í hænsnakofa, þar sem við heyrum bæði í hænum og hænsnahirði. Önnur hljóðrásin, hér eftir kölluð hljóðrás 1, var gerð fyrir gjörning sem fluttur var við opnun sýningarinnar og hin hljóðrásin, hér eftir kölluð hljóðrás 2, fyrir innsetninguna og gengur hún allan tímann meðan á sýningunni stendur. Hljóðrás 1 er hið eiginlega verk. Í hljóðrás 2, sem heyrist meðan á sýningunni stendur, koma hljóð hljóðrásar 1 í tilviljunarkenndri röð. Þannig verður hljóðrás 2 meira eins og minning um hið eiginlega verk fremur en að vera verkið sjálft. Sýningargesturinn hefur svo tækifæri til að fylla inn í eyðurnar með því að búa til sína eigin útgáfu af verkinu út frá því sem hann sér í raddskránni og heyrir í hátölurunum. Hér er því verið að vinna með innra eyrað líkt og Meyers gerir í verkinu The Lightning and Its Flash (Solo for Conductor). Það hentar líka vel innsetningu eins og þessari að nota tilviljunarkennd hljóð því þá verður ekki nein línuleg uppbygging á verkinu og sýningargesturinn getur gengið inn og út úr því þegar honum hentar.
  3. Raddskráin, sem er handskrifuð, er stór hluti af verkinu. Hugmyndir Ara Benjamin Meyers höfðu hér áhrif en hann taldi að ekki eigi að skoða raddskrána eingöngu út frá tónlistarlegum forsendum heldur eigi að líta meira á hana sem sveigjanlegt handrit sem hægt sé að endurskapa verkið eftir.[6]  Þegar sýningargestir sjá og heyra verkið Draumur Thoreau geta þeir ekki fylgt raddskránni frá upphafi til enda. Hið upphaflega verk hefur verið brotið niður í tuttugu og þrjú tilviljunarkennd hljóð, en með því að skoða raddskrána geta gestirnir endurskapað verkið í huga sér. Þannig er raddskráin mjög sveigjanleg, það verða til margar útgáfur á verkinu því hver og einn heyrir það innra með sér á sinn hátt.

Eins og áður hefur komið fram var fluttur gjörningur við opnun sýningarinnar af Kammerkór Suðurlands. Gjörningurinn er saminn í kringum sjö mínútna hljóðrás og er hljóðrásin upptaka úr hænsnakofa austur í Öræfum og auk þess má heyra í henni hanagal og kall hænsnabóndans sem tekið var upp um sama leyti. Út úr grunnrásinni eru líka klippt hljóð sem unnið er með á ýmsan hátt í hljóðforritinu Ableton Live. Kórparturinn er svo áframhaldandi úrvinnsla á þessum hljóðum. Úrvinnslan felst í því að í gjörningnum leika kórfélagar hænur og hana sem mætt eru á æfingu! Kórfélagarnir halda áfram með hljóð sem fyrst eru kynnt í hljóðrásarinni; kurra eins og hænsnabóndinn eða gagga eins og hænur. Um miðbik gjörningsins draga karlarnir (hanarnir) upp gúmmíhanska, slá þeim til og frá og herma þannig eftir vængjaslætti sem jafnframt má heyra í hljóðrásinni. Konurnar (hænurnar) slá höndum á lær sér og hvetja karlana (hanana) til dáða. Smám saman æsast leikar og hefst þá mikill hanaslagur sem endar á því að hænsnahirðirinn gengur á milli þeirra sem slást og rekur síðan alla út úr salnum. Í kórpartinum líkt og í hljóðrásinni byggist þannig smám saman upp ákveðin spenna sem slaknar síðan skyndilega á þegar hanarnir eru skildir í sundur.

Mynd 2: Í raddskránni má sjá bylgjuhreyfingar hljóðrásar 1 og einnig kórraddirnar.

 

Niðurlag

Af ofanskráðu má sjá að áhrif Meyers eru töluverð á verkið. Lestur á viðtalinu við hann hjálpaði mér að setja hugmyndir mínar í sjónlistarlegt samhengi. Ég átti líka mjög góð samtöl meðan ég vann að verkinu við Evu Bjarnadóttur, Einar Torfa Einarsson og Jesper Pedersen, sem einnig sá um tæknilega útfærslu á verkinu.

Innsetningin Draumur Thoreau er með sterka vísan í tónlistar- og hljóðheiminn sem ég kem úr. Hin kunnuglega æfingauppröðun virðist gera sýningargesti mjög afslappaða í kringum verkið. Þeir setjast gjarnan á bekkinn, raða möppunum og sumir fara að skoða raddskrána. Þetta kom satt að segja nokkuð á óvart þar sem flestum okkar er kennt að snerta ekki verk á listasöfnum. Þessi hegðun sýningagesta gefur líka tilefni til að skoða hvort hægt væri í öðru verki að virkja þá enn frekar.

Það er von mín að þessi upplifun fái þann sem heyrir Draum Thoreau og sér, til að hugsa um hljóð á annan hátt og að hann virki sitt innra eyra og ímyndunarafl. Í mínum huga hefur verkið einnig víðari skírskotun, því er ekki eingöngu ætlað að sviðsetja æfingu nokkurra hænsnfugla heldur er með því verið að spyrja þeirrar spurningar; hvort það sé æskilegt að ein dýrategund taki alveg yfir? Draumur Thoreau er þannig kannski ekki bara ljúfur draumur heldur miklu líkari þeirri martröð sem við á tímum vaxandi umhverfisógnar stöndum frammi fyrir.

 

Heimildir

Ritaðar heimildir:

Ásthildur Jónsdóttir. Tilvist og Thoreau, Hveragerði: Listasafn Árnesinga, 2019.

Rafael, Marie-France. Music on Display, Köln: Authors & Verlag der Buchhandlung Walther König, 2016.

Thoreau, Henry David, Walden eða Lífið í skóginum, Elísabet Gunnarsdóttir og Hildur Hákonardóttir þýddu, Reykjavík: Dimma, 2017.

Vefsíður:

Ari Benjamin Meyers, sótt 4. mars 2020.

http://www.aribenjaminmeyers.com/biography.html

 

---

[1] Henry David Thoreau, Walden eða Lífið í skóginum, Elísabet Gunnarsdóttir og Hildur Hákonardóttir þýddu (Reykjavík: Dimma, 2017)

[2] Marie-France Rafael, Music on Display (Köln: Authors & Verlag der Buchhandlung Walther König, 2016)

[3] Marie-France Rafael, Music on Display, bls. 39

[4] Marie-France Rafael, Music on Display, bls. 42

[5] Til gamans má geta að sumum sýningargestum hefur þótt óreiðan á bekknum helst til mikil og hafa tekið upp á því að raða möppunum í snyrtilega bunka.

[6] Marie-France Rafael, Music on Display, bls. 25